,

Skínandi góður laugardagur í Skeljanesi

Þetta var eins og besta einkakennsla sagði Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG og var mjög ánægður.

Laugardaginn 6. október mætti Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, með hraðnámskeið (sýnikennslu) í Skeljanes fyrir þá félagsmenn sem vildu læra á loftnetsgreininn MFJ-269. Alls mættu 10 félagar í félagsaðstöðuna stundvíslega kl. 10 árdegis. Vilhjálmur Þór hóf dagskrána á vel fram settum fræðilegum inngangi. Hann skeiðaði síðan léttilega í gegnum spurningar viðstaddra og þegar kom að því að sýna notkun MFJ-269 loftnetsgreinisins, voru allir með á getu tækisins.

Sumir höfðu með sér sína eigin loftnetsgreina (TF2WIN). Aðrir sögðust sjá eftir því að hafa ekki tekið sína með sér þegar á staðinn var komið. Fram kom, að það eru ótrúlega fjölbreyttar mælingar sem má gera með þessu tiltölulega ódýra mælitæki.

Áhugavert er að geta þess, að símtöl bárust til stjórnarmanna strax í eftirmiðdaginn í gær og áfram í dag (sunnudag) frá félagsmönnum sem ýmist sögðust hafa gleymt viðburðinum, sofið yfir sig eða verið uppteknir. Sama óskin kom fram hjá þeim öllum: „Hvenær verður þetta endurtekið hjá Villa?” Námskeiðinu lauk laust eftir kl. 13. Frábær dagur og skínandi vel heppnaður!

Taflan var mikið notuð hjá TF3DX og sagðist hann hlakka til þess dags þegar félagið hefði efni á að fjárfesta í 2-3 hvítum tússtöflum til viðbótar við þessa einu sem væri allt of lítil.

Vilhjálmur Þór TF3DX notaði m.a. þetta heimatilbúna 1/4-? GP metrabylgjuloftnet í kennslunni.

Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN sýndi fyrirhyggju og kom með sinn loftnetsgreini á staðinn og sagðist bara ánægður með að sitja aftarlega. Sagði að þar væri meiri ró og næði enda nóteraði hann hjá sér flest af því sem Vilhjálmur Þór sagði.7

Nýjar vínarbrauðslengjurnar frá Björnsbakaríi á Seltjarnarnesi voru heitar úr ofninum þegar þær komu í hús í Skeljanesi. Vart þarf að taka það fram að þær gengu vel út.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

20 − 8 =