,

Stafvarpinn TF3RPG er QRV frá Skeljanesi

APRS búnaðurinn er staðsettur á sérstöku borði í fjarskiptaherbergi TF3IRA á bak við færanlega millivegginn

APRS stafvarpinn TF3RPG er QRV á 144.800 MHz frá félagsaðstöðu Í.R.A. í Skeljanesi. Póst- og fjarskiptastofnun úthlutaði sérstöku kallmerki fyrir stöðina, TF3RPG, þann 10. júní s.l. Vinna við uppsetningu APRS stafvarpa í fjarskiptaherbergi félagsins hófst þann 2. apríl s.l. með uppsetningu nýs APRS loftnets. Í framhaldi var útbúin sérstök aðstaða vegna uppsetningar á sambyggðri stafvarpa- og internetgátt fyrir APRS kerfið þann 7. apríl. Aðstaðan er á sérstöku borði sem sett var upp á milli fjarskiptaborða A og B í stöðvarherberginu. Fyrir er annar APRS stafvarpi sem staðsettur er í Hraunbæ í Reykjavík og settur var upp í fyrrasumar (2010). Hann fékk einnig úthlutað kallmerki þann 10. júní s.l. sem er TF3RPF og verður hann rekinn áfram. Að auki, er rekin sambyggð stafavarpa- og internetgátt hjá Róbert Harry Jónssyni, TF8TTY, í Reykjanesbæ. Og að sögn Jóns Þórodds Jónssonar, TF3JA (forsvarsmanns APRS hópsins) þann 26. júní, rekur hann einnig APRS stafvarpa frá eigin QTH’i um þessar mundir í tilraunaskyni. Loks er til skoðunar að setja upp APRS stafavarpa á Akureyri í samvinnu við Þórð Ívarsson, TF5PX.

Á borðinu hægra megin við FT-1000MP stöðina, má sjá núverandi búnað fyrir APRS stafvarpann, m.a. fartölvu, aflgjafa og BIRD aflmæli. Sendi-/mótttökustöðin á 144.800 MHz er 2W handstöð og er staðsett á bak við fartölvuna. 2W handstöðin er hugsuð til bráðabirgða en til framtíðar verður sett upp 25W stöð fyrir verkefnið.

Hvað er APRS? APRS er skammstöfun sem stendur fyrir „Automatic Packet Reporting System”. Kerfið var hannað af WB4APR og hófust tilraunir hans af þessu tagi fyrir tæpum 30 árum. Upp úr 1990 hafði hann þróað kerfið til notkunar fyrir radíóamatöra og kynnti það í þeirra hópi. Síðastliðin 10 ár hafa vinsældir APRS meðal radíóamatöra vaxið um allan heim. APRS er fyrst og fremst notað sem skilaboðakerfi um staðsetningu hjá radíóamatörum, sem er ekki síst mikilvægt við gerð tilrauna. APRS kerfið gefur þar að auki möguleika á sendingu smáskilaboða á milli leyfishafa. Í raun er um að ræða kerfi, þar sem sjá má staðsetningu farartækis leyfishafa á skjá á tölvu sem tengd er við internetið þar sem skilaboðin fara í gegnum svokallaða stafvarpa (e. digipeters) sem eru nettengdir (það er þó ekki skilyrði). Niðurskipting tíðna á IARU Svæði 1 gerir ráð fyrir APRS notkun á 144.800 MHz (og „voice alert” möguleika á 136.5 Hz CTCSS). Íslenskir radíóamatörar virða þá niðurskiptingu. Þegar send eru skilaboð, eru þau örstutt (mest 5 sekúndur) og er sendingin mótuð með tveimur tónum. Fræðilega séð, getur bandvídd svipað til FM mótaðs talmerkis, enda eru notuð venjuleg FM sendi-/móttökutæki. Virk bandbreidd er þó þrengri eða innan við 3 kHz enda um að ræða frekar hæga stafræna mótun, AFSK, „ofan á” FM mótun.

Sá hópur félagsmanna, sem einkum stendur að baki APRS verkefninu, eru þeir Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA; Ársæll Óskarsson, TF3AO; Haraldur Þórðarson, TF3HP, Samúel Þór Guðjónsson, TF2SUT, Róbert Harry Jónsson, TF8TTY, Þórður Ívarsson, TF5PX og Þór Magnússon, TF3TON. Að auki hafa þeir LA6IM (TF8BK) og TF3WP (DF8WP) komið að verkefninu. Leita má til Jóns Þórodds með spurningar um APRS kerfið og hvernig menn koma sér upp slíkum búnaði.

Til að fylgjast með APRS umferð á netinu, má smella á eftirfarandi hlekk: http://aprs.fi/

Ljósmyndir: TF2JB.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

4 × three =