ERINDI UM NÝJAR HF STÖÐVAR Á MARKAÐI
Jónas Bjarnson, TF3JB mætti í Skeljanesi fimmtudag 16. nóvember með erindið: „Kaup á nýrri amatörstöð haustið 2023“. Vefslóð: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2023/11/15.11.Kaup-a-nyrri-HF-amatorstod-HAUSTid-2023.pdf
Erindið byggir á uppfærðri grein um sama efni sem birtist í 3. tölublaði CQ TF og kom út 29. júní s.l. og skiptist eftirfarandi:
- Markaður í þróun – ný viðhorf.
Nýjar stöðvar, forsendur samantektar greinar í CQ TF.
Markaðurinn í dag; greining.
Hvað er framundan á markaði fyrir HF stöðvar?
Önnur atriði og niðurstaða.
Gefið var yfirlit yfir markaðinn, en alls eru 23 mismunandi framleiðendur sem bjóða 57 gerðir HF stöðva í nóvember 2023. Inni í þeirri tölu er 8 kínverskir framleiðendur. Fimm framleiðendur eru með 50% heildarframboðs. Það eru Apache labs, Elecraft, FlexRAdio, Icom og Yaesu.
Farið var m.a. yfir ódýrustu HF stöðina á markaði, sem er QRPver Minion Mini og kostar 75 þúsund krónur komin til Íslands. Þetta er 5W stöð sem þekur 160-10 metra böndin á CW, SSB og stafrænum tegundum útgeislunar. Ódýrasta 100W stöðin er Yaesu FT-891 sem kostar 122 þúsund krónur komin til Íslands. Hún þekur 160-10 metra böndin, auk 6 metrana á CW, SSB, AM, FM og stafrænum tegundum útgeislunar. Dýrasta HF stöðin er Hilberling PTA-8000A sem kostar 2.251.000 krónur komin til landsins. Hún er búin 200W sendi fyrir 160-6 metra, en 100W sendi á 4 metrum og 2 metrum. Stöðinni fylgir aflgjafi, Hilberling HN-8000. Stöð og aflgjafi eru fáanleg í fimm litum.
Fyrirspurnir voru afgreiddar jafnóðum og voru líflegar umræður fram undir kl. 22. Erlendur gestur félagsins þetta fimmtudagskvöld var Łukasz Dubiel, SP9JAR frá borginni Wielicki í Suður-Póllandi. Hann var mjög hrifinn af aðstöðu félagsins og sérstaklega af TF-ÍRA QSL Bureau’inu og fjarskiptaherbergi TF3IRA á 2. hæð.
Sérstakar þakkir til Jónasar Bjarnasonar, TF3JB fyrir fróðlegt og áhugavert erindi. Alls mættu 27 félagsmenn og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta vetrarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.
Stjórn ÍRA.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!