Alþjóðadagur radíóamatöra er á fimmtudag, 18. apríl. Þann mánaðardag árið 1925 voru alþjóðasamtök landsfélaga radíóamatöra – International Amateur Radio Union, IARU – stofnuð, fyrir 94 árum. Aðildarfélög IARU voru í upphafi 25 talsins, en eru í dag starfandi í yfir 160 þjóðlöndum heims með yfir 4 milljónir leyfishafa.

IARU er skipt niður á þrjú svæði í heiminum: Svæði-1 sem nær yfir Evrópu, Afríku, Miðausturlönd og norður hluta Asíu; Svæði-2 sem þekur Norður- og Suður Ameríku og Svæði-3, sem nær yfir Ástralíu, Nýja Sjáland, Kyrrahafseyjar og stærstan hluta Asíu.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum til hamingju með alþjóðadag radíóamatöra árið 2019.

Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY, mætti í Skeljanes 11. apríl og sagði okkur ferðasögu frá DX-leiðangri til Seychelles eyja sumarið 2016. Eftir kaffihlé, fór hann yfir og kynnti reglur Páskaleikana 2019.

Keli sagðist hafa verið tiltölulega reynslulítill í DX og keppnum þegar honum var boðið að taka þátt í S79V leiðangrinum 1.-10. júlí 2016. Hann sýndi myndir og myndbönd úr ferðinni, lýsti m.a. undirbúningi og uppsetningu einsbands VDA loftneta og skýrði smíði þeirra og virkni. Hann sagði ferðina vel heppnaða og lærdómsríka, en höfð voru yfir 20 þúsund QSO. Ferðafélagar voru þeir Paul A65DR, Joel A65BX, Martin A65DC, Gerald A65CB og Obaid A61DJ.

Eftir kaffihlé var farið yfir komandi Páskaleika ÍRA. Keli fór yfir „log-viðmót“ og virkni, rifjaði upp reynslu fyrra árs leika, fór yfir tíðnisvið og reglur leikanna. Fjörlegar umræður urðu um reglurnar, samanborið við VHF leikana og 80 metra bandið og skipst á skoðunum. Reglur og leikjavefur verður sett á heimasíðu félagsins á næstu dögum til kynningar.

Erindi Kela var áhugavert og vel flutt. Hann svaraði spurningum greiðlega í líflegum umræðum. Að lokum fékk Hrafnkell verðskuldað klapp og þakkir viðstaddra. Menn ræddu málin síðan áfram allt fram undir kl. 23. Alls mættu 19 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld.

Skeljanesi 11. apríl. Hrafnkell Sigurðsson TF8KY sagði ferðasögu frá S79V DX-leiðangrinum. Aðrir á mynd frá vinstri: Bendikt Sveinsson TF3T, Wilhelm Sigurðsson TG3AWS. Með bak í myndavél: Höskuldur Elíasson TF3RF, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN og Óskar Sverrisson TF3DC. Ljósmynd: Kristján Benediktsson TF3KB.
Unnið við samsetningu loftneta fyrir utan Villa Koket, aðsetur DX-leiðangursins á Mahe eyju í Seychelles eyjaklasanum. Ljósmynd: Hrafnkell Sigurðsson TF8KY.
Hluti viðstaddra. Frá vinstri (fremst): Óskar Sverrisson TF3DC, Höskuldur Elíasson TF3RF, Einar Kjartansson TF3EK, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Benedikt Sveinsson TF3T, Þórður Adolfsson TF3DT, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Jón Björnsson TF3PW og Mathías Hagvaag TF3MH. Ljósmynd: Kristján Bendiktsson TF3KB.

Næst á vetrardagskrá ÍRA er ferðasaga Hrafnkels Sigurðssonar TF8KY frá DX-leiðangri til Seychelles eyja, sem flutt verður í Skeljanesi fimmtudaginn 11. apríl kl. 20:30.

Keli slóst í för með þeim Paul A65DR, Joel A65BX, Martin A65DC og Obaid A65DJ til Mahe eyju, sem er stærst í Seychelles eyjaklasanum í Indlandshafi, 1.-10. júlí 2016.

Hópurinn hafði alls 20.135 QSO. Fimm TF kallmerki náðu 14 samböndum við S79V á SSB, RTTY og PSK á 17, 20 og 40 metrum. Seychelles er á CQ svæði 39 og IOTA AS-024; fjarlægð frá TF er um 9500 km.

Mætum tímanlega! Veglegar kaffiveitingar.

P.s. Keli mun kynna Páskaleikana 2019 eftir frásögnina af ferðinni til Seychelles eyja.

Mynd af QSL korti DX-leiðangursins frá árinu 2016. TF8KY er lengst til hægri á myndinni.

