Athygli er vakin á því að á morgun, 19. október 2010 er síðasti skiladagur keppnisdagbóka í CW hluta Scandinavian Activity Contest (SAC) 2010. Nánari upplýsingar á heimasíðu SAC: http://www.sactest.net/

Í dag, mánudaginn 18. október kl. 15:00 var staðan eftirfarandi fyrir TF stöðvar, samkvæmt fjölda innsendra dagbóka (“Clamed scores):

Keppnisflokkur Kallmerki Árangur, punktar Keppandi Sæti
Öll bönd, flokkur HP TF3W 951,421 TF3CW 10. sæti (af 89)
Öll bönd, flokkur LP TF/DF1LON 117,070 DF1LON 33. sæti (af 90)
Öll bönd, flokkur QRP TF/DL2JRM/P 118,862 DL2JRM 3. sæti (af 14)
Eitt band, 14 MHz LP TF2JB 1,456 TF2JB 14. sæti (af 18)

Fjöldi keppnisdagbóka eftir löndum í Scandinavian Cup var þessi í dag:

1. Svíþjóð – 141 dagbók – 31,7 milljónir punkta.
2. Finnland – 74 dagbækur – 23,7 milljónir punkta.
3. Noregur – 22 dagbækur – 4 milljónir punkta.
4. Danmörk – 12 dagbækur – 3 milljónir punkta.
5. Álandseyjar – 3 dagbækur – 1,6 milljónir punkta.
6. Ísland – 4 dagbækur – 1,2 milljónir punkta.
7. Færeyjar – 2 dagbækur – 0,5 milljónir punkta.

Líkt og sjá má skiptir hver og ein innsend dagbók miklu til að við hækkum á listanum.

TF2JB

Kristinn Andersen, TF3KX, skýrði frá úrslitum í TF útileikunum 2010; viðurkenningarhafar voru alls 11 talsins.

Dagskrá fimmtudagskvöldsins 14. október var tvískipt. Annars vegar kynnti Kristinn Andersen, TF3KX, niðurstöður TF útileikana 2010. Alls tóku 22 stöðvar þátt í viðburðinum og hlutu 11 þeirra viðurkenningar og verðlaun. Kristinn Andersen, TF3KX, reyndist sigurvegari útileikanna árið 2010 með 424,320 heildarstig og hlaut hann ágrafinn verðlaunaplatta. Brynjólfur Jónsson, TF5B, afhenti Kristni verðlaunin og sérstakt viðurkenningarskjal. Í öðru sæti varð Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, með 358,380 heildarstig og í þriðja sæti Vilhjálmur Sigurjónsson, TF3VS, með 322,560 heildarstig. Útileikanefndinni til aðstoðar við útreikninga voru þeir Óskar Sverrisson, TF3DC; Bjarni Sverrisson, TF3BG; og Guðmundur Sveinsson, TF3SG og var klappað fyrir þeim fyrir góða vinnu.

Síðari hluti dagskrár fimmtudagskvöldsins var erindi Sigurðar Harðarsonar, TF3WS, um uppbyggingu endurvarpa í metrabylgjusviðinu (VHF). Sigurður tók sérstaklega fyrir uppbyggingu endurvarpa á Grænlandi sem hann hefur hannað og starfað við undanfarin ár. Hann sagði ennfremur frá vinnu við svipað verkefni í Færeyjum og í Norður-Noregi. Erindinu fylgdu margar skemmtilegar frásagnir frá uppákomum í þessri vinnu á Grænlandi. Hann svaraði að lokum mörgum spurningum félagsmanna í lok erindisins enda um áhugavert efni að ræða og Sigurður með skemmtilegri fyrirlesurum. Félagsmenn þökkuðu fyrir sig með öflugu lófaklappi.

Stjórn Í.R.A. færir viðkomandi bestu þakkir og einnig Jóni Svavarssyni, TF3LMN, sem tók myndirnar sem fylgja frásögninni.

Brynjólfur Jónsson TF5B, annaðist afhendingu viðurkenninga. Viðurkenningahafar: Stefán Arndal TF3SA; Vilhjálmur Sigurjónsson TF3VS; Kristinn Andersen TF3KX; og Snorri Ingimarsson TF3IK.

Jón G. Harðarson TF3PPN; Halldór Christensen TF3GC; Sigurður Harðarson TF3WS; Sveinn Guðmundsson TF3T; Stefán Arndal TF3SA; og Snorri Ingimarsson TF3IK.

