Frá erindi Vilhjálms Þórs Kjartanssonar TF3DX. Með honum á myndinni er Höskuldur Elíasson TF3RF.

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, flutti erindið Hvernig reiknar IARU forritið sviðsstyrk og öryggismörk amatörsendinga? þann 15. mars í félagsaðstöðunni við Skeljanes.

Erindið var mjög áhugavert, vel flutt og veitti framúrskarandi góða innsýn í umfjöllunarefnið út frá fræðilegum forsendum og beitingu í reynd. Um 30 félagsmenn og gestir sóttu erindið og stóðu umræður fram undir kl. 23.

Stjórn Í.R.A. þakkar Vilhjálmi Þór Kjartanssyni, TF3DX, fyrir vel heppnað og áhugavert erindi og Jóni Svavarssyni, TF3LMN, fyrir myndatökuna.

Frá vinstri: Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX, Höskuldur Elíasson TF3RF, Benedikt Guðnason TF3TNT, Bjarni Sverrisson TF3GB og Gísli G. Ófeigsson TF3G.

ICNIPRcalc forrit IARU Svæðis 1 nefnist ICNIRPcalc V1.01. Auðvelt er að setja ýmsar breytur inn í forritið, m.a. tíðni, tegund loftnets, mismunandi afl og láta forritið reikna örugga fjarlægð frá loftneti í sendingu. Forritið veitir leyfishöfum dýrmæta vísbendingu hvað varðar útgeislunarhættu.

ICNIRPcalc V1.01 má sækja á eftirfarandi vefslóð: http://www.iaru-r1.org/index.php?option=com_content&view=article&id=860:new-version-of-icnirpcalc-now-for-download-&catid=43:emc&Itemid=95

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX.

Næsta fimmtudagserindi á vetrardagskrá félagsins verður haldið í Skeljanesi fimmtudaginn 15. mars kl. 20:30. Fyrirlesari kvöldsins er Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX og nefnist erindið: Hvernig reiknar IARU forritið sviðsstyrk og öryggismörk amatörsendinga?

Vilhjálmur mun kynna uppfærða útgáfu ICNIPRcalc forrits IARU Svæðis 1 sem nefnist ICNIRPcalc V1.01 sem nú er boðið á ensku, frönsku og þýsku. Auðvelt er að setja ýmsar breytur inn í forritið, m.a. tíðni, tegund loftnets, mismunandi afl og láta forritið reikna örugga fjarlægð frá loftneti í sendingu og mun Vilhjálmur taka fyrir dæmi og skýra raunverulegar aðstæður.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að mæta tímanlega. Kaffiveitingar eru í boði félagsins.

Sækja má nýju V1.01 útgáfuna á eftirfarandi vefslóð:

http://www.iaru-r1.org/index.php?option=com_content&view=article&id=860:new-version-of-icnirpcalc-now-for-download-&catid=43:emc&Itemid=95

Myndin sýnir hluta nemenda er sátu próf til amatörleyfis fyrir tveimur árum í Fjölbrautaskólanum í Hafnarfirði.

Skráningu í próf til amatörleyfis lýkur föstudaginn 16. mars næstkomandi. Áhugasamir geta skráð nafn sitt á “ira hjá ira.is”. Fyrirspurnum má jafnframt beina á sama töluvpóstfang. Hugmyndin er, að bjóða upp á próf í félagsaðstöðu Í.R.A. í Skeljanesi laugardaginn 28. apríl n.k. án undanfarandi námskeiðs, að því tilskyldu að næg þátttaka fáist.

Fáist næg þátttaka, mun félagið bjóða upp á sérstakt kynningarkvöld námsefnis. Komi fram áhugi á þeim fundi, kemur til greina að boðið verði upp á dæmatíma og yfirferð eldri prófa, nemendum til undirbúnings.

Áformað er að bjóða upp á næsta reglulegt námskeið til amatörprófs á hausti komanda og er miðað við að kennsla hefjist í þriðju viku septembermánaðar.


A.m.k. í einu tilviki, virðist sem staðfestingarpóstur um skráningu hafi ekki borist frá félaginu. Félagið mun því senda út í dag, sunnudaginn 11. mars, tölvupóst til allra sem þegar eru skráðir. Hafi menn ekki fengið slíkan tölvupóst kl. 18:00 í dag, eru þeir vinsamlegast beðnir að senda nýja skráningu á ira hjá ira.is

Ólafur Björn Ólafsson, TF3ML

Ólafur B. Ólafsson, TF3ML og Kari Hämynen, OH7HXH, settu nýtt fjarlægðarmet innan IARU Svæðis 1 þann 4. mars 2012 þegar þeir höfðu samband á SSB yfir norðurljósabeltið (e. aurora) á 50 MHz. Fjarlægðin er alls 2.522 km.

