Frá vinstri: Jón Þóroddur, TF3JA, Sigurður Smári, TF8SM og Sveinn Bragi, TF3SNN. Ljósmynd: TF2JB.

Framkvæmdanefnd Vita- og vitaskipahelgarinnar fundaði í félagsaðstöðunni í Skeljanesi í kvöld fimmtudaginn 5. ágúst. Meginhlutverk nefndarinnar er að annast undirbúning viðburðarins við Garðskagavita helgina 21.-22. ágúst n.k.

Nefndin kynnti s.l. þriðjudag (2. ágúst) að hún væri tekin til starfa, með innkomu á póstlista Í.R.A. Þar kemur m.a. fram, að TF8IRA verði starfrækt frá vitanum. Einnig, að þeir sem hyggja á þátttöku í vitahelginni eru beðnir að skrá sig. Um er að ræða einfalda skráningu, annars vegar að slá inn kallmerki í sérstakan glugga og síðan hvort menn ætla að koma með eign stöð og loftnent.

Þeir sem vilja, geta líka sett inn ábendingar og tillögur. Félagsmenn eru hvattir til að skrá sig sem fyrst á ira@ira.is

TF2JB

Ársæll Óskarsson, TF3AO, flutti erindi um “Vita- og vitaskipahelgar”. Ljósmynd: TF3LMN.

Félagsfundurinn um Vita- og vitaskipahelgina var haldinn fimmtudagskvöldið (29. júlí). Mæting var ágæt og komu alls 22 félagsmenn. Jónas Bjarnason, TF2JB, setti fundinn kl. 20:30 og kynnti framlagða dagskrá. Ársæll Óskarsson, TF3AO, flutti erindi um viðburðinn „Vita- og vitaskipahelgi”. Erindið var fróðlegt, skemmtilegt og vel flutt. Sveinn Bragi Sveinsson, TF3SNN, var næstur og flutti erindi um „praktískar” leiðir til að viðburður af þessu tagi megi takast sem best. Erindið var hnitmiðað og fróðlegt. Erling Guðnason, TF3EE, stýrði síðan umræðum um val á staðsetningu viðburðarins í ár. Umræðan varð strax mjög fylgjandi Garðskagavita, enda erfitt í raun að tala á móti honum, þ.e. hæsti viti á Íslandi, færri kílómetrar að aka frá Reykjavík (en austur), auk frábærrar aðstöðu sem þar er í boði. Í umræðum kom m.a. fram, að menn voru sammála að leggja til að notað verði kallmerkið TF8IRA. Einnig kom fram, að menn hefðu tilfinningar til Knarraróssvita (eftir að hafa farið þangað, jafnvel svo árum skiptir). Í lok umræðna var samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum að Garðskagaviti verði heimsóttur helgina 21.-22. ágúst n.k.

Þriggja manna framkvæmdanefnd var kjörin á fundinum til að annast undirbúning Vita- og vitaskipahelgarinnar. Hana skipa: Sveinn Bragi Sveinsson, TF3SNN, formaður; Sigurður Smári Hreinsson, TF8SM; og Jón Þ. Jónsson, TF3JA.

Frá vinstri: XYL DL9DAN, DJ2VO, DO4YSN, TF2JB, DL9DAN, DF6QV og TF8GX. Ljósmynd: TF3LMN.

Hópur þýskra radíóamatöra sem verið hefur hér á landi undanfarnar tvær vikur og verið í loftinu frá Vestmannaeyjum kom í heimsókn í félagsaðstöðuna á fimmtudagskvöldið. Þau voru afar ánægð með ferðina og nefndu sérstaklega hversu þakklát þau væru fyrir aðstoð og hjálpsemi íslenskra radíóamatöra. Þá voru þau einnig yfir sig heilluð af einstakri náttúru Íslands.

TF2JB

Varla þarf að minna á útileikana sem fara fram um helgina. Ef menn verða á ferðalögum er sjálfsagt að kippa með sér tækjunum og leggja nokkur QSO í púkkið. Og þeir sem verða heima við geta auðvitað tekið þátt líka, annað hvort tengdir eða “unplugged”.

Aðaltímarnir hefjast kl. 17 á laugardag, kl. 09 og 21 á sunnudag og kl. 08 á mánudag, en annars má hafa sambönd hvenær sem er um helgina. Til upprifjunar væru dæmigerð skilaboð í sambandi á 3637 kHz: 59(RS)-003(nr)-Hengill(QTH)-Dípóll(ant)-100W(útafl)-ER(ekki rafveita). Annars má finna reglurnar í CQ TF og á vef Í.R.A.