Völundur Jónsson TF5VJN; Brynjólfur Jónsson TF5B; Vilhjálmur Sigurjónsson TF3VS, Mathías Hagvaag TF3-035; Bjarni S. Jónasson; Sigurður Steinar Elíasson; og Sveinn Bragi Sveinsson TF3SNN.

TF2JB

JOTA, eða Jamboree-on-the-air verður haldið um helgina, 16.-17. október. Árið 2010 er 53. árið sem þessi viðburður er haldinn. Þessa helgi standa radíóskátar um allan heim fyrir virkni á amatörböndunum og geta ungliðar í skátahreyfingunni fengið að tala í amatörstöðvar við aðra um heiminn undir stjórn radíóamatöra. Á Íslandi stendur skátafélagið Radíóskátar fyrir viðburðinum.

Hér á Íslandi verða rekin eftirfarandi kallmerki: TF2JAM í Grundarfirði; TF3JAM í Reykjavík og TF5JAM á Akureyri.
Ábyrgðarmenn stöðvanna eru: Guðmundur Sigurðsson, TF3GS; Þór Þórisson, TF3GW; og Þórður Ívarsson, TF5PX.

Miðað er við að JOTA fari einkum fram á eftirtöldum tíðnum á SSB á HF: 3,650-3,700 MHz; 7,080-7,140 MHz; 14,100-14,125 MHz og 14,280-14,350; 21,350-21,450 MHz; og 28,225-28,400 MHz. Tíðnirnar á CW á HF: 3,560-3,800 MHz; 7,040-7,200 MHz; og 14,060-14,350. Framangreindar tíðnir eru valdar af radíóskátum að þessu sinni með hliðsjón af alþjóðlegum keppnum sem fram fara um helgina, en þar af er WAG keppnin stærst.

TF2JB

Ýmislegt sem radíóamatörar taka uppá. OZ1AA er á ferðinni frá Danmörku til Ástralíu og það á reiðhjóli !

Thomas OZ1AA is pedaling his way from Denmark to Sydney, Australia! Currently as far as Wroclaw, Poland, Thomas is logging a lot of km – you can follow his progress on his blog, “Cycling the Globe“.

TF3AO

 

Sigurður Harðarson, TF3WS.

Samkvæmt áður kynntri vetrardagskrá Í.R.A. eru tveir viðburðir á dagskrá fimmtudagskvöldið 14. október n.k.:

(1) Kl. 20:00-20:30. Afhending viðurkenninga fyrir þátttöku í TF Útileikunum 2010. Verkefni í höndum Kristins Andersen, TF3KX og Brynjólfs Jónssonar, TF5B.
(2) Kl. 20:30-22:00 (kaffihlé kl. 21:15). Uppbygging endurvarpsstöðva í metrabylgjusviðinu (VHF); erindi Sigurðar Harðarsonar, TF3WS.

Kaffiveitingar í boði félagsins. Félagar mætum stundvíslega!

TF2JB

Gott framboð var af 25W notuðum Ericsson UHF stöðvum (tveimur gerðum), auk tegunda s.s. Tait og Motorola.

Áhugavert framboð var af margskonar smíðakössum (sjá vinstra megin) og ýmsum íhlutum, m.a. frá RS.

Flóamarkaður Í.R.A. að hausti fór fram í dag, sunnudaginn 10. október 2010. Alls mættu yfir 30 manns á viðburðinn sem hófst stundvíslega kl. 11:00 árdegis og stóð yfir til kl. 16 síðdegis. Framboð var ágætt, m.a. notaðar UHF talstöðvar (í magni), mikið af smíðaefni, þ.e. íhlutum og vandaðir kassar til smíða, ýmis mælitæki m.a. 50 MHz sveiflusjá (HP), borðhljóðnemar (Yaesu), VHF magnarar (Motorola), loftnetsaðlögunarrásir (“manual”) og aukahlutir til notkunar í Yaesu FT-101ZD línuna, sem voru seldir á sérstöku uppboði, auk 7 banda Windom loftnets (41 meter) fyrir 80-6 metra og tvípóls fyrir WARC böndin, þ.e. 12, 17 og 30 metrana. Óhætt er að fullyrða að þeir sem gerðu viðskipti á flóamarkaðnum í dag hafi undantekningarlaust gert mjög góð kaup.

Góðir aflgjafar eru alltaf eftirsóttir. TF3UA skoðar hér einn 13.8V/10A af gerðinni Altai.

TF8SM skoðar “electrolytic” þétta. Í bakgrunni má sjá menn velta fyrir sér loftnetsaðlögunarrás.

