TF3NH RÆDDI UM GERVIHNETTI Í SKELJANESI
Njáll Hilmar Hilmarsson, TF3NH, mætti í Skeljanes fimmtudaginn 9. maí og fjallaði um gervihnattasamskipti hjá radíóamatörum og iðnaðinum. Þetta var síðasta erindið á vetrardagskrá ÍRA í febúar-maí.
Erindi hans var fróðlegt og áhugavert og veitti góða innsýn í þennan spennandi „heim“ fjarskiptanna sem radíóamatörum stendur til boða og iðnaðurinn notar. Hann fór yfir sendingar frá geimstöðinni (þ.á.m. SSTV), fjallaði um nýja Es’hail-2/P4A / Oscar 100 gervitunglið sem er fyrsta amatörgervitunglið á staðbraut (e. geostationary). Hann útskýrði síðan „fótspor“ (e. footprint) fjarskiptahnatta s.s. Intelsat IS-907 sem er mjög sterkur yfir landinu.
Njáll fór yfir sérhæfð loftnet, þ.e. föst og mótorstýrð (og uppbyggingu þeirra) og sýndi okkur m.a. einfalt handloftnet á 2 metrum og 70 sentímetrum frá fyrirtækinu Arrow Antenna sem nota má til fjarskipta um gervitungl og sem nokkrir radíóamatörar hafa notað með góðum árangri hér á landi um árabil.
Hann fjallaði að lokum um geimfjarskipti og útskýrði m.a. töp vegna andrúmsloftsins, vegalengdar og seinkun á samskiptum vegna vegalengdar.
Njáll svaraði spurningum viðstaddra greiðlega og voru menn mjög ánægðir með greinargott erindi og hlaut hann gott klapp að lokum. Alls mættu 22 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta sólríka fimmtudagskvöld.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!