Ritstjóri vekur athygli á að enn er hægt að senda efni í næsta tölublað CQ TF, eða fram á fimmtudagskvöld 24. mars.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið, s.s. frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Ath. að nýjung er, að félagsmönnum er boðið að auglýsa frítt í blaðinu notuð fjarskiptatæki og/eða búnað sem tilheyrir áhugamálinu. Netfang ritstjóra: saemi@hi.is

Fyrirfram þakkir og 73,

TF3UA, ritstjóri CQ TF.

Jón G. Guðmundsson TF3LM gerir tilraunir með VHF loftnet.

Jón G. Guðmundsson, TF3LM mætti í Skeljanes 18. mars með erindið: „Tilraunir með útgeislun frá VHF loftnetum“.

Hann sagði frá reynslu sinni af að nota VHF stöðvar, bæði í bílum og heimahúsum. Hann vísaði m.a. í tilraunir þeirra Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A sem leiddu til erindisflutnings í Skeljanesi og greinaskrifa í félagsritinu CQ TF undanfarin ár.

Jón fjallaði m.a. um stefnuvirkni á VHF frá bílum og hvernig má nýta hana ef áhugi er fyrir hendi. Hann fjallaði einnig um mismunandi tegundir bílloftneta, kosti þeirra og galla. Einnig ræddi hann um áhugavert forrit á heimasíðu kanadísks radíóamatörs, VE2DBE þar sem hægt er að setja inn upplýsingar og fá fram drægni miðað við gefnar forsendur.

Hann sýndi ennfremur hve þægilegt er að nota SDR viðtækið yfir netið sem vinnur á 24-1800 MHZ þegar gerðar eru tilraunir. SDR viðtækið er staðsett í Perlunni í Öskjuhlíð. Hann benti m.a. á grein sem hann skrifaði um nytsemi viðtækisins á 4. tbl. CQ TF 2021. Loks kynnti hann og ræddi forritið XNEC2 sem er hermiforrit fyrir loftnet og hægt er að nálgast frítt á netinu.

Þakkir til Jóns fyrir áhugavert og vel heppnað erindi. Alls mættu 9 félagsmenn og 2 gestir í Skeljanes þennan sólríka laugardag í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.
Jón sýndi m.a. þá miklu möguleika sem viðtækið yfir netið í Perlunni (24-1800 MHz) býr yfir fyrir áhugamenn um fjarskipti á VHF (og hærra í tíðnisviðinu) .
Jón heldur á handstöð við glugga í salnum í Skeljanesi og lyklar endurvarpann TF1RPB í Bláfjöllum. Fylgst er með merkinu í viðtækinu yfir netið í Perlunni. Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF3MH, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Kristján Benediktsson TF3KB og Jón G. Guðmundsson TF3LM.
Eftir erindið fengu menn sér kaffi. Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Mathías Hagvaag TF3MH, Ægir Þór Ólafsson TF2CT og Benedikt Sveinsson TF3T. Ljósmyndir: TF3JB.

Ný vetrardagskrá ÍRA heldur áfram á fullu.

Á morgun, laugardag 18. mars mætir Jón G. Guðmundsson, TF3LM í Skeljanes með erindið: „Tilraunir með útgeislun frá VHF loftnetum“.

Jón segir frá niðurstöðum mælinga sem hann hefur gert á mismunandi tegundum VHF loftneta undanfarin misseri, bæði frá bílum og heimahúsum.

Í tilraunum sínum, hefur hann m.a. notast við viðtæki Karls Georgs, TF3CZ yfir netið sem er staðsett í Perlunni í Öskjuhlíð í Reykjavík (sem þekur tíðnisviðið 24-1800 MHz).

Húsið opnar kl. 13:00 og erindið hefst stundvíslega kl. 13:30. Veglegar kaffiveitingar.

Félagsmenn fjölmennið!

Stjórn ÍRA.

Jón G. Guðmundsson TF3LM virkjaði TF3IRA í VHF/UHF leikunum 2022. Mathías Hagvaag TF3MH fylgist með. Ljósmynd: TF3JB.
Frá erindi Sigurðar Harðarsonar TF3WS í Skeljanesi 16. mars.

Sigurður Harðarson, TF3WS heimsótti okkur í Skeljanes 16. mars með erindið: „Kynning á íslenskri framleiðslu útvarpsviðtækja“. Með Sigurði kom Guðmundur Sigurðsson, sem safnar og hefur gert upp mikið magn af eldri útvarpsviðtækjum.

