,

“Flott, fræðandi og gaman” í Skeljanesi

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A mætti í Skeljanes 15. nóvember og hélt erindi undir heitinu: „Þetta FT8 sem er svo vinsælt um þessar mundir“.

Ari svipti leyndardómnum röggsamlega af þessari „nýju“ tegund útgeislunar sem hefur náð gríðarlegri útbreiðslu undanfarið eitt og hálft ár.

Hann sýndi okkur hve bráðsnjallt og aðgengilegt stafrænt forrit K1JT er fyrir FT8, en þegar tal og morsmerki eru t.d. ekki lengur til staðar á bandinu eru stafrænu merkin enn „bullandi“ sterk, enda mögulegt að hafa sambönd jafnvel niður í -25 dB undir suði.

Ari hafði lifandi sýnikennslu úr fundarsal á 40 metrunum og tengdist eigin stöð yfir netið. Strax komu inn merki frá S-Ameríku og allt gekk fumlaust og fljótt fyrir sig. Um leið benti hann okkur á hvernig forðast ber algeng mistök og m.a. hve mikilvægt er að hafa klukkuna rétt stillta í tölvunni (grunnforsenda). Því má auðveldlega bjarga með innsetningu þar til gerðs forrits.

Hann fór sérstaklega yfir stillingar sendis fyrir þessa tegund útgeislunar og sýndi okkur á skjámynd muninn á merkjum þegar ekki er notuð rétt ALC stilling; sem helst þarf að vera þannig að ALC vísunin rétt tifi til að brengla ekki merkið.

Ari Þórólfur leysti úr fyrirspurnum jafn óðum auk þess að fá margar spurningar í lokin. Hann leysti snöggt og vel úr þeim öllum. Þess er að vænta að glærur frá erindinu verði til innsetningar á vefsíðu ÍRA.

Að lokum (um kl. 22:30) var klappað vel og lengi og Ara þakkað fróðlegt og vel heppnað erindi. Flestir viðstaddra geta tekið undir umsögn Garðars Valbergs Sveinssonar, TF8YY á Facebook, þar sem hann náði að orða upplifunina stutt og vel: „Flott, fræðandi og gaman“.

Alls mættu 32 félagsmenn og 2 gestir í Skeljanes þetta vel heppnaða fimmtudagskvöld.

Ari Þórólfur Jóhannesson í Skeljanesi 15. nóvember. Frá vinstri: Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Garðar Valberg Sveinsson TF8YY, Mathías Hagvaag TF3MH, Snorri Ingimarsson TF3IK, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Þórður Adolfsson TF3DT, Einar Kjartansson TF3EK, Baldvin Þórarinsson TF3-033, Sigurður Smári Hreinsson TF8SM, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Sigurður Kolbeinsson TF3-066.

Þétt setinn bekkurinn. Sigurður Kolbeinsson TF3-066, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson TF3VS, Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Sigmundur Karlsson TF3VE, Haraldur Þórðarson TF8HP, Guðmundur Sigurðsson TF3GS, Garðar Valberg Sveinsson TF8YY, Mathías Hagvaag TF3MH, Snorri Ingimarsson TF3IK, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Einar Kjartansson TF3EK, Þórður Adolfsson TF3DT, Baldvin Þórarinsson TF3-033 og Sigurður Smári Hreinsson TF3SM.

Ekki voru til stólar fyrir alla. Frá vinstri: Bjarni Sverrisson TF3BG, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN og Guðmundur Birgir Pálsson TF3AK. Aðrir í sal hafa verið taldir upp áður.

(Ljósmyndir: TF3JB).

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

four × 3 =