Rúm vika er síðan men urðu varir við að á ný var búið að mála fleiri en eitt „listaverk“ á langa bárujárnsvegginn á lóðinni við Skeljanes. Félagsmaður okkar, Baldvin Þórarinsson, TF3-Ø33 var óhress með þennan verknað enda síðast í byrjun júní s.l. sem hann málaði yfir samskonar „listverknað“.

Rigningardagar undanfarið hafa hamlað málningarvinnu utanhúss, en í dag, 24. ágúst mættu menn í Skeljanes og var rennt yfir bárujárnsveginn með málningarkústi. Aðkoman að húsinu er nú allt önnur, sbr. meðfylgjandi ljósmyndir. Þakkir til Flügger lita sem útvegaði málninguna.

Þakkir til Baldvins, TF3-Ø33 fyrir dugnað og góða aðstoð.

Stjórn ÍRA.

Svona var aðkoman áður en Baldvin hófst handa.
Baldi var ánægður með málninguna og sagðist bjartsýnn á að nú fengið þetta að vera í friði.
Verkefninu lokið. Allt önnur aðkoma að húsinu. Ljósmyndir: TF3JB.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 26. ágúst fyrir félagsmenn og gesti frá kl. 20 til 22.

Tillaga að umræðuþema: Lárétt loftnet eða lóðrétt?

Fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL stofa á 2. hæð verða opin. QSL kort eru tekin að berast aftur og hafa verið flokkuð í hólf félagsmanna. Kaffi og meðlæti verður í fundarsal. Nýjustu tímaritin liggja frammi.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

.

Leitað var til ráðgefandi opinberra aðila í tilefni framlengdrar reglugerðar um samkomutakmarkanir vegna kórónaveirufaraldurs. Niðurstaða er að okkur er heimilt að bjóða upp á kaffiveitingar, enda sé búnaður til að sótthreinsa hendur áður en áhöld eru notuð. Gæta beri að 1 metra nálægðarreglu og góðri loftræstingu. Fram kom ennfremur, að jákvætt er talið að nota andlitsgrímur.

Nýjustu tímait radíóamatörfélaganna liggja frammi á fimmtudagskvöldum.

Úr félagsstafinu. Frá vinstri: Þórður Adolfsson TF3DT, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Sigurður Smári Hreinsson TF8SM og Georg Kulp TF3GZ. Ljósmyndir: TF3JB.

Alþjóðlega vita- og vitaskipahelgin stendur yfir þessa helgi, 21.-22. ágúst.

Svanur Hjálmarsson, TF3AB virkjaði Knarrarósvita að þessu sinni. Andrés Þórarinsson, TF3AM heimasótti hann í kaffi í gær (21. ágúst) og fylgir frásögn hans sem hann birti á FB hér á eftir.

“Vitahelgin er um þessa helgi. Svanur, TF3AB var mættur við Knarrarósvita með sitt hjólhýsi og fortjald og hafði sett upp þessa fínu stöð. Tækin eru öll í færanlegum og sterkbyggðum skáp og þarf einungis að tengja 230V og loftnet við og þá er allt tilbúið.  Úti var vertikall með SGC 230 „autótjúner“ svo og dípóll á priki.  Á myndinni situr Svanur við tækin og unir sér hið besta. 

Aðrir gestir á þessum tíma voru Þór, TF1GW svo og Benedikt, TF3T sem skaust sem snöggvast frá sinni fínu stöð í Mýri.  Þetta var góður  hópur.  Ekki má láta hjá líða að nefna þetta fína spjall, svo og kaffi „und alles“; já og skonsur sem Þór kom með og hafði sjálfur og í eigin persónu útbúið fyllinguna sem var ekkert venjuleg. Ég þakka góðar móttökur”.

Þakkir til Andrésar Þórarinssonar, TF3AM fyrir þessa skemmtilegu frásögn ásamt ljósmynd.

Stjórn ÍRA.

Svanur Hjálmsson TF3AB virkjaði Knarrarósvita í Alþjóðlegu vita- og vitaskipahelginni. Hér er hann við tækin sem hann setti upp í fortjaldi við hjólhýsi sitt við vitann. Ljósmynd: Andrés Þórarinsson TF3AM.