Sigurður rakti vel og útskýrði framleiðslu viðtækjanna Suðra, Vestra, Austra, Sumra og Sindra hjá Viðtækjasmiðju Ríkisútvarpsins, sem starfaði frá 1933-1949, þegar erfitt var um innflutning á vörum vegna kreppunnar og seinni heimsstyrjaldarinnar.  Að jafnaði unnu 3–5 menn að þessari smíði. Þegar Viðtækjasmiðjan hætti störfum var búið að framleiða nálægt 2000 viðtækjum eftir því sem næst verður komist.

Sigurður hefur sett sig vel inn í starfsemi Viðtækjasmiðjunnar og hvernig framleiðslan þróaðist. Lifandi frásögn hans var afar áhugaverð og fróðleg. Hann kryddaði erindi sitt með mörgum skemmtilegum sögum sem tengdust framleiðslunni og notkun tækjanna hjá almenningi um allt land, þegar viðtækin kostuðu sem nam þriggja mánaða verkamannalaunum.

Þeir Sigurður og Guðmundur mættu með sýnishorn af íslensku viðtækjunum sem félagsmenn fengu að skoða eftir erindið og þeir félagar leystu vel og greiðlega úr fjölda spurninga.

Sigurður færði ÍRA eintak af vönduðum 20 blaðsíðna bæklingi sem hann hefur sett saman um íslensku úrvarpstækin og sem mun liggja frammi í félagsaðstöðu félagsins á fimmtudagskvöldum.

Sérstakar þakkir til Sigurðar og Guðmundar fyrir frábært fimmtudagskvöld. Þeir félagar fylltu húsið því alls mættu 43 félagar og 3 gestir í Skeljanes þetta ágæta vetrarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Viðtækjasmiðjan framleidi Vestra með bæði lang og miðbylgju. Þannig Vestrar hafa fundist og eru til á söfnum víða á landinu. Vestrarnir heita því, Vestri L3 og Vestri ML. Vestrinn, ML er með aukarofa umfram hinn til að skipta milli bylgjusviða.
Þorsteinn Gíslason á Seyðisfirði varð fyrstur Íslendinga til að ná útvarpssendingum frá Þýskalandi, London og París á heimasmíðað útvarp. Tækið er ennþá til og er í vörslu Skógasafns. Þess má geta, að Þorsteinn var radíóamatör með kallmerkið TF6GI og heiðursfélagi ÍRA.
Eftir flutning erindisins. Fjærst: Sigurður Harðarson TF3WS, Óskar Sverrisson TF3DC, Guðmundur Sigurðsson (gestur) og Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE. Sitjandi: Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Hans Konrad Kristjánsson TF3FG. Næst myndavél: Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, Mathías Hagvaag TF3MH og Georg Kulp TF3GZ.
Sigurður Harðarson TF3WS, Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE og Haukur Konráðsson TF3HK. Fjær: Benedikt Sveinsson TF3T.
Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Bernhard M. Svavarsson TF3BS, Örn Gunnarsson (gestur), Eiður Kristinn Magnússon TF1EM og Njáll H. Hilmarsson TF3NH.
Þórarinn Benedikz TF3TZ, Ágúst H. Bjarnason TF3OM og Kristján Benediktsson TF3KB.
Mathías Hagvaag TF3MH, Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, Pier Kaspersma TF3PKN, Benedikt Sveinsson TF3T og Sigmundur Karlsson TF3VE.
Frá afhendingu bæklings Sigurðar um íslensku útvarpstækin: Jónas Bjarnason TF3JB formaður ÍRA, Guðmundur Sigurðsson, og Sigurður Harðarson TF3WS. Ljósmynd: TF3DC.
Mynd af forsíðu 20 blaðsíðna bæklings sem Sigurður Harðarson TF3WS hefur sett saman um íslensku úrvarpstækin. Hann afhendi ÍRA formlega eintak til eignar á fundinum. Ljósmyndir: TF3DC og TF3JB.

Maidenhead Mayhem Sprint keppnin fer fram 18.-19. mars; kl. 00:00 á laugardag til kl. 23:59 á sunnudag. CW, SSB og stafrænar teg. útgeislunar á 160, 80, 40, 20, 15 og 10m. https://w9et.com/rules.html

BARTG HF RTTY keppnin fer fram 18.-20. mars; kl. 02:00 á laugardag til kl. 01:59Z á mánudag. RTTY á 80, 40, 20, 15 og 10m. http://www.bartg.org.uk/

Russian DX keppnin fer fram 18.-19. mars; kl. 12.00 á laugardag til kl. 12.00 á sunnudag á CW og SSB á 160, 80, 40, 20, 15 og 10m. Ekki er vitað til annars en að keppnin verði haldin, en óvíst er um þátttöku þess vegna stríðsátaka Rússa í Úkraínu. http://www.rdxc.org/asp/pages/rulesg.asp

F9AA Cup keppnin fer fram 18.-19. mars; kl. 12:00 á laugardag til kl 12:00 á sunnudag á SSB á 80, 40, 20, 15 og 10m. https://www.site.urc.asso.fr/index.php/om-yl/concours/trophee-f9aa

All Africa International DX keppnin fer fram 8.-19. mars; kl. 12:00 á laugardag til kl. 12:00 á sunnudag á 160, 80, 40, 20, 15 og 10m á CW, SSB og RTTY. http://www.sarl.org.za/public/contests/contestrules.asp

Með ósk um gott gengi,

Stjórn ÍRA.

