Kári Pálsson Þormar, TF3KA, hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað.

Fram kemur í Fréttablaðinu í dag, að Kári hafi látist á Vífilstaðaspítala 30. júní s.l. Hann var á 92. aldursári, leyfishafi nr. 31.

Um leið og við minnumst Kára með þökkum og virðingu færum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF3JB
formaður

Orðsending frá Hrafnkeli Sigurðssyni, TF8KY, umsjónarmanni VHF/UHF leikanna:

Sælir kæru félagar!

VHF/UHF leikjahelgin er að renna upp. Þetta verður hrikalega gaman. Allir upp með græjurnar, upp á heiðar, fjöll og út í eyjar. Eða bara láta fara vel um sig heima í „sjakknum“. Frábært tækifæri til að prófa nýja dótið, eða gamla dótið. Það besta er, það þarf ekki að vera með rándýrar græjur. Einföld handstöð frá Kína er allt sem þarf. Oft koma bestu sögurnar frá afrekum með litlum búnaði.

Upptekin(n)?  Öll þátttaka bætir leikinn, stök QSO eru betri en engin QSO. Gerum þetta með stæl, sýnum einnig á Facebook að við erum virkir amatörar. Allir grobbpóstar úr leiknum kærkomnir. Viðurkenningar verða einnig veittar fyrir bestan árangur og fyrir skemmtilegustu myndirnar/færslurnar.

Eins og venjulega verður “online” leikjavefur þar sem þátttakendur skrá sig til leiks. Hægt verður að skrá sig inn í leikinn allan tímann þangað til leikurinn endar. Slóð á leikjavefinn auglýst síðar. Þar verður einnig að finna nánari leiðbeiningar.

ATH ATH ATH! Breyttur tími. Blásið verður til leiks kl. 18 föstudaginn 10. júlí og leikurinn stendur til kl. 18 sunnudaginn 12. júlí.

Verð í félagsaðstöðunni í Skeljanesi á fimmtudag 9. júlí kl. 20:00; svara spurningum og sýni leikjavefinn.

73 de Keli, TF8KY.

Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, umsjónarmaður VHF/UHF leikanna. Myndin var tekin á aðalfundi ÍRA 15. febrúar 2020. Ljósmynd: Jón Svavarsson TF3JON.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 9. júlí.

Góður félagsskapur, nýjustu tímaritin, kaffi, te og meðlæti. QSL stjóri verður búinn að tæma pósthólfið og flokka innkomin kort.

Framundan eru m.a. VHF/UHF leikarnir um helgina, 11.-13. júlí, og því margt að ræða yfir kaffinu.

Áfram gilda þau tilmæli, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Vinsælar í gegnum tíðina. Tvær glæsilegar sendi-/móttökustöðvar fyrir HF tíðnisvið radíóamatöra: Yaesu FT-102; eigandi TF3WS og Yaesu FT-1000MP; eigandi ÍRA. Stöðvarnar eru frá mismunandi tímabilum. FT-102 var ein af síðustu stöðvunum í framleiðslu með lampaútgang (3×6146 og 12BY7A í knýstigi); sendiafl 100W. Hún var framleidd 1982-1984. Þetta eintak kom til landsins 1984.

FT-1000 MP er af annarri kynslóð FT-1000 stöðva og er búin transistorútgangi; sendiafl 100W. Hún var í framleiðslu 1996-1999. Þetta eintak kom til landsins 1997. Báðar stöðvarnar eru búnar innbyggðum aflgjafa. FT-102 stöðin verður yfirfarin fljótlega en FT-1000MP stöðin er nýkomin úr yfirferð og er sögð í fullkomnu lagi. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW, virkjaði Miðfell við Flúðir í Hrunamannahreppi (SOTA TF/SL215) 3. júlí s.l. Tindurinn er í 251 metra hæð yfir sjávarmáli í reit HP94uc. Þau Björg Óskarsdóttir (XYL) gengu á fjallið og voru mjög ánægð með ferðina, en þegar upp var komið var lengst af logn með sól á köflum.

Þetta var fyrsta SOTA ferð Sigga og jafnframt í fyrsta skipti sem þessi tindur er virkjaður. Hann hafði 10 QSO á morsi, vítt og breitt um Evrópu, allt niður til Ísrael. Hann notar þriggja banda Mountain Topper MTR-3B stöð frá LNR Precesion fyrir 40/30/20m böndin. Sendiafl er mest 5W. Loftnet var svokallað „V-á hvolfi“ sem var haldið uppi með 6m hárri glertrefjastöng.

SOTA (Summits On The Air) verkefnið var stofnað 2002. Málið snýst um að fara á fjöll með fjarskiptatæki og búnað og hafa sambönd við aðra leyfishafa á amatörböndunum. Fjallatindar eru skilgreindir sérstaklega í hverju landi og hérlendis eru þeir alls 910.

TF3DX varð fyrstur til að „virkja“ fjallatind samkvæmt verkefninu, þann 1. september 2016 þegar Ísland gerist aðili. Þeir TF3EO, TF3EK og TF5PX settu kerfið upp hér á landi.