Góð mæting var í Skeljanes fimmtudagskvöldið 19. ágúst. Mannskapur á báðum hæðum og góðar umræður. Rætt var um fjarskiptin og skilyrðin á böndunum og um Alþjóðlegu vita- og vitaskipahelgina, en viðburðurinn hefst í dag (laugardag) og stendur yfir um helgina 21.-22. ágúst. A.m.k. 1 íslenskur viti er virkjaður að þessu sinni, Knarrarósviti við Stokkseyri.

Ennfremur var mikið rætt um loftnet, m.a. um grein Kristjáns Benediktssonar, TF3KB í nýjasta hefti CQ TF (3. tbl. 2021) bls. 37 sem hann kallar „Tilbrigði við deltur“. Þar segir Kristján m.a.: „Deltan er auðveld í uppsetningu, þarf bara einn uppfestipunkt og ekkert jarðplan og kostar lítið“ (sjá vefslóð á blaðið neðar).

Loftur E. Jónasson, TF3LJ var sérstakur gestur okkar þetta fimmtudagskvöld. Hann er á landinu um þessar mundir en býr í Kanada og hefur kallmerkið VE2AO. Hann hafði frá mörgu fróðlegu að segja enda mikil gróska í áhugamálinu þar í landi. Gunnar Bergþór Pálsson, TF2BE færði okkur radíódót sem verður í boði frá og með næsta opnunarkvöldi. Bestu þakkir til Gunnars.

Alls mættu 17 félagar + 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta haustkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

http://www.ira.is/wp-content/uploads/2021/07/CQTF2021-3.pdf

Skeljanesi 19. ágúst. Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA og Loftur Jónasson TF3LJ/VE2AO ræða málin. Ljósmynd: TF3KB.
Við stóra fundarborðið. Frá vinstri: Björgvin Víglundsson TF3BOI, Sigurður Kolbeinsson TF8TN og Mathías Hagvaag. Mynd: TF3KB.
Kaffiveitingar voru í boði á ný 19. ágúst en meðlæti þurfti að vera innpakkað og handspritt var áskilið við kaffigeyma. Mynd: TF3JB.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A og Georg Kulp, TF3GZ gerðu fleira heldur en bara að setja upp nýjan 1,2 GHz endurvarpa í Bláfjöllum 19. ágúst, því þeir uppfærðu um leið móttökuna á KiwiSDR viðtækinu yfir netið sem sett var upp á fjallinu þann 30. júlí s.l.

Tækið hafði virkað mjög vel frá því það var tengt aftur í Bláfjöllum…nema að hvimleiðar truflanir heyrðust á 80 metrum, sérstaklega í kringum innanlandstíðnina 3637 kHz.

Ari sagðist hafa gert viðhlítandi ráðstafanir og þegar gerð var prufa 20. ágúst var allt 80 metra bandið tandurhreint. Vel gert hjá þeim félögum því viðtækið er mikið notað og margir voru búnir að benda á þessar truflanir.

Stjórn ÍRA.

Bláfjöll, vefslóð:  http://bla.utvarp.com:8080/

Tvö önnur KiwiSDR viðtæki yfir netið eru virk, þ.e. á Bjargtöngum í Vesturbyggð og á Raufarhöfn.
Bjargtangar, vefslóð: http://bjarg.utvarp.com
Raufarhöfn, vefslóð: http://raufarhofn.utvarp.com

Myndin var tekin 30. júlí 2021 þegar viðtækið var tengt á ný á fjallinu. Sjá má m.a. hvernig loftnetsvírinn (70 metrar að lengd) er tekinn frá tengiboxinu í gegnum einangrara. Í fjarlægð sést Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A rýna á mælitæki. Ljósmynd: TF3GZ.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A og Georg Kulp, TF3GZ fóru upp í Bláfjöll í dag, 19. ágúst og settu upp fyrsta endurvarpann í 1200 MHz tíðnisviðinu hér á landi.

Notaður er 1,2 GHz hluti Alinco DJ-G7E FM Wide stöðvar (sendiafl 1W) svo úr verður krossband endurvarpi á 1297 MHz. Varpinn er tengdur við VHF/UHF endurvarpskerfið í Blafjöllum/Skálafelli/Mýrum.

Um er að ræða uppsetningu í tilraunaskyni og eru félagsmenn hvattir til að prófa virknina.