Stjórn ÍRA hefur ákveðið að kanna áhuga á þátttöku í námskeiði til amatörprófs sem verður í boði, bæði í stað- og fjarnámi í Háskólanum í Reykjavík.

Námskeiðið hefst 27. mars n.k. og lýkur með prófi Fjarskiptastofu 27. maí. Kennt verður á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum kl. 18:30-21:30. Námskeiðið er öllum opið og eru ekki gerðar kröfur um sérstaka menntun eða undirbúning. Námskeiðsgjald er 22.500 krónur.

Áhugasamir eru beðnir um að skrá nafn sitt og tölvupóstfang hjá ira@ira.is  Ath. að skráningu fylgir engin skuldbinding – en veitir félaginu mikilvægar upplýsingar um fyrirhugaðan fjölda nemenda.

Fyrirspurnum má beina á sama tölvupóstfang.

Skráning verður opin til 24. mars n.k. Félagið setur þann fyrirvara um námskeiðshald, að lágmarksþátttaka fáist.

Reykjavík 14. maí 2023,

Stjórn ÍRA.

Kynningarefni: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2021/12/Kynning-2022.pdf
Skipulag námskeiðs:  http://www.ira.is/namskeid/
Vefslóðir á námsefni:  http://www.ira.is/vefslodir-a-namsefni-vorid-2023/

Vetrardagskrá félagsins heldur áfram á fimmtudag, 16. mars kl. 20:30. Þá mætir Sigurður Harðarson, TF3WS með erindið „Kynning á íslenskri framleiðslu útvarpsviðtækja“.

Sigurður hefur m.a. starfað í hollvinafélaginu „Um varðveislu útvarpstækni á Íslandi“. Hann segir að 8 gerðir útvarpstækja hafi verið smíðaðar hjá Viðtækjasmiðju Ríkisútvarpsins sem stofnuð var 1933 og þar hafi verið framleidd einföld og ódýr útvarpstæki sem hafi fengið nöfnin Suðri, Vestri, Austri, Sindri og Sumri.

Félagsmenn ÍRA hafa m.a. komið viðtækjum til Sigga eftir að fréttist af verkefninu. Þ.á.m. er merkilegt útvarpstæki, “Polar Twin Metal” smíðað árið 1925. Hann segir að Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS hafi gefið tækið sem sé mikill fengur í þar sem lítið sé til af tækjum fyrir 1928 og það sé því með elstu tækjum sem hann hafi fengið.

Siggi mun mæta með sýnishorn af viðtækjum í Skeljanes á fimmtudag. Veglegar kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes! Stjórn ÍRA.

Á myndinni heldur Siggi á einu af viðtækjunum sem framleitt var af Viðtækjasmiðju Ríkisútvarpsins. Ljósmynd: RÚV.
Mathías Hagvaag TF3MH QSL stjóri TF ÍRA QSL Bureau fór yfir og kynnti framlagt efni.

Mathías Hagvaag, TF3MH og Jónas Bjarnason, TF3JB mættu á „sófasunnudag“ í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi 12. mars. Umræðuþema var: „Allt um QSL kort“ og var 15 bls. PowerPoint skjali dreift við upphaf fundar.

Farið var yfir framlagt efni sem skiptist í nokkra stutta kafla. M.a. sögulegan þátt þar sem kom fram að radíóamatörar hófu að senda QSL kort þegar árið 1916 og að QSL þjónusta hefur verið í boði á vegum ÍRA í 75 ár (frá 1948). Jafnframt var útskýrt hvernig QSL Bureau landsfélaga radíóamatöra um allan heim virka.

Mathías skýrði vel hvernig setja á upp QSL kort og hvaða lágmarksupplýsingar eru nauðsynlegar til að kort séu gild. Hann kom einnig inn á kortanotkunina, m.a. hvernig best er að svara og sækja staðfestingar. Einnig var farið yfir hvernig svara á kortum frá hlusturum. Ennfremur var töluvert rætt um hlutverk  „QSL Manager“ sem eru leyfishafar sem taka að sér að annast svör fyrir hönd annarra radíóamatöra á kortabeiðnum.