Logg með a.m.k. einu sambandi þarf að senda inn fyrir lok ágúst til að fá viðurkenningu fyrir þátttöku, en hér á myndinni er einmitt hluti þátttakendanna í útileikunum í fyrra, með viðurkenningarskjölin. Heyrumst í loftinu!

73 – Kiddi, TF3KX

Minnt er á áður auglýstan fund um Vita- og vitaskipahelgina í félagsaðstöðu Í.R.A. við Skeljanes fimmtudaginn 29. júlí n.k. kl. 20:30.

Undanfarin ár hefur árlega verið farið að Knarrarósvita með tæki og búnað félagsins og tekið þátt í svokallaðri “Vita- og vitaskipahelgi”. Nú hefur hópur félagsmanna, sem áhuga hafa á að breyta til komið að máli við stjórn og leggja til að Garðskagaviti verði heimsóttur að þessu sinni. Hugmyndin er, að ræða verkefnið nánar á fundinum.

Uppkast að dagskrá: (1) Kynning á viðburðinum; (2) Umræður og ákvörðun um val á vita; (3) Skipulagning og útfærsla verkefnisins; (4) Kjör í 3 manna undirbúningsnefnd; og (4) Önnur mál.

Það er Ayr Amateur Radio Group í Skotlandi sem stendur fyrir Vita- og vitaskipahelgunum. Sjá hlekk: http://illw.net/

F.h. stjórnar Í.R.A.

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður.

Sigurður, TF3WS, við TF3RPC.

Vinna hefur staðið yfir um helgina við TF3RPC í Reykjavík (oft nefndur “Einar”) vegna bilunar. Sigurður Harðarson, TF3WS, hefur hjálpað okkur sem fyrr. Vandinn var, að merki stöðva sem komu daufar inn á endurvarpann vildu brenglast og verða ólæsileg. Þetta fékkst í lag með því að skipta um “cavity” síurnar. Sjá má í gömlu síurnar á ljósmyndinni aftan við endurvarpann til vinstri (þær eru gráar á lit).

Þegar Sigurður kom að stöðinni í gærmorgun (laugardag) var öryggishúsið á 12VDC rafmagnssnúrunni snarp heitt og þráðurinn sitt hvoru megin. Þá hafði stöðin einungis verið í móttöku um lengri tíma. Slík ástand er afar slæmt og var öryggishúsið strax klippt úr rásinni og stöðin tengd beint í aflgjafann (sem er vel varinn). Sigurður átti eftir að rannsaka öryggishúsið þegar þetta er skrifað. Óvíst er, hvort þetta hefur haft haft áhrif á stöðina sjálfa, en það verður skoðað.

Í morgun (sunnudag) var Kenwood endurvarpanum síðan skipt út fyrir annan sem virðist koma vel út. Ætlunin er að prófa þetta fyrirkomulag a.m.k. í dag og sjá svo til. Endurvarpinn vinnur nú mjög vel og er ekkert því til fyrirstöðu að nota hann. Ath. að eins og er, er ekkert “skott” á sendingunni frá stöðinni.

Nýjar fréttir síðdegis kl. 18:00.

Kenwood endurvarpinn hefur á ný verið settur við og virðist standa sig mjög vel eftir útskiptingu “cavity” síanna. Að sögn Sigurðar, mældist 0,7 Ohm’a viðnám yfir öryggið í straumsnúrunni við tækið… Endurvarpinn virðist standa sig mjög vel og verður nú til prufu í nokkra daga.

Bestu þakkir til Sigurðar Harðarsonar, TF3WS, fyrir aðstoðina.

TF2JB

Undanfarin ár hefur árlega verið farið að Knarrarósvita við Knarrarós (nærri Stokkseyri) með tæki og búnað félagsins og tekið þátt í svokallaðri “Vita- og vitaskipahelgi”. Nú hefur hópur félagsmanna, sem áhuga hafa á að breyta til komið að máli við stjórn og leggja til að Garðskagaviti verði heimsóttur að þessu sinni. Hugmyndin er, að ræða verkefnið nánar í félagsaðstöðu Í.R.A. 29. júlí n.k., en mikilvægt er að skipuleggja viðburð sem þennan til að allt gangi sem best fyrir sig.