ÍRA gekkst fyrir nýjung í félagsstarfinu í Skeljanesi í dag laugardaginn 6. apríl. Um er að ræða grunnnámskeið með Arduino örtölvur í formi sýnikennslu og verkefna fyrir byrjendur. Leiðbeinandi var Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS.

Fullbókað var á námskeiðinu, en miðað er við mest sex þátttakendur en átta voru mættir. Þegar tíðindamann bar að garði skömmu fyrir hádegið voru menn önnum kafnir líkt og sjá má á meðfylgjandi ljósmyndum.

Námskeiðið hófst kl. 10 árdegis og er miðað við að því ljúki um kl. 15 í eftirmiðdaginn. Aðspurður sagði TF3VS að athugað verði með að bjóða nýtt námskeið eftir páska.

Skeljanesi 6. apríl. Frá vinstri: Kristján Benediktsson TF3KB, Yngvi Harðarson TF3Y, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Ársæll Óskarsson TF3AO, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Mathías Hagvaag TF3MH. Bak í myndavél: Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Reynir Björnsson TF3JL og Jón Björnsson TF3PW. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.
Skeljanesi 6. apríl. Frá hægri: TF3PW, TF3RL, TF1OL, TF3MH og TF3VS. Bak í myndavél: TF3AO, TF3IG, TF3Y og TF3KB. Mynd: TF3JB.

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, mætti í Skeljanes 4. apríl með erindið „Radíótækni í árdaga“.

Hann fór yfir söguna (með dæmum) um hvernig frumherjarnir smíðuðu senda og viðtæki áður en lampar og transistorar voru fundnir upp. Upphaflegu radíótækin voru nefnilega vélræn (mekanísk) í grunninn, fremur en byggð á rafeindatækni á tímum þegar neistasendar voru alls ráðandi.

Erindið var vandað, forvitnilegt, skemmtilegt og afar vel flutt. Vilhjálmur sló á létta strengi á milli þess sem hann skýrði frá tækninni, dreifði á meðal viðstaddra tæknibókum og sýnishornum af ýmsu tagi. Rúsínan í pylsuendanum var síðan þegar hann ræsti raunverulegan neistasendi og leyfði viðstöddum að sjá neistann og síðar, að hlusta á neistann í viðtæki (sjá myndbandsbút neðst).

Það var góð mæting í Skeljanes þetta fallega síðvetrarkvöld í Reykjavík, eða alls 36 manns. Þar af voru 4 gestir. Vilhjálmur uppskar verðskuldað lófaklapp að lokum. Bestu þakkir til Vilhjálms Þórs TF3DX.

Skeljanesi 4. apríl. Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX flutti erindi um “Radíótækni í árdaga”. Ljósmynd: Kristján Bendiktsson TF3KB.
Hluti fundargesta. Frá vinstri (fremst): Elín Sigurðardóttir TF2EQ, Yngvi Harðarson TF3Y, Georg Magnússon TF2LL, Guðrún Hannesdóttir TF3GD, Þórarinn Benedikz TF3TZ, Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Ágúst Úlfar Sigurðsson TF3AU, Bjarni Sverrisson TF3GB, Ólafur Arason, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Sigurður Smári Hreinsson TF8SM, Þórður Adolfsson TF3DT, Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Sigurður Harðarson TF3WS, Kolbeinn Ingólfsson, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Bernhard M. Svavarsson TF3BS og Óskar Sverrisson TF3DC. Ljósmynd: Kristján Benediktsson TF3KB.
Hluti fundargesta. Frá vinstri (aftast): Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, Sigurður Harðarson TF3WS, Bernhald M. Svavarsson TF3BS, Kolbeinn Ingólfsson, Ágúst Úlfar Sigurðsson TF3AU, Bjarni Sverrrisson TF3GB, Ársæll Óskarsson TF3AO, Ólafur Arason, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS og Sigurður Smári Hreinsson TF8SM. Uppi í fundarsal (til hægri): Mathías Hagvaag TF3MH, Ómar Magnússon TF3WZ, tveir gestir og Jón Björnsson TF3PW. Ljósmynd: Kristján Benediktsson TF3KB.
Vinhjálmur TF3DX útskýrir m.a. að hvers vegna neistasendar hafa verið bannaðir áratugum saman. Einnig í mynd: Sigurður Harðarson TF3WS. Ljósmynd: Kristján Bendiktsson TF3KB.
Myndband sem sýnir neistann í sendinum. Mynd: Yngvi Harðarson TF3Y.

Grunnnámskeið með Arduino örtölvur verður haldið í Skeljanesi laugardaginn 6. apríl. Um er að ræða sýnikennslu og verkefni fyrir byrjendur. Leiðbeinandi er Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS. Námskeiðið hefst kl. 10:00.

