,

FRÁBÆR  FIMMTUDAGUR Í SKELJANESI

Frá erindi Sigurðar Harðarsonar TF3WS í Skeljanesi 16. mars.

Sigurður Harðarson, TF3WS heimsótti okkur í Skeljanes 16. mars með erindið: „Kynning á íslenskri framleiðslu útvarpsviðtækja“. Með Sigurði kom Guðmundur Sigurðsson, sem safnar og hefur gert upp mikið magn af eldri útvarpsviðtækjum.

Sigurður rakti vel og útskýrði framleiðslu viðtækjanna Suðra, Vestra, Austra, Sumra og Sindra hjá Viðtækjasmiðju Ríkisútvarpsins, sem starfaði frá 1933-1949, þegar erfitt var um innflutning á vörum vegna kreppunnar og seinni heimsstyrjaldarinnar.  Að jafnaði unnu 3–5 menn að þessari smíði. Þegar Viðtækjasmiðjan hætti störfum var búið að framleiða nálægt 2000 viðtækjum eftir því sem næst verður komist.

Sigurður hefur sett sig vel inn í starfsemi Viðtækjasmiðjunnar og hvernig framleiðslan þróaðist. Lifandi frásögn hans var afar áhugaverð og fróðleg. Hann kryddaði erindi sitt með mörgum skemmtilegum sögum sem tengdust framleiðslunni og notkun tækjanna hjá almenningi um allt land, þegar viðtækin kostuðu sem nam þriggja mánaða verkamannalaunum.

Þeir Sigurður og Guðmundur mættu með sýnishorn af íslensku viðtækjunum sem félagsmenn fengu að skoða eftir erindið og þeir félagar leystu vel og greiðlega úr fjölda spurninga.

Sigurður færði ÍRA eintak af vönduðum 20 blaðsíðna bæklingi sem hann hefur sett saman um íslensku úrvarpstækin og sem mun liggja frammi í félagsaðstöðu félagsins á fimmtudagskvöldum.

Sérstakar þakkir til Sigurðar og Guðmundar fyrir frábært fimmtudagskvöld. Þeir félagar fylltu húsið því alls mættu 43 félagar og 3 gestir í Skeljanes þetta ágæta vetrarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Viðtækjasmiðjan framleidi Vestra með bæði lang og miðbylgju. Þannig Vestrar hafa fundist og eru til á söfnum víða á landinu. Vestrarnir heita því, Vestri L3 og Vestri ML. Vestrinn, ML er með aukarofa umfram hinn til að skipta milli bylgjusviða.
Þorsteinn Gíslason á Seyðisfirði varð fyrstur Íslendinga til að ná útvarpssendingum frá Þýskalandi, London og París á heimasmíðað útvarp. Tækið er ennþá til og er í vörslu Skógasafns. Þess má geta, að Þorsteinn var radíóamatör með kallmerkið TF6GI og heiðursfélagi ÍRA.
Eftir flutning erindisins. Fjærst: Sigurður Harðarson TF3WS, Óskar Sverrisson TF3DC, Guðmundur Sigurðsson (gestur) og Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE. Sitjandi: Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Hans Konrad Kristjánsson TF3FG. Næst myndavél: Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, Mathías Hagvaag TF3MH og Georg Kulp TF3GZ.
Sigurður Harðarson TF3WS, Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE og Haukur Konráðsson TF3HK. Fjær: Benedikt Sveinsson TF3T.
Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Bernhard M. Svavarsson TF3BS, Örn Gunnarsson (gestur), Eiður Kristinn Magnússon TF1EM og Njáll H. Hilmarsson TF3NH.
Þórarinn Benedikz TF3TZ, Ágúst H. Bjarnason TF3OM og Kristján Benediktsson TF3KB.
Mathías Hagvaag TF3MH, Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, Pier Kaspersma TF3PKN, Benedikt Sveinsson TF3T og Sigmundur Karlsson TF3VE.
Frá afhendingu bæklings Sigurðar um íslensku útvarpstækin: Jónas Bjarnason TF3JB formaður ÍRA, Guðmundur Sigurðsson, og Sigurður Harðarson TF3WS. Ljósmynd: TF3DC.
Mynd af forsíðu 20 blaðsíðna bæklings sem Sigurður Harðarson TF3WS hefur sett saman um íslensku úrvarpstækin. Hann afhendi ÍRA formlega eintak til eignar á fundinum. Ljósmyndir: TF3DC og TF3JB.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

three × 1 =