Líkt og skýrt var frá á þessum vettvangi þann 7. júlí s.l., kallaði Póst- og fjarskiptastofnun nýlega eftir samráði við hagsmunaaðila um nýja tíðnistefnu til næstu fjögurra ára, 2011-2014. Skjal stofnunarinnar þessa efnis, auk sérstaks umræðuskjals um farnetsþjónustur og úthlutun tilheyrandi tíðnisviða, hefur verið til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar frá 1. júlí s.l. og er frestur gefinn til að skila umsögnum og athugasemdum til 19. ágúst n.k.

Efni tíðnistefnunnar sem sérstaklega varðar radíóamatöra, er birt í kafla 6.11 (á bls. 27) í eftirfarandi texta: “6.11 Radíóáhugamannaþjónusta. Þjónusta fyrir radíóáhugamenn (radíóamatöra) er viðurkennd af hálfu ITU með formlegri þjónustuskilgreiningu í fjarskiptareglum og sérstaklega úthlutuðu tíðnisviði fyrir þá. Það er mat PFS að auka þurfi fræðslu og eftirlit með þessari þjónustu og meta hvort ástæða sé til að endurskoða hámarkssendistyrk sem leyfður er í þéttbýli Þá verður metið hvort ástæða er til að gera kröfur um tiltekna lágmarksfjarlægð loftnets frá íbúðarhúsnæði m.t.t. alþjóðlegra viðmiða”.

Á þeim tíma sem liðinn er frá kynningu PFS, hefur stjórn Í.R.A. fjallað um þau fjögur meginatriði tíðnistefnunnar sem snerta radíóamatöra, þ.e. mat stofnunarinnar um þörf á aukinni fræðslu, aukið eftirlit, hvort ástæða sé til að endurskoða hámarkssendistyrk í þéttbýli og lágmarksfjarlægð loftnets frá íbúðarhúsnæði. Í framhaldi umfjöllunar um þessi atriði, var formlega fjallað um málið á stjórnarfundi sem haldinn var í félaginu þann 19. júlí s.l. og samþykkt, að óska eftir samráðsfundi með fulltrúum stofnunarinnar. Sérstakur samráðsfundur var síðan haldinn með fulltrúum Póst- og fjarskiptastofnunar þann 16. ágúst s.l., þar sem m.a. var farið yfir framangreind meginatriði. Stjórn Í.R.A. er þeirrar skoðunar að fundurinn hafi verið mjög gagnlegur og þjónað tilgangi sínum í því að efla skilning hjá báðum aðilum. Nánar verður gerð grein fyrir fundinum í næsta tölublaði CQ TF sem kemur út í september n.k.

Tíðnistefnu PFS má nálgast á þessum hlekk: http://www.pfs.is/default.aspx?cat_id=112&module_id=220&element_id=3259

Hlé verður á morsæfingum fram yfir vitahelgina.  Það verður greint nánar frá fyrirkomulagi morsútsendinga í næstu viku.  Rétt þykir að segja frá því að þessar morsútsendingar eru ekki á vegum ÍRA.

73

Guðmundur, TF3SG

Tilbúinn til brottfarar. Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA, við lestaða kerruna í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3ARI.

Þeir Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA og Ari Þór Jóhannesson, TF3ARI, lögðu upp frá félagsaðstöðu Í.R.A. í Skeljanesi nú síðdegis, þann 17. ágúst, með dót frá félaginu til nota á Vita- og vitaskipahelginni við Garðskagavita um helgina. Meðferðis var samkomutjald félagsins, borð, stólar, Kenwood TS-2000 sendi-/móttökustöð ásamt aflgjafa, borðhljóðnema og morslyklum, auk Ten Tec loftentsaðlögunarrásar, kóax kapla og annars loftnetsefnis. Guðmundur Ingi Hjálmtýsson, TF3IG, var þegar kominn á staðinn suður við Garðskagavita með hjólhýsi sitt þegar þeir félagar renndu í hlað og skömmu síðar kom Sigurður Smári Hreinsson, TF8SM, og TF8IRA var komið upp og tengd í gamla vitavarðarhúsinu. Þegar þetta er skrifað (kl. 20:30 á miðvikudag) hringdi Guðmundur Ingi, TF3IG, og sagði að það væri dúna logn á staðnum og veðurspáin væri mjög góð fyrir helgina, hlýindi og logn. Vita- og vitaskipahelgin hefst formlega um hádegi á laugardag.

