,

SKEMMTILEGUR SUNNUDAGUR

Önnur sunnudagsopnun á vetrardagskrá ÍRA var sunnudaginn 24. nóvember. Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, mætti í Skeljanes og fjallaði um „Hvernig er að vera QRV á FT4?“

Fram kom m.a. að FT4 sem er samskiptaháttur sem hefur verið kynntur sem tilraun sem beint er sérstaklega að keppni. Hann lagði áherslu á að FT4 er ekki mótunaraðferð heldur samskiptareglur undir MFSK mótun. Sendir eru 4 tónar í tíðnihliðrunarlyklun og er heildarbandbreidd sendingarinnar 90Hz. Til samanburðar er FT8 8 tónar og heildarbandbreiddin 50Hz. Samskiptahátturinn er nauðalíkur FT8 að mörgu leyti, bæði í innri uppbyggingu og í notendaskilum:

  • Sendingarnar standa alltaf yfir í fastsettan ákveðinn tíma
  • Fyrirfram er ákveðið að miklu leyti hvað fram fer í sendingunni
  • Afar öflug villuleiðrétting á sér stað í móttökunni
  • Hver sendilota er aðeins 6 sekúndur, FT4 er því 2,5x hraðvirkara en FT8
  • FT4 er því að jafnaði á sama hraða og RTTY … en
  • FT4 getur unnið með merki sem er 10dB veikara en RTTY ræður við
  • FT4 notar bara brot af bandbreidd RTTY fyrir hverja sendingu

Þetta er hægt m.a. með síunartækni þar sem kassabylgjuformið er rúnnað af til að eyða smellum, rétt eins og í morsi (sjá meðf. mynd neðar).

Allt FT4 utanumhaldið fer fram í forritinu sem mótar/afmótar en nokkur forrit eru í boði, t.d. WSJT-X, JTDX og MSHV eru þekktust. FT4 hefur sérstakt tíðniplan, oft aðeins ofar í tíðni en FT8 en þó ekki alltaf. Í JTDX forritinum má hlaða öllu tíðniplaninu inn með einum smelli í uppsetningarhætti forritsins. Undantekning frá því getur verið þegar stórir/eftirsóttir DX leiðangrar eru virkir, þá er móttakan iðulega höfð annarsstaðar. Dæmi 1A0C sendi á venjulegu 14,080 en hlustaði á 14,090, en næstum allir á 14,090 voru þá að kalla á þá. Að lokum sýndi Vilhjálmur hvernig QSO í FT4 fara fram og notaði hann til þess Logger32 forritið með JTDX uppsettu sem undirforriti í því, en þannig loggast öll sambönd jafnóðum beint í loggforitið sem hann notar að jafnaði auk þess sem það sést jafnóðum hvaða sambönd hafa verið átt við stöðvarnar sem kalla, hver sem mótunin hefur verið fyrr.

Að lokum var farið í loftið á FT4 úr fjarskiptaherbergi TF3IRA og „runnu“ samböndin afar lipurt í gegn. Flestir viðstaddir voru á því að áhugavert væri að prófa FT4, en að sögn Vilhjálms er þó nokkur fjöldi TF-stöðva þegar virkur á FT4. Bestu þakkir til Vilhjálms fyrir skemmtilega og afar fróðlega kynningu og vel fram setta. Alls mættu 10 félagar og 1 gestur í Skeljanes þennan frostkalda sunnudagsmorgun í vetrarsól og lognblíðu í vesturbænum í Reykjavik.

Skeljanesi 24. nóvember. Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS úrskýrir FT4 samskiptamátann í fjarskiptaherbergi TF3IRA. Aðrir á mynd (frá hægri til vinstri): Óskar Sverrisson TF3DC og Þórður Adolfsson TF3DT (snúa baki í myndavél), Mathías Hagvaag TF3MH, Kristján Benediktsson TF3KB, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG og Vilhjálmur TF3VS. Þar sem viðburðurinn var “sófasunnudagur” voru málin bæði rædd á neðri hæð í leðursófasettinu – áður en farið var upp í fjarskiptaherbergi og eftir – yfir kaffi og meðlæti.
Frá vinstri: Þórður Adolfsson TF3DT, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS og Óskar Sverrisson TF3DC (næst myndavél).
Óskar Sverrisson TF3DC og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS skoða FT4 merki á skjánum. Öllum viðkomnadi bauðst að prófa að fara í loftið á FT4 með leiðsögn. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

five × 4 =