,

John Devoldere, ON4UN, á Íslandi

Í garðinum hjá TF3DX og TF3GD. Formleg afhending rits Í.R.A., Siðfræði og samskiptasiðir radíóamatöra. Frá vinstri: Vilhjálmur TF3DX; Guðrún TF3GD; John ON4UN; Jónas TF2JB; og Kristján TF3KB. Ljósmynd: TF3LMN.

John Devoldere, ON4UN, gerði góðan stans á landinu í nokkrar klukkustundir í gær (4. ágúst) á leið sinni vestur um haf. Þetta var einkaheimsókn til Vilhjálms Þórs Kjartanssonar, TF3DX og konu hans, Guðrúnar Hannesdóttur, TF3GD. Undirritaður átti þess kost að hitta John á heimili þeirra hjóna ásamt Kristjáni Benediktssyni, TF3KB. Við það tækifæri var honum formlega afhent eintak af ritinu Siðfræði og samskiptasiðir radíóamatöra sem er þýðing Vilhjálms Í. Sigurjónssonar, TF3VS, á riti þeirra John Devoldere, ON4UN og Mark Demeuleneere, ON4WW, Ethics and Operating Procedures for the Radio Amateur. Fram kom, að íslenska þýðingin, sem Í.R.A. gaf út þann 13. ágúst 2009 var annað tungumálið sem ritið var þýtt á yfir heiminn. Það hefur nú verið þýtt á alls 28 tungumál.

John, ON4UN, færði Í.R.A. nýjustu útgáfu bókar sinnar “ON4UN’s Low-Band DXing” að gjöf. Ljósm.: TF3LMN.

Við sama tækifæri færði John félaginu nýjustu útgáfu af bók sinni “ON4UN’s Low-Band DXing.” Um er að ræða 5. útgáfu bókarinnar. John áritaði bókina með eftirfarandi texta: „To all Í.R.A. members. Enjoy the book and good luck on the low bands. Iceland: 4. August 2011, John Devoldere, ON4UN”.

Vilhjálmur sýnir John áhugaverða ljósmynd úr amatörstarfinu. Ljósmynd: TF3LMN.

Vilhjálmur og John við bifreið Vilhjálms (sjá aðlögunarrásina fyrir 160m fyrir miðri framrúðu). Ljósmynd: TF3LMN.

Undirritaður óskar að þakka þeim Vilhjálmi og Guðrúnu fyrir frábærar móttökur og tækifærið að eiga þess kost að hitta
John, ON4UN, sem er goðsögn í lifanda lífi á meðal radíóamatöra. Einnig þakkir til Kristjáns, TF3KB, IARU tengiliðar félagsins sem og til og Jóns Svavarssonar, TF3LMN fyrir mjög góðar ljósmyndir.

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður Í.R.A.

Stutt kynning. John Devoldere, ON4UN, hefur verið leyfishafi í tæpa hálfa öld og mikið starfað fyrir amatörhreyfinguna, m.a. sem formaður og stjórnarmaður í eigin landsfélagi radíóamatöra í Belgíu, UBA, sem og á alþjóðlegum vettvangi, t.d. innan IARU Svæðis 1. Hann er rafmagnsverkfræðingur að mennt og hefur skrifað fjölda greina og bóka í gegnum tíðina sem snerta áhugamál radíóamatöra, einkum um loftnet, skilyrði til fjarskipta og notkun tíðnisviðanna 3.5 MHz og 1.8 MHz. Hann er jafnvígur á morsi og tali og mikill keppnismaður og margverðlaunaður sem slíkur og verið reglulegur þátttakandi í stærstu alþjóðlegum keppnum radíóamatöra í gegnum tíðina. Hann var kosinn á heiðurslista keppnismanna af CQ tímaritinu árið 1997 (e. CQ Contest Hall of Fame). John er handhafi DXCC viðurkenningarskjals nr. 1 yfir heiminn á 80 metrum og handhafi Worked All Zones Award (WAZ) viðurkenningarskjals nr. 3 yfir heiminn á 160 metrum. Miðað við síðustu uppfærslu ARRL fyrir 160 metra bandið, er hann með skráður með staðfestar 312 DXCC einingar (e. entities). Það tryggir honum bestan árangur í Evrópu og 10. bestan árangur yfir heiminn.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

20 − fourteen =