Hér með er því boðað til fundar með áhugasömum félagsmönnum um Vita- og vitaskipahelgina í félagsaðstöðu Í.R.A. við Skeljanes fimmtudaginn 29. júlí n.k. kl. 20:30. Viðburðurinn sjálfur fer fram 21.-22. ágúst n.k.

Menn hafa einkum bent á, að við Garðskagavita er góða aðstaða til fjarskipta (sjór á þrjá vegu), góð aðstaða fyrir fjölskyldur (þ.m.t. frítt tjaldsvæði) og góð aðstaða fyrir hjól- og tjaldhýsi, sölubúð og veitingastaður með W.C. aðstöðu, auk þess sem hópurinn mun þegar hafa fengið vilyrði fyrir fjarskiptaaðstöðu í kjallara gamla vitavarðarhússins.

Fjarlægð frá Reykjavík: Að Garðskagavita, 57 km; að Knarrarósvita, 64 km (um Þrengsli). Knarrarósviti er 26 metra hár, en Garðskagaviti er 28,5 metra hár (og hæsti viti landsins).

Það er Ayr Amateur Radio Group í Skotlandi sem stendur fyrir Vita- og vitaskipahelgunum. Sjá hlekk: http://illw.net/

F.h. stjórnar Í.R.A.

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður.

DL9DAN, TF3JA, Sabine DO4YSN /xyl-DL9DAN, Ulla SWL /xyl-DF6QV, TF3SG, DF6QV, DJ2VO, TF3DC og TF3T. Ljósmynd: TF3SA.

Á laugardaginn var, 17. júlí, komu til landsins nokkrir þýskir amatörar og fóru áfram um kvöldið áfram til Vestmannaeyja með ýmsan búnað í farteskinu þar sem þau ætla að vera í loftinu þessa vikuna og taka síðan þátt í IOTA um næstu helgi á kallmerkinu TF7X.

Þar sem þau höfðu ágætan tíma og veðrið var frábært var farið með þau í skoðunarferð um stór Reykjavíkursvæðið, skemmst er frá því að segja að þau voru öll mjög hrifin enda Reykjavík og viðhengd bæjarfélög algert augnayndi í góðu veðri á miðju sumri. Sérstaklega höfðu þau á orði hve allt var hreint og vel til haft.

Eftir hádegið komu þau við í Skeljanesinu þar sem TF3JA, TF3SA, TF3SG, TF3T og TF3DC tóku á móti þeim með rjúkandi kaffi og meðlæti. Þau skoðuðu stöðina í leiðsögn TF3DC og við töfluna stóð TF3SG lengi með tveimur úr hópnum og skiptist við þá á upplýsingum um loftnet. Ekki þarf að orðlengja að mjög lærdómsríkt var að heyra um allar þær loftnetatilraunir sem þeir þýsku hafa staðið að gegnum árin.

Þau voru mjög þakklát fyrir þessar móttökur og hrósuðu félaginu fyrir snyrtilega og góða aðstöðu. SteppIR lofnetið vakti sérstaka hrifningu.

Á laugardag í þessari viku ætla nokkrir amatörar að notfæra sér nýju ferjuleiðina til Eyja og fara í heimsókn til þeirra með fyrstu ferð og til baka aftur um kvöldið. Amatörar og aðrir áhugasamir eru velkomnir í heimsókn til þeirra í Heimaey þar sem þau eru með aðstöðu í Ofanleiti.

TF3JA

Yngvi Harðarson, TF3Y á lyklinum í SAC keppninni hjá TF4X. Ljósmynd: TF4M.

TF4X sigraði örugglega í CW hluta 51. SAC (Scandinavian Activity Contest) keppninnar sem haldin var 19.-20. september 2009. Yngvi Harðarson, TF3Y, var við lykilinn á TF4X, keppnisstöð Þorvaldar Stefánssonar, TF4M. Yngvi keppti í flokki einliða á einu bandi, með einn sendi á 14 MHz (Single op., sigle TX, single band, 14 MHz). Niðurstaðan var 145.560 stig, þ.e. 1.037 QSO, 2.426 QSO punktar og 60 margfaldarar. Sú stöð sem næst kom í 2. sæti var OH7WW með 103.510 stig, þ.e. 771 QSO, 1.882 QSO punkta og 55 margfaldara.

Bjarni Sverrisson, TF3GB, náði 8. sæti sem er afbragðs árangur í flokki einliða á öllum böndum með einn sendi og lágafl (100W).
Niðurstaðan var 166.815 stig, þ.e. 749 QSO, 1.685 QSO punktar og 99 margfaldarar.

