Vel heppnaðir sunnudagsviðburðir 4. og 11. desember.
Tvennir vel heppnaðir viðburðir á vetrardagskrá félagsins fóru fram sunnudagana 4. og 11. desember. Þann 4. desember leiddi Sigurbjörn Þór “Doddi” Bjarnason, TF3SB, umræður um hvernig best er staðið að því að gera upp eldri tæki. Að sögn Dodda, var morguninn vel heppnaður og umræður áhugaverðar. Hann sagðist hafa tekið með sér gamalt rússneskt herviðtæki, R-326, fyrir tíðnisviðið 1-20 MHz, sem var skrúfað í sundur á staðnum og skoðað. Hann sagði að menn hafi bæði verið hissa á að sjá svo mikil gæði og snjallar útfærslur í smíði þessa næstum 60 ára gamla tækis.
Þann 11. desember leiddi Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA, umræður um fæðilínur. Að sögn Sæmundar, voru umræður mjög góðar. Meðal annars var rætt um einstakar gerðir loftneta og aðlögun þeirra við sendi á sem tapminnstan hátt. Hann sagði ljóst, að verulegur áhugi væri um þessar mundir hjá mönnum á loftnetasmíðum. Alls sóttu um 20 félagsmenn þessa viðburði.
Stjórn Í.R.A. þakkar þeim Sigurbirni Þór Bjarnasyni, TF3SB og Sæmundi E. Þorsteinssyni, TF3UA, fyrir að annast viðburðina svo og þeim Óskari Sverrissyni, TF3DC og Jóni Þóroddi Jónssyni, TF3JA, fyrir myndirnar.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!