Stjórn ÍRA hefur ákveðið að félagsaðstaðan í Skeljanesi verði lokuð fimmtudaginn 13. janúar.

Ákvörðunin byggir á gildandi tilskipun heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, en sér í lagi vegna ríkjandi óvissu í ljósi mikillar útbreiðsla faraldursins í þjóðfélaginu, þar sem ríkislögreglustjóri lýsti í gær, 11. janúar, yfir neyðarstigi almannavarna vegna Covid-19 í samráði við sóttvarnalækni. Nánar er vísað í umfjöllun í fjölmiðlum.

Ákvörðunin gildir fyrir fimmtudag 13. janúar. Athugað verður með að auglýsa opnun á ný strax og aðstæður leyfa.

Það er von okkar að þessari ákvörðun fylgi ríkur skilningur.

Stjórn ÍRA.

Teknar voru saman upplýsingar um TF kallmerki sem fengu skráningu á þyrpingu (e. cluster) í síðustu viku ársins 2021; 26.-31. desember.

Alls fengu 19 íslenskir radíóamatörar skráningu að þessu sinni. Flestir voru QRV á stafrænum mótunum (FT8 og FT4), RTTY og tali (SSB) á 10, 12, 15, 17, 20, 30, 40, 60, 80 og  160 metrum, auk QO-100 gervitunglsins.

Upplýsingarnar eru fengnar á http://www.dxsummit.fi/#/  Sambærilegar síður eru í boði á netinu til samanburðar. Fyrst er skráð kallmerki, þá teg. útgeislunar og band/bönd:

TF1A                   FT8 á 10 og 12 metrum.
TF1AM                SSB á 15 metrum.
TF1CB                  SSB á 20 metrum.
TF1EIN                 FT8 á 40 metrum.
TF1OL/P              FT8 á 30 metrum.
TF2CT                  FT4 og FT8 á 15, 17 og 40 metrum.
TF2MSN              FT4, FT8, RTTY og SSB á 12, 15, 17, 60 og 160 metrum.
TF3AO                  SSB á 20 metrum.
TF3IG                   FT4 á 20 metrum.
TF3JB                   FT8 á 80 og 160 metrum.
TF3MH                 FT8 á 15 metrum.
TF3PPN                FT8 á 15 og  40 metrum.
TF3T                    SSB á 10, 15 og 20 metrum.
TF3VE                  FT4 og FT8 á 15, 20, 30 og 60 metrum.
TF3VS                  FT8 á 12 og 15 metrum.
TF3XO                  SSB á 20 metrum.
TF3YOTA             SSB á 20 metrum og QO-100.
TF5B                     FT8 á 12, 17 og 40 metrum.
TF8KY                   SSB á 10 og 40 metrum.

Til skoðunar er að taka reglulega saman upplýsingar af þessu tagi.

Stjórn ÍRA.

Myndin er af fjarskiptaaðstöðu TF3JB í Reykjavík. Jónas var virkur á 80 og 160 metrum í síðustu viku ársins 2021. Ljósmynd: Jón Svavarsson TF3JON.

Tryggvi Garðar Valgeirsson, TF3TI hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað.

Samkvæmt upplýsingum frá Ara Þórólfi Jóhannessyni, TF1A og Hans Konrad Kristjánssyni, TF3FG andaðist hann á hjartadeild Landspítalans í gær, 5. janúar.

Tryggvi Garðar var á 57. aldursári; handhafi leyfisbréfs nr. 280.

Um leið og við minnumst Tryggva með þökkum og virðingu færum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar ÍRA,

Jónas Bjarnason, TF3JB
formaður

Næsta tölublað CQ TF, 1. tölublað 2021, kemur út 28. janúar n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið, s.s. frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Nýjung er, að félagsmönnum er boðið að auglýsa frítt í blaðinu notuð fjarskiptatæki og/eða búnað sem tilheyrir áhugamálinu.

Skilafrestur efnis er til 16. janúar n.k.

Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

Nýárskveðjur og 73,

TF3SB, ritstjóri CQ TF.

.

Samtök norrænna landsfélaga radíóamatöra (Nordisk Radio Amatør Union, NRAU) gengst fyrir tveimur virknikeppnum sunnudaginn 9. janúar. Þetta er 2 klst. viðburðir, hvor – á 80 og 40 metrum.

SSB keppnin fer fram kl. 06:30-08:30; og
CW keppnin fer fram 09:00-11:00.

Þetta er keppnir á milli Norðurlandanna (JW, JX, LA, OH, OH0, OJ0, OX, OY, OZ, SM, TF) og
Eystrasaltslandanna (ES, LY, YL).

Í hugum flestra íslenskra radíóamatöra er NRAU e.t.v. þekktast fyrir að standa fyrir Scandinavian Activity Contest (SAC) keppnunum. En NRAU-Baltic keppnirnar og NRAU-Activity keppnirnar (NAC) eru þar til viðbótar.

Sjá nánar keppnisreglur á vefslóðinni:  https://www.nraubaltic.eu/

Stjórn ÍRA.

Nýtt kynningarefni um amatör radíó og félagið er tilbúið.

