,

Erfið skilyrði í SAC SSB keppninni um helgina

Sigurður R. Jakobsson TF3CW við stjórnvölinn á TF3W laugardaginn 13. október. Ljósmynd: TF3SA.

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW, virkjaði félagsstöðina, TF3W, í Scandinavian Activity SSB keppninni helgina 13.-14. október. Vel var staðið að undirbúningi stöðvarinnar fyrir keppnina og komu margir að því verki. Þrátt fyrir afar erfið skilyrði náði Sigurður að hafa 1040 QSO; nánast einvörðungu á 14 MHz. Mestan hluta keppnistímans stóð “aurora” gildið í 10 og K-gildið í rúmlega 6, en vísun yfir 5 er flokkuð sem segulstormur.

Vel var staðið að undirbúningi keppninnar sem tók meira og minna alla síðustu viku. Auk SteppIR 3E Yagi loftnets félagsins á 14 MHz, 21 MHz og 28 MHz, munaði mest um færanlegt fjarskiptavirki Ólafs B. Ólafssonar, TF3ML, sem hann flutti á staðinn á fimmtudag. Ólafur setti upp OptiBeam OB-5 einsbandsloftnet á færanlega turninn, sem er 5 staka Yagi á 14 MHz með 15,7 dBi ávinning. Alvöru loftnet með 15,1 metra langri bómu og nær 90 kg að þyngd (eftir styrkingar). Á föstudagsmorgun var skotbómukrani síðan fluttur í Skeljanes. Hann var útbúinn með Cushcraft 2 staka Yagi loftneti á 7 MHz sem er í eigu Sigurðar. Síðar sama dag var sett upp Fritzel V-loftnet á hvolfi í eigu Ólafs fyrir 3,7 MHz. (Til skýringar: Ekki þurfti að hugsa um 160 metrana, þar sem SAC keppnirnar fara ekki fram á því bandi).

Stjórn Í.R.A. óskar Sigurði R. Jakobssyni, TF3CW, til hamingju með þann árangur sem þó náðist miðað afar erfið skilyrði. Sérstakar þakkir til Ólafs B. Ólafssonar, TF3ML, sem veitti félaginu ómetanlegan liðsstyrk með láni á búnaði og persónulegri aðkomu að undirbúningi stöðvarinnar. Það sama á við aðra félagsmenn sem veittu verkefninu aðstoð á einn eða annan hátt. Hér á eftir eru birtar nokkrar ljósmyndir til fróðleiks.

Skeljanes að morgni 14. október. Yagi loftnetin þrjú, frá OptiBeam, Cushcraft og SteppIR settu óneitanlega skemmtilegan svip á félagsaðstöðuna í Skeljanesi.

TF3IG, TF3CW og TF3ML koma færanlegum loftnetsturni Ólafs fyrir í rigningunni s.l. fimmtudag í portinu á bak við félagsaðstöðuna í Skeljanesi.

Turninn gerður klár fyrir fyrstu hífingu. TF3CW, TF3ML, og TF3IG tryggja að “fætur/stoðir” turnsins hafi viðunandi viðspyrnu.

TF3IG fer síðustu yfirferð yfir stillingar “fóta/stoða” turnsins fyrir hífingu.

Stóra OptiBeam Yagi loftnetið virkar næstum því viðráðanlegt komið í fulla hæð.

Skotbómukraninn kom í Skeljanes á flutningavagni á föstudagsmorgun. TF3CW fylgist með.

Rótorbúrið “monterað” á körfuna á skotbónukrananum. TF3CW og TF3-Ø33 við undirbúning.

TF3-Ø33, TF3CW og TF3ML við frágang á rótorbúrinu fyrir Cushcraft 7 MHz Yagi loftnetið.

Allt klárt. 7 MHz Yagi’nn kominn saman og kraninn kominn í fulla hæð (18 metra).

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

one × 5 =