Ólafur átti reyndar fyrra metið í þessum flokki, sem hefur staðið óbreytt frá árinu 2000, þegar hann hafði samband við ES2QM. Fjarlægðin þá var alls 2.335 km.

Nánari upplýsingar má sjá á vefsíðu IARU Svæðis 1, IARU Region 1 VHF/UHF/SHF/EHF DX records. Vefslóð: http://www.ham.se/vhf/dxrecord/dxrec.htm

Stjórn Í.R.A. óskar Ólafi B. Ólafssyni, TF3ML, til hamingju með þennan glæsilega árangur.

Kristinn Andersen TF3KX flutti erindi um QRP í félagsaðstöðunni í Skeljanesi þann 8. mars 2012.

Kristinn Andersen, TF3KX, flutti fimmtudagserindið þann 8. mars og nefndist það QRP kvöld; heimasmíði og notkun QRP senda. Erindið var bæði áhugavert og bráðskemmtilegt og þurftu félagsmenn margs að spyrja. Um 30 félagsmenn og gestir mættu í félagsaðstöðuna í Skeljanesi.

Kristinn fjallaði m.a. um alþjóðlegar skilgreiningar á QRP afli og QRPp afli sem er mest 5W annars vegar, og 1w hins vegar. Til fróðleiks lék hann upptöku af sendingu á morsi frá 4U1UN í New York í Bandaríkjunum, þar sem fyrst var sent stutt merki á 100W, síðan á 10W, þá á 1W og loks á 0,1W. Sérlega áhugavert var að heyra hversu læsilegt merkið var í öllum dæmunum, meira að segja á 0,1W í restina.

Kristinn fjallaði einnig um samspil QRP sendiafls og tíðna, þ.e. hve hærri amatörböndin í stuttbylgjusviðinu geta gefið góða raun og tiltölulega auðveld fjarskipti um þúsundir kílómetra. Hann fjallaði einnig um mikilvægi góðra loftneta þar sem þeim verður komið við, en bent jafnframt á eigin reynslu í notkun færanlegra stöðva innanlands (og erlendis) og notkun QRP afls með tiltölulega einföldum loftnetsbúnaði, ca. 10 metra löngum vír.

Stjórn Í.R.A. þakkar Kristni Andersen, TF3KX, fyrir vel heppnað og áhugavert erindi og Jóni Svavarsyni, TF3LMN, fyrir myndatökuna.

Kristinn heldur á vinsælum QRP tækjum sem keypt eru ósamsett frá Elecraft; gerðum K1 og K2.

QRP tæki og búnaður sem félagsmenn komu með og var til sýningar í fundarhléi.

Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS sýndi m.a. nýja Juma TRX2 sendi-/viðtækið sem hann hefur nýlokið smíði á og er 10W á morsi og tali á 160-10m. Haraldur Þórðarson TF3HP sýndi m.a. heimasmíðaðan sendi á PSK 31. Erling Guðnason TF3EE sýndi m.a. Yaesu FT-817 5W sendi-/viðtæki sem vinnur á morsi og tali á 160-10m, auk 6m, 2m og 70cm. Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX sýndi m.a. hinn fræga “Eldspýtnastokk” sem er 100mW morssendir, heimasmíðaðan “spýtumorslykil” og Elecraft K1 5W sendi-/viðtæki sem vinnur á morsi og tali á 4 böndum. Halldór Christensen TF3GC sýndi m.a. senda frá nýliðatímabili sínu á 80 og 15 metrum. Loks sýndi Kristinn Andersen TF3KX Elecraft K2 10W sendi-/móttökustöðina sem vinnur á morsi og tali á 160-10m.

Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX kom með “eldspýtustokkinn” fræga sem inniheldur morssendi.

Á myndinni má sjá hluta nemenda sem mættu til prófs til amatörleyfis laugardaginn 28. maí 2011.

Líkt og verið hefur til kynningar hér á heimasíðunni s.l. tvær vikur, er hugmyndin að bjóða upp á að haldið verði próf til amatörleyfis þann 28. apríl n.k. án undanfarandi námskeiðs, að því tilskyldu að næg þátttaka fáist. Vakin er athygli á, að skráning er opin til og með 16. mars n.k. Áhugasamir geta skráð nafn sitt á “ira hjá ira.is”. Fyrirspurnum má jafnframt beina á sama töluvpóstfang.