Farmurinn komst óskemmdur til Garðskaga. Myndin er tekin fyrir utan gamla vitavarðarhúsið. Ljósmynd: TF3ARI.

Búið að tæma kerruna. Guðmundur Ingi Hjálmtýsson, TF3IG og Jón Þ. Jónsson, TF3JA. Ljósmynd: TF3ARI.

Stöðin komin upp í turnherbergi gamla vitavarðarhússins. Sigurður Smári Hreinsson, TF8SM og Jón Þóroddur, TF3JA.

Bestu þakkir til Ara Þórs Jóhannessonar, TF3ARI, fyrir ljósmyndirnar.

Hustler G6-144B loftnetið komið upp og tengt við TF3RPC. Ljósmynd: TF3WS

Endurvarpsstöðin TF3RPC (Einar) varð QRV á ný í dag, þriðjudaginn 16. ágúst, kl. 14:00 og annaðist Sigurður Harðarson, TF3WS, tenginguna. Ástæða þess að endurvarpinn hefur verið úti að undanförnu er, að unnið var að breytingum og endurnýjun raflagna í þeim hluta byggingarinnar þar sem hann er staðsettur. Ekki þurfti að færa til loftnet og er búnaður óbreyttur frá því sem áður var. Framkvæmdum lauk síðan í morgun (þriðjudag) og því var unnt að tengja hann á ný í dag. Bestu þakkir til Sigurðar Harðarsonar, TF3WS. Ennfremur þakkir til Ara Þórs Jóhannessonar, TF3ARI, sem gerði prófanir til að ganga úr skugga um að endurvarpsstöðin vinnur eðlilega.

Vinnutíðnir TF3RPC: 145.175MHz RX / 145.775MHz TX.

Hin árlega Vita- og vitaskipahelgi verður haldin helgina 20. til 21. ágúst n.k. við Garðskagavita, nú annað árið í röð. Aðstæður suður frá eru hinar ákjósanlegustu, góð aðstaða fyrir fjölskyldur, m.a. frí tjaldsvæði og góð aðstaða fyrir hjól- og tjaldhýsi, auk W.C. aðstöðu. Miðað er við að flestir hafi komið sér fyrir eftir hádegi á laugardag, en kraftmikil súpa verður ókeypis í boði Guðlaugs K. Jónssonar, TF8GX og XYL, Birnu, frá kl. 12 á hádegi og fram eftir laugardegi, svo lengi sem hún endist. Stórt gasgrill verður á staðnum og geta allir fengið að nota það sem þess óska. Miðað er við að fólk hafi sjálft með sér matföng ásamt meðlæti og drykkjarföngum. Nefndin býr yfir magni af einnota diskum og hnífapörum fyrir þá sem það vilja. Stóra gasgrillið verður tilbúið til afnota frá kl. 18:00.

Guðmundur Ing Hjálmtýsson, TF3IG, mætir suður eftir á miðvikudag og mun hann taka frá tjald- og hjólhýsastæði fyrir félagsmenn Í.R.A., næst gamla vitavarðarhúsinu. Á vegnum undurbúnings- og framkvæmdanefndar félagsins verða starfræktar tvær stöðvar undir kallmerkinu TF8IRA; önnur á CW og hin á SSB. Þær verða staðsettar í gamla vitavarðarhúsinu (örskammt frá vitanum) og opnar öllum leyfishöfum. Auðvelt er að koma fyrir þriðju stöðinni, ef áhugi er fyrir hendi.

Á staðnum er byggðasafn og handverkssala (sem er á efri hæð í gamla vitavarðarhúsinu). Þar er í boði úrval af vörum frá handverksfólki á Suðurnesjum. Þá er veitingastaðurinn Tveir vitar starfræktur skammt þar frá (á efri hæð fyrir ofan byggðasafnið). Þaðan er frábært útsýni og er hægt að sitja úti þegar veður er gott. Garðskagaviti er 28,5 metra hár og hæsti viti landsins. Hann var reistur árið 1944. Fjarlægð frá Reykjavík er um 57 km. Nefndin hvetur félagsmenn til að fjölmenna.