Verkefnið var unnið af stjórn en umbrot var í höndum Vilhjálms Í. Sigurjónssonar, TF3VS. Efnið verður til birtingar á heimasíðu ÍRA en útgáfuform er opna í stærðinni A4 (fjórar blaðsíur) sem eru prentaðar í lit.

Við undirbúning og vinnslu var m.a. haft til hliðsjónar hvernig önnur landsfélög radíóamatöra vinna kynningarefni af þessu tagi. Í framhaldi er til skoðunar að gera stutt kynningarmyndband (sem byggir á þessu efni) fyrir YouTube og heimasíðuna.

Þess má geta að þetta er í annað sinn sem ÍRA vinnu efni af þessu tagi, en frumraunin var gerð í tilefni 30 ára afmælis félagsins árið 1976.

Vefslóð: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2021/12/Kynning-2022.pdf

Stjórn ÍRA.

Brynjólfur Jónsson, TF5B hafði alls 25.237 QSO á árinu 2021. Samböndin voru höfð á FT8 samskiptareglum undir MFSK mótun. Þetta eru heldur færri sambönd en árið á undan (2020) þegar hann rauf 30 þúsund sambanda múrinn.

Fjöldi DXCC eininga: 154.
Fjöldi CQ svæða: 39 (vantaði svæði 36).
87.5% sambanda voru höfð á 17, 20, 30 og 40 metrum.

Skipting sambanda eftir meginlöndum:

EU: 75.1%
NA: 12.6%
AS: 10.0%
OC: 1.1%
SA: 0.8%
AF: 0.4%

Hamingjuóskir til Billa með frábæran DX árangur á nýliðnu ári.

Stjórn ÍRA.

Myndin sýnir glæsilega fjarskiptaaðstöðu Brynjólfs Jónssonar TF5B á Akureyri. Ljósmynd: TF5B.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra farsældar á nýju ári.

Georg Kulp, TF3GZ og Karl Georg Karlsson, TF3CZ fóru í Bláfjöll í dag (30. desember) og framkvæmdu bráðabirgðaviðgerð á KiwiSDR viðtækinu og búnaði á fjallinu. Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A veitti ráðgjöf.

Búið er m.a. að endurnýja aflgjafa og lagfæra loftnetið. Ari telur líklegt að elding hafi skemmt hluta búnaðarins, en ísing hafi slitið LW loftnetið.

Þakkir til þeirra félaga TF1A, TF3GZ og TF2CZ fyrir dugnaðinn og frábært vinnuframlag.

Stjórn ÍRA.

Karl Georg Karlsson TF3CZ og Georg Kulp TF3GZ í stöðvarhúsinu í Bláfjöllum í dag, 30. desember. Ljósmynd: TF3CZ.
Mynd úr Bláfjöllum sem var tekin kl. 15 í dag, 30. desember. Ljósmynd: Georg Kulp TF3GZ.

YOTA keppnin (3rd Round) fór fram 30. desember. Elín Sigurðardóttir, TF2EQ virkjaði TF3YOTA í keppninni frá félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Hún hafði rúmlega 200 sambönd.

Þetta var þriðja og og síðasta YOTA keppni ársins. Sú fyrsta fór fram 22. maí, önnur 18. júlí og nú 30. desember.

Elín setti TF3YOTA einnig í loftið um gervitunglið QO-100 á gamlársdag (sbr. meðfylgjandi ljósmynd) og hafði rúmlega 80 sambönd.

Allt í allt hafði hún tæplega 800 sambönd frá TF3YOTA í mánuðinum.

Stjórn ÍRA.

Elín Sigurðardóttir TF2EQ setti TF3YOTA í loftið frá gervihnattastöð félagsins í Skeljanesi á gamlársdag. Ljósmynd: TF3JB.

Kallmerkið TF3YOTA var virkjað í dag, sunnudaginn 26. desember.

Elín Sigurðardóttir, TF2EQ ungmennafulltrúi ÍRA, setti stöðina í loftið frá Skeljanesi á hádegi. Hún byrjaði á 14 MHz SSB. Hugmyndin er síðan þegar skilyrði breytast, að vera QRV um QO-100 gervitunglið.

YOTA verkefnið „Youngsters on the air“ er sameiginlegt verkefni landsfélaga radíóamatöra innan IARU og er viðburðurinn rekinn í desembermánuði ár hvert. Verkefnið hófst árið 2018.

ÍRA hefur tekið þátt frá upphafi. Það eru þau Elín Sigurðardóttir, TF2EQ ungmennafulltrúi félagsins og YOTA verkefnisstjóri og Árni Freyr Rúnarsson, TF8RN, aðstoðarverkefnisstjóri YOTA sem hafa annast starfræksluna.

TF3YOTA verður starfrækt næstu daga, m.a. í YOTA Contest þann 30. desember n.k.

Stjórn ÍRA.

Elín Sigurðardóttir TF2EQ setti TF3YOTA í loftið frá Skeljanesi 26. desember. Ljósmynd: TF3JB.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári 2022.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður næst opin fimmtudaginn 6. janúar n.k. (ef aðstæður leyfa).

Stjórn ÍRA.