Forsaga málsins er, að stjórn Í.R.A. samþykkti á fundi sínum þann 17. febrúar s.l., að fenginni jákvæðri umsögn prófnefndar félagsins, að kanna með áhuga á þátttöku í prófi til amatörleyfis án undanfarandi námskeiðs. Til viðmiðunar sem prófdagur, er áðurnefndur 28. apríl n.k.

Tilskilið er að næg þátttaka fáist. Verði svo, mun félagið bjóða upp á sérstakt kynningarkvöld námsefnis. Komi fram áhugi á þeim fundi, kemur til greina að boðið verði upp á dæmatíma og yfirferð eldri prófa, nemendum til undirbúnings.

Næsta reglulegt námskeið til amatörprófs verður haldið á hausti komanda og er miðað við að kennsla hefjist í þriðju viku september.

Mælingahús háloftadeildar Raunvísindastofnunar H.Í. í Leirvogi. Mælingar hafa verið gerðar frá 1957.

Töluverðar truflanir hafa verið í segulsviðinu s.l. sólarhring (6.-7. mars) sbr. meðfylgjandi línurit.
Á línuritunum má sjá stöðuna frá hádegi 6. mars til hádegis 7. mas. Skilyrðaspár benda til að truflanir geti haldið eitthvað áfram.

Efsta línuritið (Z) sýnir styrkleika segulsviðs jarðar í stefnu lóðrétt niður, næsta línurit (H) sýnir láréttan styrkleika sviðsins og neðsta línuritið (D) sýnir áttavitastefnuna. Z og H eru sýnd í einingunum nanotesla (nT), en D er sýnt í gráðum sem reiknast sólarsinnis frá norðri um austur upp í 360°. Ef D er t.d. 346° merkir það að misvísun áttavitans í Leirvogi er 346° til austurs eða 14° til vesturs (360-346 = 14). Meðalmisvísun á Reykjavíkursvæðinu er um 2° meiri til vesturs og væri þá um 16° V í þessu dæmi.

Gögn eru endurnýjuð á tíu mínútna fresti. Sjá nánar vefslóð: http://www.raunvis.hi.is/~halo/leirvogur.html

Til fróðleiks er birt mynd hér fyrir neðan af vefsíðunni: http://www.solen.info/solar/
Á myndinni má sjá áhugaverð línurit fyrir þróunina tímabilið frá 12. nóvember 2011 til 7. mars 2012. Áhugavert er að sjá fjölda sólbletta fara vel upp á ný (í tæpl. 110), auk þess sem “flúxinn” er einnig að ná vel upp (í tæplega 140).

Hustler G6-144B loftnetið sem tengt er við TF1RPB.

Í undirbúningi er, strax og veður gefst, að setja upp á ný endurvarpsstöð félagsins í Bláfjöllum. TF1RPB („Páll”) hefur nú verið úti í rúmlega 4 mánuði eftir að stagfesta á háum tréstaur sem hélt uppi loftneti fyrir stöðina slitnaði í ofviðri seint í október s.l. Það olli því að staurinn féll til jarðar og brotnaði. Í framhaldi var hann fjarlægður af umsjónaraðila á staðnum.

Félagið hefur í millitíðinni fengið inni fyrir endurvarpann á öðrum stað og fyrir loftnetið á öðrum staur (ekki langt frá þeim fyrri). Erfitt veðurfar undanfarið hefur seinkað verkefninu.

Stöðin hafði verið QRV frá 17. ágúst 2010, þegar nýtt loftnet frá New-Tronics, af gerðinni Hustler G6-144-B, var sett upp. Við sama tækifæri var endurvarpinn sjálfur endurnýjaður og sett upp stöð af Zodiac RT-400 gerð, ásamt nýjum “cavity” síum.

Kristinn Andersen, TF3KX.

Næsta erindi á vetrardagskrá félagsins verður haldið í félagsaðstöðunni fimmtudaginn 8. mars n.k. Þá kemur Kristinn Andersen, TF3KX í Skeljanesið og nefnist erindi hans: QRP kvöld; heimasmíði og notkun QRP senda.

Kristinn mun bæði hafa til sýnis heimasmíðaða QRP senda og keypta, m.a. frá Elecraft. Hann bendir á að það gæti verið skemmtilegt að félagsmenn sem eiga QRP tæki (heimasmíðuð og önnur) taki þau með sér á fimmtudagskvöld.

