,

SPENNANDI OG VEL HEPPNAÐUR LAUGARDAGUR

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, mætti í Skeljanes laugardaginn 25. maí og sýndi viðstöddum hve auðvelt er að taka á móti merkjum frá nýja EsHailSat  / OSCAR 100 gervihnettinum sem mikið er rætt um á meðal radíóamatöra um þessar mundir.

Ari notaði sama 85 cm diskinn á þrífót innan við austurglugga í salnum á 1. hæð og þeir Erik höfðu notað til að hafa fyrstu samböndin um gervitunglið þann 9. maí s.l. (einnig í gegnum glugga). Móttökustyrkur var góður, og jafnvel betri heldur en frá SDR netviðtæki á heimasíðu tunglsins, sem hafður var til samanburðar. Notað var ódýrasta fáanlega viðtækið (RTL SDR) og voru menn sammála um að merki væru jafnvel skýrari heldur en á netviðtækinu.

Notað var SDR Console forritið sem er frítt fyrir radíóamatöra og getur jafnframt notast sem sendiforrit (hafi menn búnað). Ari sýndi hvernig viðmiðunarmerki er „læst“ við radíóvitann með því að nota nýtt forrit frá Símoni, HB9DRV. Hann sýndi jafnframt SDR Pluto sem er nýtt sendiviðtæki sem nær frá 60-6000 MHz, tekur allar tegundir útgeislunar (þá þarf ekki transverter).

Til gamans (í kaffihléi) var gerð tilraun á staðnum með að losa LNB‘ið frá disknum og beina því ca. að tunglinu, sem virkaði… þótt merki væru dauf. Menn sjá t.d. fyrir sér að íslenskir leyfishafar geti í framtíðinni verið með „local“ tíðni gegnum tunglið…sem er spennandi möguleiki eftir því sem fleiri verða QRV frá TF.

Dagurinn var feykilega vel heppnaður og ekki spurning að viðstaddir voru hæst ánægðir með kynninguna. Mikið var spjallað og Ari spurður spjörunum úr og svaraði hann vel. Tíminn flaug hratt og þrátt fyrir að fyrstu menn hafi mætt um kl. 13:30 yfirgáfu flestir staðinn ekki fyrr en kl. rúmlega 18.

Besti þakkir til Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A, fyrir fróðlegan, léttan og skemmtilegan laugardag. Alls mættu 12 félagar og 1 gestur í Skeljanes þennan ágæta laugardag.

Skeljanesi 25 maí. Kynning á viðtöku merkja frá nýja EsHailSat/OSCAR 100 gervihnettinum. Frá vinstri (innst): Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Gísli Gissur Ófeigsson TF3G, Mathías Hagvaag TF3MH, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Yngvi Harðarson TF3Y, Þórður Adolfsson TF3DT og Sigurður Benediktsson TF5SLN. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.
Sigurður Benediktsson TF5SLN var sérstakur gestur okkar í Skeljanesi þennan laugardag. Sigurður er búsettur á Siglufirði og sagði að það hafi verið orðið allt of langt síðan hann hafi gefið sér tíma til að koma við hjá félaginu. Aðrir á mynd: Þórður Adolfsson TF3DT, Sigurður Bendiktsson TF3SLN og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.
Sigurður Benediktsson TF5SLN skoðar búnaðinn hjá Ara, en hann hefur mestar áhyggjur af háum fjöllum heima á Siglufirði hvað varðar sambönd upp í Oscar 100 gervitunglið. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

2 × 4 =