SKEMMTILEGUR SÓFASUNNUDAGUR
Yngvi Harðarson, TF3Y mætti á „sófasunnudag“ í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi 16. október. Umræðuþema var: „Keppnir og keppnisþátttaka“.
Afar áhugaverðar, fróðlegur og skemmtilegar umræður. Yngvi velti fyrir sér í upphafi og spurði menn: „Hvað eru keppnir, hvers vegna tökum við þátt í keppnum og hvernig náum við árangri?“. Og upp frá því rúllaði boltinn.
Fjallað var um undirbúning, gerð tékklista og úrvinnslu að keppni lokinni. Rætt um keppnisforrit, skilyrði og skilyrðaspár, samskiptatækni, punkta og margfaldara (sem eru mismunandi eftir keppnum) og grundvallarspurninguna, hvort er skynsamlegra að fjárfesta góðum tækjum eða góðum loftnetum? Allir voru sammála um að loftnet eru númer 1, 2 og 3.
Rætt var um um 24 klst. keppnir samanborið við 48 klst. keppnir og hvernig skynsamlegast er að nýta þátttökutímann, þ.e. gæta þess m.a. að taka hvíldir inn á milli. Rætt um mismuninn á SSB, CW og RTTY keppnum. Einnig rætt um keppnir eftir böndum, m.a. um 160 metra bandið sem hefur sérstöðu vegna þess hve það er þröngt. Einnig rætt um 40 metrana og ósamstæðar sendi-/viðtökutíðnir, m.a. gagnvart samböndum við NA á SSB.
Sérstakar þakkir til Yngva Harðarsonar, TF3Y fyrir að mæta í Skeljanes og veita okkur innsýn reynsluboltans í þennan áhugaverða þátt áhugamálsins. Þegar tíðindamaður þurfti að yfirgefa staðinn skömmu fyrir kl. 13 voru umræður enn í fullum gangi. Alls mættu 12 félagar og 1 gestur í Skeljanes þennan sólbjarta sunnudag í svölum norðangarra í vesturbænum í Reykjavík.
Stjórn ÍRA.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!