F.h. Undirbúnings- og framkvæmdanefndar Í.R.A.,

Sigurður Smári Hreinsson, TF8SM.
(hs. 422-7109; gsm 899-0438; netfang: tf8sm hjá simnet.is).


Það er Ayr Amateur Radio Group í Skotlandi sem stendur fyrir Vita- og vitaskipahelgunum. Sjá hlekk: http://illw.net/

Stefán Arndal, TF3SA, ásamt XYL og fjölskyldu í fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi.

65 ár voru liðin frá stofnun Í.R.A. þann 14. ágúst. Í tilefni þess var haldið kaffiboð fyrir félagsmenn og fjölskyldur þeirra á afmælisdaginn (sem bar upp á sunnudag) í aðstöðu félagsins í Reykjavík. Alls mættu rúmlega 60 manns í Skeljanesið og þáðu þjóðlegar veitingar, þ.e. rjúkandi kaffi, íslenskar vöfflur og pönnukökur með sultu, þeyttum rjóma, vanilluís og súkkulaði. Félagsaðstaðan var opin á milli kl. 14 og 18 og var góð dreifing í mætingu. Ánægjulegt var hversu margir félagsmenn mættu í Skeljanesið ásamt fjölskyldum sínum þennan sólríka sunnudag. Stjórn Í.R.A. þakkar félagsmönnum góðar undirtektir og Jóni Svavarssyni, TF3LMN, myndatökuna. Hér á eftir eru nokkrar myndir sem hann tók á afmæliskaffinu í Skeljanesi.

Erla (XYL TF3KX) ásamt Unni (XYL Odds Helgasonar) og Reynir Björnsson, TF3JL.

Svana (XYL TF3UA) ásamt sonum þeirra í fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi.

Unnur (XYL TF8SM) Friðrik Á. Pálmason, TF8FP og afastrákur ásamt syni þeirra Unnar og Sigurðar Smára, TF8SM.

Málin rædd. Haraldur Þórðarson, TF3HP; Axel Sölvason, TF3AX; og Jónas Bjarnason, TF2JB.

Guðmundur Sveinsson, TF3SG, sagði að vöfflurnar væru 1. flokks hjá Sæmundi!

Friðrik Á. Pálmason, TF8FP, og afastrákur í fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi.

Ari Þ. Jóhannesson, TF3ARI, og faðir hans Jóhannes (94 ára), sem sagðist alltaf hafa haft áhuga á radíói.

Kristján Benediktsson, TF3KB og Kristinn Andersen, TF3KX á góðri stundu.

Bjarni Magnússon, TF3BM; Jónas Þ. Artursson, TF3IT; og Reynir Björnsson, TF3RL.

Jón Þ. Jónsson, TF3JA og Matthías Hagvaag, TF3-035 í fjarskiptaherbergi TF3IRA.,

Frá vinstri: Ólafur B. Ólafsson, TF3ML; Ari Þ. Jóhannesson, TF3ARI; Benedikt Sveinsson, TF3CY; Guðmundur Ingi Hjálmtýsson, TF3IG; sonur TF3GL; og Guðmundur Löve, TF3GL.

Benedikt Guðnason, TF3BNT, við VHF/UHF gervihnattastöð félagsins í fjarskiptaherbergi TF3IRA.

Benedikt Sveinsson, TF3CY, sýnir nýja stöð Guðmundar bróður síns (TF3SG); Yaesu FT-450D.

Þeir sem mest mæddi á við undirbúning kaffiboðsins. Stjórnarmennirnir Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA;
Guðmundur Sveinsson, TF3SG; og Gísli G. Ófeigsson, TF3G.

Minnum á kaffiboðið fyrir félagsmenn og fjölskyldur þeirra í tilefni 65 ára afmælis félagsins á morgun, sunnudaginn 14. ágúst kl. 14 til 17. Boðið verður upp á íslenskar vöfflur og pönnukökur með þeyttum rjóma og vanilluís.