Þakkir til þeirra Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A og Georgs Kulp, TF3GZ fyrir að leggja á fjallið í dag í þoku og rigningarsudda til að setja upp og tengja þennan áhugaverða búnað.

Stjórn ÍRA.

Alinco handstöðin er vistuð í þessum útikassa m.a. til að fá næga kælingu. Ljósmynd: Georg Kulp TF3GZ.
Tengikassinn er festur á einn af loftnetsturnunum efst á fjallinu. Loftnet varpans er stangarnet sem er fest á flatjárn sem gengur til hægri út úr turninum (sjá efst í hægra horni myndarinnar). Ljósmynd: Georg Kulp TF3GZ.

Alþjóðlega vita- og vitaskipahelgin er nú um helgina, 21.-22. ágúst. Einn íslenskur viti hafði verið skráður inn á heimasíðu viðburðarins í hádeginu í dag (19. ágúst). Það er Knarrarósviti (IS-0001) sem er staðsettur austan við Stokkseyri.

Svanur Hjálmarsson, TF3AB mun virkja kallmerkið TF1IRA um helgina. Hann áformar að verða við vitann til undirbúnings strax annað kvöld (föstudag) og reiknar með að verða á staðnum einnig á laugardag.

Hann hlakkar til að sjá sem flesta félaga á staðnum og nefnir, að menn geti komið með eigin tæki og búnað og tengt við rafmagn og loftnet þar á staðnum. Svanur er með GSM númerið 837-9000 ef menn hafa fyrirspurnir.

Bestu þakkir til Svans fyrir gott framtak.

Stjórn ÍRA.

https://illw.net/index.php/entrants-list-2021

Knarrarósviti er staðsettur sunnan við Stokkseyri. Hann er sá viti sem radíóamatörar hafa oftast virkjað á vita- og vitaskipahelgi hér á landi, eða 18 sinnum frá 1998. Vitinn verður því QRV í 19. skipti þegar kallmerkið TF1IRA verður sett í loftið um helgina. Ljósmyndin var tekin árið 2005 af TF3AO.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 19. ágúst fyrir félagsmenn og gesti frá kl. 20 til 22.

Tillaga að umræðuþema: Alþjóðlega vita- og vitaskipahelgin helgina 21.-22. ágúst n.k.   

Fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL stofa á 2. hæð veða opin. Sendingar af QSL kortum hafa borist frá Evrópu og verið flokkaðar í hólf félagsmanna. Kaffi og meðlæti verður í fundarsal. Nýjustu tímarit amatörfélaganna liggja frammi ásamt úrvali af af radíódóti sem stendur til boða.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

.

Til skýringar: Félagið leitaði til ráðgefandi opinberra aðila í tilefni framlengdrar reglugerðar um samkomutakmarkanir vegna kórónaveirufaraldurs. Niðurstaða var, að okkur er heimilt að bjóða upp á kaffi, enda sé búnaður til að sótthreinsa hendur áður en kaffiáhöld eru notuð. Gæta þurfi sérstaklega að 1 metra nálægðarreglu og góðri loftræstingu. Fram kom ennfremur, að jákvætt er talið að nota andlitsgrímur.

Úr fundarsal í félagsaðstöðunni í Skeljanesi.
Myndin er af ICOM IC-7610 100W HF/50 MHz móttöku-/sendistöð TF3IRA í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JB.

Félagið Íslenskir radíóamatörar, ÍRA, var stofnað í Reykjavík 14. ágúst 1946. Fyrsti aðalfundur var haldinn 21. nóvember sama ár. Á fundinum var m.a. kosið í stjórn og var Einar Pálsson, TF3EA kosinn fyrsti formaður félagsins. Hann var jafnframt handhafi leyfisbréfs radíóamatöra númer eitt hér á landi og fyrsti heiðursfélagi ÍRA. Nokkru eftir aðalfundinn, þann 7. febrúar 1947 var fyrsta reglugerðin um starfsemi radíóamatöra hér á landi sett.

Amatör radíó er fyrst og fremst áhugamál, bæði hér á landi sem annarsstaðar. Það hefur gjarnan verið nefnt vísindalegt áhugamál. Fjöldi radíóamatöra í heiminum í dag er nær 5 milljónir og hér á landi hafa verið gefin út yfir 500 leyfisbréf frá upphafi (1947). Til að öðlast leyfi þarf viðkomandi að gangast undir próf hjá Fjarskiptastofu. Þess má geta, að amatör radíó er eina áhugamálið sem hefur réttarstöðu samkvæmt alþjóðasamningum.