Miðað er við að þátttakendur komi með eigin Arduino örtölvur (er ekki skilyrði) og vinni hagnýt verkefni sem nýtast í amatör radíói. Menn þurfa helst að hafa eigin fartölvu þótt þeir komi ekki með Arduino.

Félagsmenn eru beðnir að senda póst til félagsins á póstfangið  ira hjá ira.is  þar sem eftirfarandi kemur fram:

  • Nafn þátttakanda
  • Kemur viðkomandi með sína eigin Arduino örtölvu með sér (ekki skilyrði)
  • Hefur viðkomandi einhverja reynslu af arduino örtölvum
  • Hefur viðkomandi einhverja reynslu af forritun yfirleitt

Stjórn ÍRA hvetur félagsmenn að nýta þetta spennandi tækifæri. Vandaðar kaffiveitingar.

Mynd af Arduino Uno örtölvu.

Næsta erindi á vetrardagskrá ÍRA verður í boði fimmtudaginn 4. apríl kl. 20:30. Þá mætir Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, í Skeljanes með erindið „Radíótækni í árdaga.“

Vilhjálmur segir sjálfur: „Hvernig var hægt að smíða senda og viðtæki áður lampar og nórar (transistorar) voru fundnir upp? Segja má að upphaflegu radíótækin hafi verið vélræn (mekanísk) í grunninn, fremur en byggð á rafeindatækni. Neistasendar voru alls ráðandi, sjá mynd. Neistasendir verður ræstur, þó ekki út í loftnet! Notkun þeirra til fjarskipta var bönnuð fyrir löngu“.

Stjórn ÍRA hvetur félagsmenn til að mæta tímanlega. Veglegar kaffiveitingar.

Myndin er af neistasendi á raftæknisafninu í Frastanz, Austurríki.

Ágætu félagsmenn!

Mér er ánægja að tilkynna um útkomu 2. tölublaðs CQ TF 2019, sem nú kemur út á stafrænu formi hér á heimasíðunni.
Margir hafa lagt hönd á plóg og mörgum ber að þakka, en sér í lagi TF3VS sem annaðist umbrotsvinnu.
CQ TF er að þessu sinni 40 blaðsíður að stærð.
73 – TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Hér fyrir neðan má finna hlekk á blaðið.

http://www.ira.is/wp-content/uploads/2019/03/cqtf_33arg_2019_02tbl.pdf

Jónas Bjarnason TF3JB mætti í sófaumræður sunnudaginn 31. mars kl. 10:30 með erindið: „DX sambönd og hvernig best og fljótvirk-ast er staðið að öflun QSL korta“.

Fyrst var farið yfir nokkrar glærur í myndvarpanum, m.a. (1) hvers vegna við notum QSL kort; (2) hvar menn „ná“ DX‘inum helst; (3) mikilvægi þess að QSO sé örugglega í log; (4) hvaða aðferðum má beita til að fá QSL kort fljótt; (5) umfjöllun um eigið QSL kort; og (6) umfjöllun um að erfiðara getur verið að fá QSL kort frá sumum löndum en öðrum og fl.

Í sófasettinu var síðan rætt um hinar ýmsu aðferðir sem hægt er að beita til að ná „þeim feita“ og rætt um DX‘inn út frá QSO’um við einstaklinga, klúbbstöðvar og DX-leiðangra. Farið yfir fyrirbærin DIRECT kort, QSL MANAGER‘A, OQRS aðferð og kosti þess að gerast styrktaraðili DX-leiðangra.

Alls mættu 10 félagar og 1 gestur þennan veðurmilda sunnudagsmorgun í Skeljanes. Umræðum lauk formlega upp úr kl. 12:30 en umfjöllunarefnið var „heitt“ þannig að síðustu menn ræddu málin áfram fram undir kl. 14. TF3JB fékk að lokum gott klapp og lofaði að gera grein fyrir umfjöllunarefninu í CQ TF.

Skeljanesi 31. mars. Jónas Bjarnason TF3JB mætti í sunnudagsumræður og fjallaði um „DX sambönd og hvernig best og fljótvirkast er staðið að öflun QSL korta“. Ljósmynd: Óskar Sverrisson TF3DC.
Umfjöllunin var almennt áhugaverð og ekki síður fyrir þær sakir þegar reynslumiklir félagsmenn í DX sögðu sögur úr loftinu. Frá vinstri: Reynir Björnsson TF3RL, Jónas Bjarnason TF3JB, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Óskar Sverrisson TF3DC. Ljósmynd: Wilhelm Sigurðsson TF3AWS.

Jónas Bjarnason TF3JB mætir í sófaumræður sunnudaginn 31. mars kl. 10:30 og er yfirskriftin:

„DX sambönd og hvernig best og fljótvirkast er staðið að öflun QSL korta“.

