,

75 ÁRA AFMÆLI ÍRA 14. ÁGÚST 2021

Félagið Íslenskir radíóamatörar, ÍRA, var stofnað í Reykjavík 14. ágúst 1946. Fyrsti aðalfundur var haldinn 21. nóvember sama ár. Á fundinum var m.a. kosið í stjórn og var Einar Pálsson, TF3EA kosinn fyrsti formaður félagsins. Hann var jafnframt handhafi leyfisbréfs radíóamatöra númer eitt hér á landi og fyrsti heiðursfélagi ÍRA. Nokkru eftir aðalfundinn, þann 7. febrúar 1947 var fyrsta reglugerðin um starfsemi radíóamatöra hér á landi sett.

Amatör radíó er fyrst og fremst áhugamál, bæði hér á landi sem annarsstaðar. Það hefur gjarnan verið nefnt vísindalegt áhugamál. Fjöldi radíóamatöra í heiminum í dag er nær 5 milljónir og hér á landi hafa verið gefin út yfir 500 leyfisbréf frá upphafi (1947). Til að öðlast leyfi þarf viðkomandi að gangast undir próf hjá Fjarskiptastofu. Þess má geta, að amatör radíó er eina áhugamálið sem hefur réttarstöðu samkvæmt alþjóðasamningum.

Opinber skilgreining: „Þráðlaus fjarskiptaþjónusta sem hefur að tilgangi eigin þjálfun, samskipti á ljósvakanum og tæknilegar athuganir sem radíóáhugamenn annast, þ.e. einstaklingar sem fengið hafa til þess heimild“.

ÍRA hefur aðsetur við Skeljanes í Reykjavík. Þar er opið hús fyrir félagsmenn og gesti öll fimmtudagskvöld kl. 20-22. Félagsmenn eru rúmlega 200 í dag. Vegna Covid-19 faraldursins hefur veisluhöldum vegna afmælisis verið frestað.

Hamingjuóskir til félagsmanna í tilefni dagsins!

Stjórn ÍRA.

.

Elín Sigurðardóttur TF2EQ og Árni Freyr Rúnarsson TF8RN í fjarskiptaherbergi TF3IRA í félagsaðstöðunni í Skeljanesi.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

nine − 4 =