Opinber skilgreining: „Þráðlaus fjarskiptaþjónusta sem hefur að tilgangi eigin þjálfun, samskipti á ljósvakanum og tæknilegar athuganir sem radíóáhugamenn annast, þ.e. einstaklingar sem fengið hafa til þess heimild“.

ÍRA hefur aðsetur við Skeljanes í Reykjavík. Þar er opið hús fyrir félagsmenn og gesti öll fimmtudagskvöld kl. 20-22. Félagsmenn eru rúmlega 200 í dag. Vegna Covid-19 faraldursins hefur veisluhöldum vegna afmælisis verið frestað.

Hamingjuóskir til félagsmanna í tilefni dagsins!

Stjórn ÍRA.

.

Elín Sigurðardóttur TF2EQ og Árni Freyr Rúnarsson TF8RN í fjarskiptaherbergi TF3IRA í félagsaðstöðunni í Skeljanesi.

Góð mæting var í Skeljanes fimmtudaginn 12. ágúst. Sérstakir gestir: Marcel B. Badia, EA3NA. Marcel er mjög hress, er mikill DX-maður og er m.a. á heiðurslista DXCC með 368 einingar (geri aðrir betur). Einnig mætti Baldur Sigurðsson í hús, nýr félagsmaður okkar á Egilsstöðum (sem bíður eftir næsta námskeiði).

Marcel fékk sitt fyrsta leyfi 1959 og er QRV á morsi, tali og stafrænum teg. útgeislunar. Hann var mjög hrifinn af félagsstöð ÍRA, hafði nokkur sambönd og náði t.d. sambandi við tvo leyfishafa í heimaborginni Reus, í Katalóníu. Marcel færði félaginu útskrift af samböndum sínum við TF kallmerki. Fyrsta sambandið var við Kára Þormar, TF3KA 3.8.1959. Alls eru þetta hátt í 60 mismunandi TF kallmerki, sbr. eftirfarandi lista:

(TF1) TF1A, TF1EIN, TF1MM, TF1OL, TF1PS, TF1SS.
(TF2) TF2CT, TF2CW, TF2JB, TF2LL, TF2MSN, TF2000, TF2R.
(TF3) TF3AC, TF3AM, TF3ARI, TF3AWS, TF3CF, TF3CY, TF3CW, TF3DC, TF3DT, TF3EJ, TF3GB, TF3GL, TF3GN, TF3HP, TF3IG, TF3IM, TF3IMD, TF3IRA, TF3IYL, TF3JAM, TF3JB, TF3KA, TF3MH, TF3ML, TF3PPN, TF3T, TF3UA, TF3SV, TF3VE, TF3W, TF3ZA, TF3XEN, TF3YH.
(TF4) TF4CW, TF4RRC.
(TF5) TF5B, TF5BW, TF5TP.
(TF6) TF6JZ.
(TF7) TF7GX, TF7X.
(TF8) TF8GX, TF8SM.

Í salnum niðri var mikið spjallað; mest um loftnet, stöðvar og búnað. Menn eru t.d. mikið að velta fyrir sér að uppfæra búnaðinn. Mikið var talað um nýju Yaesu FTdx-10 100W HF/50/70 MHz stöðina og hún borin saman við Yaesu FT-991A (sem er 50 þús. kr. ódýrari) og er búin 100W sendi á HF/50/70 MHz – en hefur 2M og 70CM að auki.  

Alls mættu 20 félagsmenn + 1 gestur í Skeljanes þetta ánægjulega síðsumarskvöld í stafalogni og 18°C lofthita.

Stjórn ÍRA.

Skeljanesi 12. ágúst. Ársæll Óskarsson TF3AO og Marcel B. Badia EA3NA í fjarskiptaherbergi TF3IRA. Ljósmynd: Baldur Sigurðsson.
Rætt um DX’inn og DXCC. Frá vinstri: Jónas Bjarnason TF3JB, Jón G. Guðmundsson TF3LM og Marcel B. Badia EA3NA. Ljósmynd: Kristján Bendiktsson TF3KB.
Skilyrðin skoðuð á 20 metrunum. Gorg Kulp TF3GZ og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A. Ljósmynd: Baldur Sigurðsson.