Húsið verður opnað kl. 10 árdegis. Miðað er við að dagskrá verði tæmd á hádegi. Kaffi og kaffibrauð frá Björnsbakaríi.

Um sunnudagsopnanir.
Sunnudagsopnanir hafa verið skýrðar á þann veg að um sé að ræða fyrirkomulag menntandi umræðu á messutíma sem er hugsuð afslöppuð, þ.e. þar sem menn sitja með kaffibolla í leðursófasettinu og ræða amatör radíó. Tiltekinn leyfishafi sem hefur staðgóða þekkingu á viðkomandi umræðuefni leiðir umfjöllun og svarar spurningum.



Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, mætti í Skeljanes 28. mars og flutti erindi um endurvarpa.  

Ari hefur hefur góða þekkingu á umfjöllunarefninu og veitti okkur áhugaverða innsýn í þennan tækniheim sem gerir okkur kleift að nota VHF/UHF stöðvar til sambanda yfir langar vegalengdir innanlands.

Hann útskýrði vel hvernig samtenging endurvarpa á VHF og UHF gerir leyfishöfum kleift að hafa krossband sambönd sem eykur mjög notagildi og útbreiðslu, t.d. þegar notaðar eru handstöðvar (jafnvel) búnar mjög litlu afli. Ari kynnti þá 5 VHF endurvarpa og 2 UHF endurvarpa sem eru í rekstri. Þeir eru allir nema einn fyrir FM mótun, en einn er fyrir starræna tegund útgeislunar (D-STAR).

Eftir kaffihlé tók Erik Finskas, TF3EY (OH2LAK) við og flutti áhugavert erindi um DMR (e. Digital Mobile Radio), sem rutt hefur sér til rúms síðustu ár, en yfir 3000 DMR endurvarpar hafa þegar verið settir upp fyrir radíóamatöra í 50 þjóðlöndum.

Erindi Eriks má skoða í heild á þessari vefslóð: http://dy.fi/vof

Stjórn ÍRA þakkar þeim Ara og Erik fyrir áhugaverð erindi. Þrátt fyrir snjófjúk og vindasamt veður, mættu 27 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld.

Skeljanesi 28. mars. Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A flutti erindi um endurvarpa. Ljósmynd: TF3JB.
Erik Finskas TF3EY (OH2LAK) í Skeljanesi 28. mars. Erik fjallaði um og kynnti DMR og DMR endurvarpa. Ljósmynd: TF3KB.
Mynd tekin aftarlega úr sal. Ljósmynd: TF3JB.
Salurinn. Frá vinstri (fremst): Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Þórarinn Benediktz TF3TZ, Einar Kjartansson TF3EK, Snorri Ingimarsson TF3IK, Guðmundur Sigurðsson TF3GS, Georg Kulp TF3GZ, Jón Björnsson TF3PW, Magnús Ragnarsson TF1MT, Jón E. Guðmundsson TF8-020, Þórður Adolfsson TF3DT, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, Óskar Sverrisson TF3DC og Njáll H. Hilmarsson TF3NH. Ljósmynd: TF3JB.

Næsta erindi á vetrardagskrá ÍRA verður í boði fimmtudaginn 28. mars kl. 20:30. Þá mætir Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A í Skeljanes með erindið: „Endurvarpar“.

Ari hefur mikla reynslu af uppsetningu, viðhaldi og notkun endurvarpa. Hann hefur árum saman unnið við endurvarpa félagsins, fyrst í félagi við Sigurð Harðarson, TF3WS og síðar einsamall og með Guðmundi Sigurðssyni, TF3GS þegar Ólafur B. Ólafsson, TF3ML, keypti endurvarpa til notkunar á 2 m og 70 cm. Þá kom hann að uppsetningu radíóvita Óla á Mýrum í Borgarfirði, sem teknir voru í notkun í fyrra á 50 og 70 MHz.

Ari mun skýra hvernig endurvarpi vinnur. Hann mun t.d. svara spurningunni hvers vegna tíðniafsetning í sendingu inn á endurvarpa á 2 m er aðeins 600 Hz samanborið við 5 MHz á 70 cm.

Í dag eru 5 FM endurvarpar fyrir radíóamatöra í rekstri hérlendis á 2 m, 2 á 70 cm; annar á FM og hinn á starrænni tegund útgeislunar (D-STAR), auk 4 stafvarpa með internetgáttir og 2 radíóvita Á 50 MHz og 70 MHz. Ari mun jafnframt upplýsa um fyrirhugaða uppsetningu DMR endurvarpa á 2 m.

Stjórn ÍRA hvetur félagsmenn til að mæta tímanlega. Veglegar kaffiveitingar.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A. Myndin var tekin í fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi 5. janúar. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.