Sigurður R. Jakobsson TF3CW virkjar Miðfell á Skeiðum (SOTA TF/SL215) 3. júlí. Ljósmynd: Björg Óskarsdóttir.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi á morgun, fimmtudaginn 2. júlí. Góður félagsskapur, nýjustu tímaritin, kaffi, te og meðlæti. QSL stjóri ÍRA, tæmir pósthólfið og flokkar innkomin kort fyrir opnun.

Spennandi viðburðir eru framundan og því margt sem þarf að ræða yfir kaffinu, m.a.:

  • VHF/UHF leikarnir 11.-13. júlí;
  • TF útileikarnir 1.-3. ágúst; og
  • Alþjóðlega vita- og vitaskipahelgin 22.-23. ágúst.

Sjáumst í Skeljanesi!

Stjórn ÍRA.

Skemmtileg mynd frá þátttöku Ólafs B. Ólafssonar TF3ML í VHF/UHF leikunum sumarið 2017 þegar hann var staddur á Fróðárheiði, sem er fjallvegur í 361 metra hæð yfir sjávarmáli og liggur yfir Snæfellsnes til Fróðársveitar, austan við Ólafsvík. Ljósmynd: TF3ML.

Baldvin Þórarinsson, TF3-Ø33, mætti í Skeljanes eftir hádegi sunnudaginn 28. júní. Á dagskrá var að hreinsa til og gera snyrtilegt við húsið og innganginn. Verkið gekk hratt og vel fyrir sig svo nú er orðið boðlegt fyrir félagsmenn og gesti að mæta á staðinn. Leigumarkaður BYKO í Breidd sá okkur fyrir Honda sláttuorfi með öflugum bensínmótor (eins og í fyrra), en Baldvin kom færandi hendi með stunguskóflu og önnur garðáhöld heiman að frá sér.

En þar var ekki látið við sitja, því eins og fram kom í 4. tbl. CQ TF 2019, þegar Baldvin snyrti síðast til fyrir utan Skeljanes, var haft eftir honum að: „…hann hafi verið nokkuð ánægður [með unnið verk þá] en benti á að næst mætti huga að því að mála, a.m.k. trévegginn þar sem TF3IRA skiltið er fest“. Og í framhaldi af garðvinnunni, tók Baldvin sér málningarpensil og rúllu í hönd og málaði í snatri tvær umferðir á trévegginn og í kring. Veggurinn, sem síðast var málaður 7. apríl 2018 lítur nú út sem nýr. Bestu þakkir til Baldvins fyrir gott framtak vel unnin verk!

Allt annað og snyrtilegra er nú að nálgast innganginn í félagsaðstöðuna. Illgresið sem áður var þétt vaxið upp við húsvegginn er allt farið og úr sér vaxið grasið á flötinni fyrir framan húsið hefur verið slegið. Baldvin sagðist bara nokkuð ánægður með verkefni dagsins, en benti á að næst mætti huga að því að mála fleiri fleti á húsinu.
Baldvin beitir sláttuorfinu á óæskilegan gróður. Grasvöxturinn upp við húsið var einnig fjarlægður.
Málningarrúllan munduð á trévegginn við innganginn. Baldvin sagðist ætla að láta tvær umferðir nægja að sinni. Skiltið með kallmerki félagsstöðvarinnar var meira að segja skrúfað niður og þrifið. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.

Ágætu félagsmenn!

Mér er ánægja að tilkynna um útkomu 3. tbl. CQ TF sem nú kemur út á stafrænu formi hér á heimasíðunni.

Margir hafa lagt hönd á plóg og mörgum ber að þakka, en sér í lagi TF3VS sem annaðist umbrotsvinnu. CQ TF er að þessu sinni 52 blaðsíður að stærð.

73 – TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Hér fyrir neðan má finna hlekk á blaðið: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2020/06/cqtf_34arg_2020_03tbl.pdf

Í dag, 27. júní, bættist við innanlandsviðtæki til hlustunar yfir netið af KiwiSDR gerð, sömu tegundar og þau tvö sem eru fyrir. Nýja viðtækið er staðsett í Bláfjöllum í 690 metra hæð. Það hefur fyrst um sinn til afnota, láréttan tvípól fyrir 80 og 40 metrana.

KiwiSDR viðtækin vinna frá 10 kHz upp í 30 MHz. Hægt er að hlusta á AM, FM, SSB og CW sendingar og má velja bandbreidd sem hentar hverri mótun. Allt að átta notendur geta verið skráðir inn á viðtækið samtímis. Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A stóð að uppsetningu tækisins í dag, en það er í eigu Georgs Kulp, TF3GZ. Vefslóðin er: http://blafjoll.utvarp.com

Hin tvö viðtækin sem eru virk í dag, eru staðsett á Bjargtöngum í Vesturbyggð, vestasta tanga Íslands og ysta oddi Látrabjargs og á Raufarhöfn. Vefslóðir:

Bjargtangar: http://bjarg.utvarp.com
Raufarhöfn: http://raufarhofn.utvarp.com

Stjórn ÍRA þakkar þeim Ara og Georg fyrir verðmætt framlag. Hér um að ræða mikilvæga viðbót fyrir radíóamatöra sem gera tilraunir í þessum tíðnisviðum, auk hlustara og allra sem hafa áhuga á útbreiðslu radíóbylgna.