Loftnetsmöstur langbylgjunnar hafa verið felld. Sigurður Harðarson, TF3WS sagði á FB síðu sinni í gær, 11. ágúst: „Núna um hádegisbilið var seinna mastur gömlu Langbylgjunnar á Vatnsendahæð fellt því það er verið að rýma hæðina fyrir nýrri byggð. Þetta var tignaleg sjón og heppnaðist vel“.

Loftnetsmöstrin tvö voru sett upp árið 1991 (70 metra há) eftir að 150 metra hátt mastur langbylgjustöðvarinnar hrundi í miklu óveðri þann 3. febrúar það ár. Að sögn Henrys, TF3HRY héldu turnarnir tveir uppi T-loftneti fyrir langbylgjuútsendingar RÚV.

Á FB síðu Andrésar Þórarinssonar, TF3AM voru m.a. þessar fróðlegu upplýsingar:

 „Talandi um Vatnsendahæðina þá er önnur hæð ekki langt frá, sjálf Rjúpnahæðin, þar sem allir (velflestir) sendarnir til fjarskipta innanlands og til útlanda voru staðsettir, línustýrðir frá Gufunesi, þ.e. Reykjavík radíó og e.t.v. fleiri. Nú er allt horfið, öll loftnet og byggingin sjálf. Þessi mynd var tekin í maí 2008 af Guðmundi Sigurðssyni, TF3GS við einn af elstu sendunum. Guðmundur starfaði þá við Rjúpnahæðarstöðina. Þegar myndin var tekin þá var allri starfsemi þar hætt.

Stöðvarhúsið og umhverfi á Vatnsendahæð. Myndin var tekin augnabliki áður en síðara mastrið var fellt. Ljósmynd: TF3WS.
Texti TF3WS með með myndinni: „Oft hef ég klifrað í möstrum um ævina en aldrei getað faðmað toppinn á  70 m. háu mastri á eins auðveldan hátt eftir að það féll á Vatnsendahæðinni í morgun“. Ljósmynd: TF3WS.
Menn virða fyrir sér fallna turneininguna. Fyrir miðju: Henry A. Hálfdánarson TF3HRY. Ljósmynd: TF3WS.
TF3GS við gamla langbylgjusendinn árið 2008. Ljósmynd: TF3AM.

Nýlega var vakin athygli á að Alþjóðlega Vita- og vitaskipahelgin 2021 nálgast og fer fram helgina 21.-22. ágúst n.k. Margir félagar hafa haft samband og spurst fyrir um hvaða fleiri vitar hafi verið virkjaðir hér á landi af radíóamatörum, eftir að fram kom að Knarrarósviti hafi oftast verið virkjaður,  eða 18 sinnum.

Á tímabilinu 1998-2020 voru alls 7 vitar virkjaðir og 11 mismunandi kallmerki notuð, sbr. eftirfarandi:

AKRANES – TF3DT (2016)

GARÐSKAGI – TF8IRA (2010, 2011, 2012, 2013, 2014, 2015, 2016, 2017)
GARÐSKAGI – TF8RX (2001, 2003)
GARÐSKAGI – TF7ØIRA (2016)

KNARRARÓS – TF1IRA (1998, 1999, 2000, 2001, 2002, 2003, 2004, 2005, 2007, 2008, 2009, 2013, 2014, 2015, 2016, 2017, 2018, 2019)
KNARRARÓS – TF6ØIRA (2006)

MALARRIF – TF3DT (2018)
MALARRIF – TF3JA (2018)

REYKJANES – TF8RX (2000)

SELVOGSVITI – TF1OL (2020)

VATNSNES – TF8RX (2004)

Myndin er af glæsilegu „færanlegu fjarskiptavirki“ Ólafs B. Ólafssonar, TF3ML á Vita- og vitaskipahelginni árið 2012. Stöðin var búin 5 staka einbands Yagi loftneti á 14 MHz frá OptiBeam, af gerð OB5-20. Sjá nánar skemmtilega frásögn í 4. tbl. CQ TF 2012, bls. 22-24. Vefslóð:  http://dev.ira.is/wp-content/uploads/2016/09/cqtf_30arg_2012_04tbl.pdf Ljósmynd: TF3JB.