Báðir vildu kaupa 19″ kassann. TF3SNN úrskurðaði: “Fyrstur kemur fyrstur fær” þannig að TF3SG fékk að kaupa.

Nýjung að þessu sinni var uppboð á völdum hlutum. TF3VS tók það hlutverk að sér og stóð sig frábærlega vel!
(Ljósmyndir: TF2JB).

TF2JB

Scandinavian Activity Contest 2010

SSB hluti SAC 2010 keppninnar verður haldinn um næstu helgi. SSB-keppnin er sólarhringskeppni líkt og morskeppnin og hefst kl. 12 á hádegi laugardaginn 9. október og lýkur sunnudaginn 10. október á hádegi. Líkt og áður hefur komið fram, er markmiðið að hafa sambönd við aðrar stöðvar um heiminn heldur en í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Færeyjum, Álandseyjum, Market Reef, Grænlandi, Jan Mayen og Svalbarða og Bjarnareyju. En stöðvar í þessum löndum keppa innbyrðis gegn hvor annarri. Heimasíða keppninnar er: http://www.sactest.net/

Athygli er vakin á því að lokadagur fyrir skil á keppnisdagbókum vegna morskeppninnar 18.-19. september s.l. er 19. október n.k.

TF2JB

Í.R.A. gengst fyrir hraðnámskeiði til kynningar á “Win-Test” keppnisdagbókarforritinu þriðjudaginn 12. október kl. 19:30-22:00. Námskeiðið verður haldið í fjarskiptaaðstöðu TF3IRA í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Leiðbeinandi verður Yngvi Harðarson, TF3Y.

Áhugasamir eru beðnir um að skrá sem fyrst sig þar sem takmarkaður fjöldi kemst að á hverju námskeiði.

Aths. 10. október: Námskeiðið er fullt. Ath. skráningu 26. október.

Fyrir þá sem ekki komast að n.k. þriðjudagskvöld, verður námskeiðið endurtekið tveimur vikum síðar, þ.e. þriðjudagskvöldið 26. október n.k.

Þess má geta til fróðleiks, að Sigurður R. Jakobsson, TF3CW, notaði “Win-Test” forritið í morshluta SAC keppninnar frá félagsstöð Í.R.A. þann 18.-19. september s.l. með góðum árangri. Þá notaði meirihluti leyfishafa sem unnu til verðlauna í “World Radiosport Team Championship; WRTC-2010” keppninni í Moskvu í júní s.l. “Win-Test” forritið.

TF2JB

 

 

 

 

 

 

Mánudagskvöldið 11.okt kl. 20:00 verður haldið smíðakvöld nr 2 í
félagsaðstöðu I.R.A.undir stjórn Vilhjálm Í. Sigurjónssonar, TF3VS.
Verkefni kvöldsins verður interface milli tölvu og radio
til fjarskifta á t.d PSK31, RTTY og SSTV

Skráning til þátttöku stendur ennþá yfir.

Þátttökugjald verður 4000 kr fyrir pörtum og íhlutum

p.s. þátttakendur þurfa að koma með lóðbolta og vírklippur

Ljósmyndirnar voru teknar á flóamarkaðnum á Ham Radio sýningunni í Friedrichshafen 2008. Ljósmyndir: TF2JB

Flóamarkaður að hausti verður haldinn í félagsaðstöðunni við Skeljanes næstkomandi sunnudag, 10. október . Húsið veður opnað kl. 11:00 og verður opið til kl. 16:00. Í ráði er að halda í fyrsta skipti uppboð á völdum hlutum sem hefst nákvæmlega kl. 14:30.

Undirbúningur flóamarkaðarins hefst síðdegis daginn áður (að laugardeginum) á milli kl. 16 og 18 þegar þeim hlutum sem félagið er aflögufært um verður stillt upp, en á þeim tíma geta þeir félagsmenn einnig mætt sem óska að selja/gefa hluti á flóamarkaðnum og stillt þeim upp. Fyrir þá, sem hentar það betur, er einnig í boði að stilla upp hlutum u.þ.b. klukkustund fyrir opnun á sunnudagsmorgninum (þ.e. frá kl. 10).

Í boði er margt af “girnilegu” amatördóti, s.s. stöðvar, loftnet, viðtæki, mælitæki (og aukahlutir af ýmsum gerðum) og íhlutir, s.s. stórir hverfiþéttar, stórar kælingar og fleira nytsamlegt. Félagið býður upp á kaffi og ný vínarbrauð frá Mosfellsbakaríi.

Fyrirspurnir, ábendingar o.þ.h. óskast sent á ira@ira.is.

TF2JB