Mynd af aðstöðunni í Bláfjöllum sem er í 690 metra hæð yfir sjávarmáli. Ljósmynd: Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A.

Elín Sigurðardóttir, TF2EQ, ungmennafulltrúi ÍRA, tók þátt í YOTA (Youngsters On The Air) virkni á netinu í viku 26. Viðburðir voru hvorutveggja í boði í IARU Svæðum 1 og 2 og voru hugsaðir til að koma, a.m.k. að hluta til í stað YOTA viðburða, sem ýmist voru felldir niður eða frestað í vor/sumar vegna Covid-19.

Vikan endaði síðan á Svæði 2 (Bandaríkjunum) með kynningu á áhugamálinu þar sem ungu fólki var boðið að fá aðgang að búnaði leyfishafa til að ræða við aðra á HF böndunum. Elín tók þátt frá TF3IRA föstudaginn 26. júní.

Skilyrði voru ekki góð vestur um haf á þeim tíma sem Elín hafði til ráðstöfunar til fjarskipta (í gær), þótt frekar hafi ræst úr þegar nær dró kvöldmat. Hins vegar var mikið kallað á hana frá öðrum heimshlutum, sem endaði í miklu „pile-up“ og um 100 samböndum. Elín sagðist vonast eftir hagstæðari skilyrðum til Bandaríkjanna þegar næsti viðburður verður haldinn í júlí.

Elín Sigurðardóttir TF2EQ við hljóðnemann frá TF3IRA þegar leitað eftir samböndum við YOTA stöðvar 26. júní. Ljósmynd: TF3JB.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi var opin fimmtudaginn 25. júní. Þetta var þriðja opnunarkvöld eftir 3 mánaða hlé en aðstaðan var samfleytt lokuð frá 12. mars til 11. júní s.l. vegna Covid-19.

Yfir kaffinu voru fjörugar umræður á báðum hæðum, m.a. um DX‘inn, nýjustu þróun í SDR viðtækjum, ferðaloftnet og SOTA verkefnið, sem snýst um að fara á fjöll með fjarskiptatæki og búnað og hafa sambönd við aðra leyfishafa á amatörböndunum. Fjallatindar eru skilgreindir sérstaklega í hverju landi og hérlendis eru þeir 908.

Einnig ræddu menn nýtt tölublað CQ TF sem er væntanlegt á sunnudag (28. júní) og áhugaverðar DX opnanir undanfarið yfir pólinn til Asíu á 20, 15 og 10 metrum og mjög góðar opnanir á 4 og 6 metrum. Þá er töluverður áhugi á VHF/UHF leikunum 2020 sem fara fram helgina 11.-12. júlí n.k. og IARU HF World Championship keppninni sem fer fram sömu helgi.

Umræður stóðu fram yfir kl. 23 þetta ágæta sumarkvöld í Skeljanesi. Alls mættu 22 félagar á staðinn.

Við fundarborðið. Jón Björnsson TF3PW, Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Baldvin Þórarinsson TF3-033 og Mathías Hagvaag TF3MH.
Leðursófasettið er vinsælt. Óskar Sverrisson TF3DC, Yngvi Harðarson TF3Y, Sigurður R. Jakobsson TF3CW og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS. Einn í hópnum fékk nýja HF stöð daginn áður sem hann ætlar að nota til að taka þátt í SOTA verkefninu í sumar.
Rætt um áhugaverð DX-skilyrði. Sigurður R. Jakobsson TF3CW, Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Kristján Benediktsson TF3KB og Yngvi Harðarson TF3Y.
Tímaritin eru alltaf spennandi. Baldvin Þórarinsson TF3-033, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, og Mathías Hagvaag TF3MH. Fjær: Óskar Sverrisson TF3DC og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS. Ljósmyndir: TF3JB.

Carl Johan Eiríksson, TF3CJ,  hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað.

Fram kemur á vef Skotíþróttasambands Íslands í dag, að Carl hafi látist þann 12. júní s.l.

Hann var á 92. aldursári; handhafi leyfisbréfs nr. 43.

Um leið og við minnumst Carls með þökkum og virðingu færum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar ÍRA,

Jónas Bjarnason, TF3JB
formaður

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 25. júní. Húsið opnar stundvíslega kl. 20:00.

Góður félagsskapur, nýjustu tímaritin, kaffi, te og veglegt meðlæti.

Mathías Hagvaag TF3MH, QSL stjóri ÍRA, tæmir pósthólfið á miðvikudag og flokkar innkomin kort fyrir opnun.

Sjáumst í Skeljanesi!

Stjórn ÍRA.

.

Úr félagsstarfinu. Frá vinstri: Ómar Magnússon TF3WK/OZ1OM, Þórður Adolfsson TF3DT og Óskar Sverrisson TF3DC í fjarskipta-herbergi TF3IRA í Skeljanesi 2. nóvember 2019. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.