Það er von stjórnar félagsins að sem flestir félagsmenn sjái sér fært að koma við í Skeljanesinu og þiggja þjóðlegar kaffiveitingar.

Stefán Arndal TF3SA sendir út mors á mánudaginn klukkan 20.30 á ca. 3.540 KHz..   Hann gerir ráð fyrir að senda út í um 30. mínútur.  Nánar verður fjallað um þessar útsendingar í næstu viku.  Ég vil hvetja alla til taka þátt í og hlusta og senda á morsi á Stefán þegar útsendingu lýkur.

73

Guðmundur, TF3SG

65 ár verða liðin frá stofnun félagsins Íslenskir radíóamatörar, Í.R.A., þann 14. ágúst n.k. Í tilefni þess hefur verið ákveðið að halda kaffiboð fyrir félagsmenn og fjölskyldur þeirra á afmælisdaginn (sem ber upp á sunnudag) í félagsaðstöðunni við Skeljanes í Reykjavík. Byrjað verður kl. 14 og lýkur viðburðinum kl. 17. Boðið verður upp á íslenskar vöfflur og pönnukökur með þeyttum rjóma og vanilluís. Það er von stjórnar félagsins að sem flestir félagsmenn sjái sér fært að renna við í Skeljanesinu og þiggja þjóðlegar kaffiveitingar.
F.h. stjórnar Í.R.A.,
Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður.

Í garðinum hjá TF3DX og TF3GD. Formleg afhending rits Í.R.A., Siðfræði og samskiptasiðir radíóamatöra. Frá vinstri: Vilhjálmur TF3DX; Guðrún TF3GD; John ON4UN; Jónas TF2JB; og Kristján TF3KB. Ljósmynd: TF3LMN.

John Devoldere, ON4UN, gerði góðan stans á landinu í nokkrar klukkustundir í gær (4. ágúst) á leið sinni vestur um haf. Þetta var einkaheimsókn til Vilhjálms Þórs Kjartanssonar, TF3DX og konu hans, Guðrúnar Hannesdóttur, TF3GD. Undirritaður átti þess kost að hitta John á heimili þeirra hjóna ásamt Kristjáni Benediktssyni, TF3KB. Við það tækifæri var honum formlega afhent eintak af ritinu Siðfræði og samskiptasiðir radíóamatöra sem er þýðing Vilhjálms Í. Sigurjónssonar, TF3VS, á riti þeirra John Devoldere, ON4UN og Mark Demeuleneere, ON4WW, Ethics and Operating Procedures for the Radio Amateur. Fram kom, að íslenska þýðingin, sem Í.R.A. gaf út þann 13. ágúst 2009 var annað tungumálið sem ritið var þýtt á yfir heiminn. Það hefur nú verið þýtt á alls 28 tungumál.

John, ON4UN, færði Í.R.A. nýjustu útgáfu bókar sinnar “ON4UN’s Low-Band DXing” að gjöf. Ljósm.: TF3LMN.

Við sama tækifæri færði John félaginu nýjustu útgáfu af bók sinni “ON4UN’s Low-Band DXing.” Um er að ræða 5. útgáfu bókarinnar. John áritaði bókina með eftirfarandi texta: „To all Í.R.A. members. Enjoy the book and good luck on the low bands. Iceland: 4. August 2011, John Devoldere, ON4UN”.

Vilhjálmur sýnir John áhugaverða ljósmynd úr amatörstarfinu. Ljósmynd: TF3LMN.

Vilhjálmur og John við bifreið Vilhjálms (sjá aðlögunarrásina fyrir 160m fyrir miðri framrúðu). Ljósmynd: TF3LMN.

Undirritaður óskar að þakka þeim Vilhjálmi og Guðrúnu fyrir frábærar móttökur og tækifærið að eiga þess kost að hitta
John, ON4UN, sem er goðsögn í lifanda lífi á meðal radíóamatöra. Einnig þakkir til Kristjáns, TF3KB, IARU tengiliðar félagsins sem og til og Jóns Svavarssonar, TF3LMN fyrir mjög góðar ljósmyndir.