Þorvaldur Stefánsson, TF4M, náði 10. sæti í flokki einliða á einu bandi, með einn sendi á 3,5 MHz. (single op., single TX, single band, 3,5 MHz).
Niðurstaðan var 1.862 stig, þ.e. 49 QSO, 98 QSO punktar og 19 margfaldarar.

Hamingjuóskir til Þorvaldar og Yngva með 1. sætið og til Bjarna með 8. sætið. Örugg og glæsileg útkoma í báðum keppnisflokkum.

(Þakkir til TF4M fyrir innsendingu efnis).

TF2JB

Kjartan, TF3BJ og Gísli, TF3G ganga frá tengjum á kapla fyrir VHF/UHF formagnarana.

Stórum áfanga lauk í dag, sunnudaginn 18. júlí í frábæru veðri í Skeljanesinu, þegar vinnu lauk við síðasta verkhluta uppsetningar VHF/UHF loftneta félagsins. Í dag var gengið frá fæðingu og tengingu VHF/UHF formagnarana. Uppsetningarferlið sjálft er búið að taka um 7 vikur í fjórum verkhlutum. Það er ekki í sjálfu sér ekki langur tími þegar haft er í huga að stefna þarf saman lykilmönnum hverju sinni, auk þess sem verkefnið er allt unnið í sjálfboðavinnu. Sveinn Bragi Sveinsson, TF3SNN, stöðvarstjóri annaðist verkstjórn dagsins (sem fyrr) og tengingar uppi við loftnetin ásamt Erling Guðnasyni, TF3EE (sjá mynd 2) en Kjartan H. Bjarnason, TF3BJ og Gísli G. Ófeigsson, TF3G önnuðust forvinnu, þ.m.t. lagningu kapla og tengingar (sbr. mynd 1). Sá sem þetta skrifar notaði tímann við endurmerkingu QSL skápsins, auk þess sem geymsluvasar voru settir upp fyrir QSL skilagreinar og QSL umslög við hlið QSL skápsins (sbr. mynd 3). Þeir Kjartan og Gísli notuðu tímann á meðan þeir Sveinn Bragi og Erling unnu uppi á þaki og tóku til á lóðinni umhverfis húsið og færðu m.a. annan turn félagsins til geymslu á betri stað (sbr. mynd 4). Hugmyndin er að prófa loftnet og formagnara n.k. fimmtudagskvöld (22. júlí)

Sveinn Bragi TF3SNN og Erling TF3EE önnuðust lokafrágang tengingarvinnunnar .

Geymsluvasar fyrir QSL skilagreinar og umslög voru settir upp við hlið QSL skápsins.

Kjartan TF3BJ og Gísli TF3G við tiltekt á lóðinni í kringum félagsaðstöðuna.

TF2JB

Jón Berg, TF5DZ, reisir Cushcraft 50 MHz Yagi loftnetið upp í 5 metra hæð til prófunar. Ljósmynd: TF5B

Brynjólfur Jónsson, TF5B, tók nýlega niður HF Yagi loftnetið sitt til eftirlits og endurnýjunar, en loftnetið hefur ekki þurft lagfæringar með í nær 20 ár. “Ef ekki hefði þurft að líta á rótorinn”, sagði Billi, “…hefði þetta líklega dugað önnur 20 ár.” Daiwa rótorinn er nú orðinn sem nýr og búið er að skipta um nokkur rör í Fritzel FB-33 Yagi loftnetinu, auk þess sem keyptur var Cushcraft A50-3S þriggja stika Yagi loftnet fyrir 50 MHz og tveggja banda lóðrétt VX-30 stöng frá Diamond fyrir 2 metrana og 70 cm.

Í dag (laugardag) kom Jón Berg, TF5DZ, Billa til aðstoðar og var lokið samsetningu Fritzel FB-33 loftnetsins, auk þess sem prófuð var eigintíðnistilling nýja Cushcraft A50-36 6 metra loftnetins (sjá mynd). Með aðstoð MFJ-259B mælitækisins gekk allt samkvæmt áætlun.

Þegar loftnetin verða komin upp á turninn, verður röðin þessi: Fritzel HF-loftnetið, þá Cushcraft 6-metra loftnetið og síðan lóðrétta tveggja banda VX-30 stöngin frá Diamond fyrir VHF og UHF böndin. Það styttist því í að TF5B verði QRV á ný með góð merki á böndunum.

TF2JB