,

SKEMMTILEGT LOFTNETAKVÖLD MEÐ TF3T

Benedikt Sveinsson, TF3T mætti í Skeljanes 2. nóvember með erindið: “Loftnetakvöld fyrir stuttbylgju, áhersla á virkni mismunandi loftneta og umhverfið í kring“.

Benedikt, sem hefur verið leyfishafi í yfir 30 ár og hefur mikla reynslu af að hanna, smíða og setja upp loftnet á HF tíðnum, flutti okkur frábært erindi sem hann skipti í nokkra kafla þar sem hann fjallaði um mikilvægustu þætti sem hafa áherslu á virkni loftneta.

Hann fjallaði m.a. um ávinning loftneta; velti fyrir sér hvaðan merkin koma (undir hvaða horni); skýrði vel hve umhverfi loftneta getur haft mikil áhrif, fjallaði síðan um hæð loftnets (yfir jörð) og pólun. Allt saman eru þetta verulegir áhrifaþáttar um hve vel loftnet koma út. En Benedikt er, eins og hann sagði sjálfur keppnisradíóamatör og þess vegna er mikilvægt að hámarka alla þætti sem skipta máli í útsendingu/móttöku merkja á HF böndunum.

Hann nefndi t.d. að stefnuvirk loftnet þurfi a.m.k. að vera í ½ λ hæð yfir jörð og tók dæmi af eigin loftnetum sem hann hefur reist á Stokkseyri. Hann sýndi einnig á mjög sannfærandi hátt myndir af jarðleiðni og hve miklu máli hún getur skipt – sem og byggingar og mannvirki sem er úr leiðandi efnum í nærumhverfi loftneta. Hann sýndi okkur einnig hve pólun getur skipt miklu máli með tilliti til lágs útgeislunarhorns og sagði það sína reynslu, að t.d. borgi það sig vart að tengja meira en 30-40 radíala við stangarloftnet þar sem allt umfram það bæti tiltölulega litlu við. Hann fjallaði einnig um eigin hlustunarloftnet (e. Beverage) sem hann lýsti vel og sagði okkur frá kostum þess og göllum.

Benedikt sagði að lokum frá reynslu af þátttöku í CQ World Wide DX SSB keppninni sem fram fór helgina 28.-29. október s.l. Hann hafði alls 3.860 QSO og tæplega 3,4 millj. punkta sem er nýtt íslandsmet í flokki einmenningsstöðva á öllum böndum, háafli. Hann leyfði viðstöddum að heyra upptökur úr keppninni, auk þess sem hann tengdist búnaðinum á Stökkseyri yfir netið og veitti okkur skemmtilega innsýn í viðtöku á böndunum fyrir austan fjall.

Sérstakar þakkir til Benedikts Sveinssonar, TF3T áhugavert, fróðlegt, hnyttið og einlægt erindi í máli og myndum. Þess má geta (sem dæmi um áhuga viðstaddra) að menn slepptu kaffihléi uns erindi og afgreiðslu fyrirspurna lauk kl. 22.15. Alls mættu 22 félagsmenn og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í stilltu vetrarveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Benedikt Sveinsson TF3T hóf erindið stundvíslega kl. 20:30.
Benedikt skipti erindinu niður í sjö kafla.
Eitt af mörgum loftnetum sem Benedikt fjallaði um var HexBeam loftnetið sem er m.a. vinsælt hjá radíóamatörum hér á landi.
Benedikt fjallaði m.a. um OptiBeam OB9-5 (9 staka Yagi loftnet fyrir 20, 17, 15, 12 og 10 metra böndin). Það er loftnet sem fær frábæra umsögn á Eham (97 umsagnir; allar upp á 5 í einkunn af 5). Hann sagði okkur m.a. af virkan þess í Álfsnesi þar sem það kom hörmulega út samanborið við á Stokkseyri þar sem það kemur frábærlega vel út. Hann fjallaði einnig um Mosley CL-33M (þriggja staka Yagi lofnet á 20, 15 og 10 metrum) sem notar gildrur til styttingar og sem kom strax glettilega vel út.
Þetta er mynd af öðru af tveimur Beverage loftnetunum á Stokkseyri. Loftnetið er einvörðungu til hlustunar og er notað á lægri böndunum. Hér er sýndur einn festipunktur sem er ca. í tæplega tveggja metra hæð vegna hrossa sem ganga úti þar á svæðinu. Benedikt skýrði vel virkan loftnetsins og þegar hann var að prófa sig áfram með uppsetningu þess. Myndir: TF3JB.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

twelve + 18 =