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður Í.R.A.

Stutt kynning. John Devoldere, ON4UN, hefur verið leyfishafi í tæpa hálfa öld og mikið starfað fyrir amatörhreyfinguna, m.a. sem formaður og stjórnarmaður í eigin landsfélagi radíóamatöra í Belgíu, UBA, sem og á alþjóðlegum vettvangi, t.d. innan IARU Svæðis 1. Hann er rafmagnsverkfræðingur að mennt og hefur skrifað fjölda greina og bóka í gegnum tíðina sem snerta áhugamál radíóamatöra, einkum um loftnet, skilyrði til fjarskipta og notkun tíðnisviðanna 3.5 MHz og 1.8 MHz. Hann er jafnvígur á morsi og tali og mikill keppnismaður og margverðlaunaður sem slíkur og verið reglulegur þátttakandi í stærstu alþjóðlegum keppnum radíóamatöra í gegnum tíðina. Hann var kosinn á heiðurslista keppnismanna af CQ tímaritinu árið 1997 (e. CQ Contest Hall of Fame). John er handhafi DXCC viðurkenningarskjals nr. 1 yfir heiminn á 80 metrum og handhafi Worked All Zones Award (WAZ) viðurkenningarskjals nr. 3 yfir heiminn á 160 metrum. Miðað við síðustu uppfærslu ARRL fyrir 160 metra bandið, er hann með skráður með staðfestar 312 DXCC einingar (e. entities). Það tryggir honum bestan árangur í Evrópu og 10. bestan árangur yfir heiminn.

Framkvæmdanefnd Vita- og vitaskipahelgarinnnar 2011. Frá vinstri: TF3JA, TF8SM og TF3SNN. Ljósm.: TF2JB. (Myndin hér að ofan var tekin í Skeljanesi á fyrsta vinnufundi nefndarinnar í fyrra þann 5. ágúst 2010).

Hin árlega Vita- og vitaskipahelgi verður haldin helgina 20. til 21. ágúst n.k. Í ljósi víðtæks áhuga félagsmanna hefur stjórn félagsins samþykkt að styðja það að viðburðurinn verði haldinn við Garðskagavita, annað árið í röð. Til að fylgja þeirri ákvörðun eftir (að höfðu samráði) var ákveðið að framlengja umboð framkvæmdanefndar síðustu Vita- og vitaskipahelgar sem var valin á félagsfundi í fyrra og þótti standa sig mjög vel. Þeir sem skipa framkvæmdanefnd Vita- og vitaskipahelgar 2011 eru: Sveinn Bragi Sveinsson, TF3SNN (formaður); Sigurður Smári Hreinsson, TF8SM; og Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA (sjá mynd að ofan). Meginhlutverk nefndarinnar er að annast undirbúning viðburðarins. Að venju mun félagið leggja til tæki og búnað sem nefndin telur nauðsynlegan.

Nánar verður fjallað um undirbúning viðburðarins, aðstöðuna og fyrirkomulag á staðnum þegar nær dregur. Nefndarmenn munu taka á móti ábendingum félagsmanna og svara fyrirspurnum, en einnig má sjá upplýsingar á heimasíðu Ayr Amateur Radio Group í Skotlandi sem stendur fyrir Vita- og vitaskipahelgunum: http://illw.net/

Stjórn Í.R.A. býður nefndarmenn velkomna til starfa.

Heimasmíðaður 100W sendir á 500 kHz

Heimasmíðaður 100W sendir á 500 kHz. Sjá: http://www.500kc.com/N4ICK/index.htm

Stjórn Í.R.A. hefur samþykkt að mæla með því að íslenskir leyfishafar taki upp tíðniskiptingu systurfélags okkar í Noregi (NRRL) á 600 og 60 metrum. Eins og staðan er í dag, búa radíóamatörar í flestum löndum í IARU Svæði 1 við takmarkaðar heimildir á þessum böndum, þ.e. heimildir á 600 metrum eru ekki samræmdar og á 60 metrum eru heimilaðar á bilinu frá 5-8 fastar tíðnir. Vegna þessa er ekki í gildi niðurskipting á þessum tíðnisviðum frá hendi IARU Svæðis 1.