Mörg góð „komment“ og spurningar leiddu til skemmtilegra umræðna sem stóðu allt til kl. 13:15 þegar húsið var yfirgefið. Alls mættu 11 manns (7 félagar og 4 gestir) í Skeljanes þennan ágæta sunnudagsmorgun í 9°C frosti í sólríkri norðanátt í vesturbænum í Reykjavík. Þakkir til TF3SB fyrir ljósmyndir.

Frá vinstri: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Ægir Þór Ólafsson TF2CT, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS og Mathías Hagvaag TF3MH.
Forsíða PowerPoint skjals sem lagt var fram til grundvallar umræðna á fundinum.

Næsta tölublað CQ TF, 2. tölublað ársins 2023, kemur út 2. apríl n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið, s.s. frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Félagsmönnum er boðið að auglýsa frítt í blaðinu notuð fjarskiptatæki og/eða búnað sem tilheyrir áhugamálinu.

Skilafrestur efnis er til 20. mars. Netfang: saemi@hi.is

Félagskveðjur og 73,

Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA
ritstjóri CQ TF

Í samræmi við starfsáætlun stjórnar ÍRA og að höfðu samráði við Prófnefnd og Umsjónarmann námskeiða, hefur verið ákveðið að kanna áhuga á þátttöku í námskeiði til amatörprófs.

Fyrirhugað er að námskeiðið hefjist 27. mars n.k. og ljúki með prófi Fjarskiptastofu 27. maí. Kennt verður þrjá daga í viku í staðnámi og fjarnámi, kl. 18:30-21:30. Námskeiðið er öllum opið og eru ekki gerðar kröfur um sérstaka menntun eða undirbúning.

Áhugasamir eru beðnir um að skrá nafn sitt og tölvupóstfang hjá “ira hjá ira.is”. Ath. að skráningu fylgir engin skuldbinding – en veitir félaginu mikilvægar upplýsingar um fyrirhugaðan fjölda nemenda.

Fyrirspurnum má beina á sama tölvupóstfang.

Skráning er opin til 24. mars n.k. Félagið setur þann fyrirvara um námskeiðshald, að lágmarksþátttaka fáist.

Reykjavík 10. maí 2023,

Stjórn ÍRA.

http://www.ira.is/wp-content/uploads/2021/12/Kynning-2022.pdf

Ný vetrardagskrá ÍRA heldur áfram.  

Næsti viðburður verður í boði 12. mars kl. 11:00; svokallaður „sófasunnudagur á messutíma“. Þeir Mathías Hagvaag, TF3MH og Jónas Bjarnason, TF3JB verða með umræðuþemað: „Allt um QSL kort“.

Húsið opnar kl. 10:30 en viðburðurinn hefst kl. 11 stundvíslega og miðað er við að umræðum ljúki um kl. 12 á hádegi.

Að venju verða vínarbrauð í boði með kaffinu frá Björnsbakaríi og rúnstykki með skinku og osti. En ekki verður einvörðungu lagað „Lavazza“ kaffi heldur verður einnig te í boði – en nýr hraðsuðuketill félagsins sem var „vígður“ á fimmtudagskvöld hefur hefur þegar öðlast vinsældir.

Sunnudagsopnanir (stundum nefndar „sófasunnudagar“) hafa verið skýrðar á þann veg að um sé að ræða fyrirkomulag menntandi umræðu á messutíma sem er hugsuð sem afslöppuð, þ.e. þar sem menn sitja með kaffibolla í stóra leðursófasettinu og ræða amatör radíó og tiltekinn leyfishafi sem hefur staðgóða þekkingu á viðkomandi umræðuefni leiðir umfjöllun og svarar spurningum.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Um er að ræða PowerPoint erindi og verða glærur til afhendingar útprentaðar.

Mathías Hagvaag, TF3MH QSL stjóri ÍRA QSL Bureau, tilkynnti á aðalfundi félagsins 19. febrúar s.l. um væntanlega hækkun á gjaldskrá stofunnar vegna hækkunar verðskrár Póstsins þann 1.1.2023.

Forsendur hafa nú verið skoðaðar og hefur QSL stjóri ákveðið að kostnaður fyrir hvert QSL kort hækki frá og með 1. apríl 2023 úr 12 krónum í 14 krónur.

Gjaldskrá QSL stofunnar hefur verið óbreytt frá 1. desember 2021.

Stjórn ÍRA.

Mathías Hagvaag QSL stjóri TF-ÍRA QSL Bureau í herbergi QSL stofunnar í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JB.