VEL HEPPNAÐUR LAUGARDAGUR Í SKELJANESI
Virkilega vel heppnað erindi hjá Vilhjálmi Í. Sigurjónssyni, TF3VS í Skeljanesi laugardaginn 18. nóvember.
Hann byrjaði á að kynna, að það væri verulegur munur á að fara í loftið á FT8 og FT4 samanborið við t.d. CW og SSB. Og hélt síðan stutta tölu um forrit Joe Taylor, K1JT (og fleiri) um WSJT-X sem fyrst var kynnt fyrir sex árum og flestir nota.
Hann var tölvutengdur í salnum í Skeljanesi yfir netið við eigin sendi-/móttökustöð heima í Kópavogi (FlexRadio 6600). Þar notar hann JTDX samskiptaforrit og Logger 32 dagbókarforrit. Hann útskýrði að WSJT-X og JTDX forritin væru lík en það síðarnefnda gerði heldur meira.
Vilhjálmur nefndi m.a., að sendingarnar standi alltaf yfir í fastsettan ákveðinn tíma og er fyrirfram ákveðið að miklu leyti hvað fram fer í sendingunni. Afar öflug villuleiðrétting á sér stað í móttöku. Hann fór síðan yfir, lið fyrir lið hvernig forritið er sett upp, þ.e. það sem er mikilvægast og hvað ber að varast.
Hann fór einnig yfir F/H virkni þess (Fox/Hound) sem er í raun mjög einfalt mál þegar hefur verið útskýrt. F/H er aðallega notuð í fjarskiptum við DX-leiðangra eða þegar stöðvar vinna frá sjaldgæfum stöðum. Það snýst um að hlusta og senda á mismunandi tíðnum, sem yfirleitt eru rétt fyrir utan venjubundnar tíðnir samkvæmt bandskipan.
Viðhjálmur brýndi fyrir mönnum að lokum að lesa skýringar með forritunum og benti sérstaklega á bókina „FT8 Operating Guide Weak Signal HF DXing for Technophiles“ eftir Gary Hinson, ZL2IFB.
Þakkir til Vilhjálms fyrir efnismikla, vandaða og skemmtilega framsetningu á þessu áhugaverða efni. Alls voru 11 félagsmenn mættir í Skeljanes þennan ágæta laugardagsmorgun í vesturbænum í Reykjavík.
Stjórn ÍRA.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!