Með tilliti til þess að á Íslandi og í Noregi er samræmd tíðniúthlutun, þ.e. á 5260-5410 kHz (60 metrum) annarsvegar og á 493-510 kHz (600 metrum) hinsvegar, þykir skynsamlegt að samræma skipulag notkunar í löndunum. Fyrir liggur, að þessi niðurskipting geti orðið vísir að nýrri tíðniskipan IARU Svæðis 1 þegar þar að kemur (sbr. að gert er ráð fyrir stafrænum teg. útgeislunar, sem enn eru ekki heimilaðar í TF og LA). Í ljósi þessa er mælt með eftirfarandi niðurskiptingu tíðnisviðanna:


Tíðnisviðið 493-510 kHz (600 metrar)

Viðmiðunartíðni

Teg. útgeislunar

Teg. notkunar

500 kHz

Mors (A1A) Almenn kalltíðni

503 kHz

Mors (A1A) Almenn samskipti


Tíðnisviðið 5260-5410 kHz (60 metrar)

Viðmiðunartíðni

Teg. útgeislunar

Teg. notkunar

Tilgreint tíðnisvið fyrir mismunandi teg. útgeislunar

5310 kHz

Mors (A1A) Almenn kalltíðni 5305-5315 kHz (eingöngu mors)

5335 kHz

QRP, allar teg. útgeislunar Almenn kalltíðni 5330-5340 kHz (allar teg. útgeislunar, en QRP afl)

U5355 kHz

Stafrænar teg. útgeislunar Almenn kalltíðni 5350-5360 kHz (stafrænar teg. útgeislunar)

5375 kHz

Tal (J3E, USB) Almenn kalltíðni 5375-5390 kHz (eingöngu tal)

5403,5 kHz

Tal (J3E, USB) Almenn kalltíðni, DX


Þess er farið á leit, að eftirtaldar fastar tíðnir (sendiaflestur á USB) séu sem minnst notaðar, þar sem sumar þessara tíðna eru ennþá einu möguleikar annarra leyfishafa í öðrum löndum í IARU Svæði 1 til að vinna í tíðnisviðinu.

5280 kHz 5278.5 kHz
5290 kHz 5288.5 kHz
5332 kHz 5330.5 kHz
5348 kHz 5346.5 kHz
5368 kHz 5366.5 kHz
5373 kHz 5371.5 kHz
5400 kHz 5398.5 kHz


Íslenskir leyfishafar þurfa að sækja sérstaklega um heimild til Póst- og fjarskiptastofnunar til að gera tilraunir í ofangreindum tíðnisviðum. Núgildandi heimildir okkar gilda til 31.12.2012.

(1) 493-510 kHz. Heimild er bundin við notkun á morsi (A1A tegund útgeislunar). Hámarks leyfilegt útgangsafl er 100W á víkjandi grundvelli.
(2) 5260-5410 kHz. Heimild er bundin við notkun á morsi (A1A) og tali (J3E, USB tegund útgeislunar). Hámarksbandbreidd merkis er 3 kHz. Hámarks leyfilegt útgangsafl er 100W á víkjandi grundvelli.
Heimildir í þessum tíðnisviðum eru veittar með þeim fyrirvara að komi til truflana á annarri fjarskiptastarfsemi, en þá verður að hætta sendingum strax. Kallmerki skal notast við upphaf og endi fjarskiptasambands og með viðeigandi reglulegu millibili á meðan fjarskiptasamband varir. N-leyfishafar og G-leyfishafar njóta sömu réttinda. Sækja má um heimild á tölvupósti til PFS á hrh@pfs.is.

Fyrir þá sem vilja fræðast um þessi nýju tíðnisvið er bent á greinar um 500 kHz og 5 MHz böndin sem birtust í 2. tbl. CQ TF 2010, bls. 18 annarsvegar, og bls. 22 hinsvegar. Ath. að til þess að meðfylgjandi hlekkur opnist, þarf viðkomandi félagsmaður að vera með skráðan aðgang. Sækja má um aðgang ti félagsins á tölvupóstfangið ira hjá ira.is