Erindið hefst stundvíslega kl. 20:30 og hvetur stjórn Í.R.A. félagsmenn til að mæta tímanlega. Kaffiveitingar verða í boði félagssjóðs.

Frumvarp nr. 1.23 um nýtt amatörband í tíðnisviðinu 472-479 kHz hlaut jákvæða umfjöllun á WRC 2012 ráðstefnunni í Genf í gær, þann 13. febrúar. Frumvarpið verður því með í heildarpakkanum sem lagður verður fyrir til endanlegrar samþykktar á föstudag, sem er síðasti dagur ráðstefnunnar.

Ef allt gengur eftir, mun hið nýja band verða heimilað á víkjandi grundvelli. Hámarksútgangsafl miðast við 1W (EIRP) en leyfishafar í löndum, þar sem landfræðileg lega er umfram 800 km frá tilgreindum þjóðlöndum, munu geta sótt um heimild fyrir allt að 5W (EIRP)

Alþjóðleg radíófjarskiptaráðstefna ITU, WRC-12 (World Radiocommunication Conference 2012) hófst í Genf þann 23. janúar og lýkur n.k. föstudag, 17. febrúar. Sérfræðingar Póst- og fjarskiptastofnunar sækja ráðstefnuna fyrir hönd Íslands.

Upplýsingar um ráðstefnuna má sjá á eftirfarandi vefslóð: http://www.itu.int/ITU-R/index.asp?category=conferences&rlink=wrc-12%3C=en

Kristján Benediktssonm TF3KB

Fimmtudagserindið þann 23. febrúar var í höndum Kristjáns Benediktssonar, TF3KB og nefndist það Ráðstefnan í IARU Svæði 1 árið 2011; helstu niðurstöður. Á þriðja tug félagsmanna mættu í félagsaðstöðuna í Skeljanesi.

Í umfjöllun sinni, lýsti Kristján uppbyggingu aðþjóðastarfs radíóamatöra. Hann fór vel yfir feril og þróun umræðunnar innan hreyfingarinnar og tók dæmi um faglega og færsæla lausn mála þann tíma sem hann hefur annast embætti tengiliðar Í.R.A. í alþjóðastarfinu, auk þess að fjalla sérstaklega um niðurstöður ráðstefnu IARU Svæðis 1 sem haldin var í Suður-Afríku í ágústmánuði s.l.

Kristján fjallaði að lokum um helstu niðurstöður alþjóðlegrar radíófjarskiptaráðstefnu I.T.U., WRC-12 (World Radiocommunication Conference 2012) sem varða radíóamatöra og lauk þann 17. febrúar s.l. í Genf. Þar ber hæst, nýtt amatörband á heimsvísu í tíðnisviðinu 472-479 kHz.

Stjórn Í.R.A. þakkar Kristjáni Benediktssyni, TF3KB, fyrir vel heppnað og áhugavert erindi.

Fram kom m.a. hjá Kristjáni, að þegar er hafinn undirbúningur að frumvarpi um nýtt
amatörband á 5 MHz, sem gæti verið tekið til umfjöllunar á WRC-2015 eða 2018.

Frá prófdegi 23. janúar 2010.

Nokkrir einstaklingar hafa sett sig í samband við félagið að undanförnu og skýrt frá áhuga sínum þess efnis, að fá tækifæri til að sitja próf til amatörleyfis án undangengis námskeiðs. Stjórn Í.R.A. samþykkti á fundi sínum s.l. föstudag (að fenginni jákvæðri umsögn prófnefndar félagsins) að kanna þennan áhuga frekar. Til viðmiðunar sem prófdagur, er laugardagurinn 28. apríl n.k. Tilskilið er að næg þátttaka fáist.

Áhugasamir eru beðnir um að skrá nafn sitt og tölvupóstfang á “ira hjá ira.is”. Fyrirspurnum má jafnframt beina á sama töluvpóstfang.

Skráning verður opin til og með 16. mars n.k. Fáist næg þátttaka, mun félagið bjóða upp á sérstakt kynningarkvöld námsefnis. Komi fram áhugi á þeim fundi, kemur til greina að boðið verði upp á dæmatíma og yfirferð eldri prófa, nemendum til undirbúnings.

Fyrirhugað er að boðið verði upp á næsta reglulegt námskeið til amatörprófs á hausti komanda og er miðað við að það hefjist í þriðju viku septembermánaðar.