,

GÓÐIR GESTIR Í SKELJANESI 30. NÓVEMBER

Þátttakendum á yfirstandandi námskeiði ÍRA til amatörprófs bauðst að heimsækja félagsaðstöðuna í Skeljanesi laugardaginn 30. nóvember. Jón Björnsson, TF3PW, umsjónarmaður námskeiða félagsins, skipulagði daginn sem heppnaðist mjög vel.

Dagurinn hófst kl. 10 árdegis með stuttu ávarpi formanns. TF3JB lýsti aðstöðu félagsins og helstu starfsþáttum sem standa félagsmönnum til boða. Að því loknu tók varaformaður við. TF3DC fór með hópinn út í portið við austurhlið hússins og lýsti loftnetakosti TF3IRA, þ.e. 4 staka YAGI loftneti á 20M og stangarloftneti á 10, 15, 20, 40 og 80M. VHF stjóri félagsins fylgdi hópnum líka og lýsti TF1A m.a. loftnetum sem notast við gervihnattastöð TF3IRA á 2,4 og 10 GHz.

Þegar inn var komið á ný, bættu menn á sig kaffi og á meðan fjallaði QSL stjóri félagsins um kortamál. TF3MH lýsti mikilvægi kortastofunnar og kynnti samvinnu hennar við aðrar í landsfélögum radíóamatöra um heiminn. Þegar menn færðu sig upp á efri hæðina sýndi hann jafnframt aðstöðu kortastofunnar, þar sem hver leyfishafi hefur sitt eigið hólf.

Loks færðu menn sig yfir í fjarskiptaherbergi TF3IRA þar sem þeir TF3DC og TF1A tóku við á ný og var búnaður TF3IRA kynntur. TF3DC kynnti þau tvö fjarskiptaborð sem eru til afnota fyrir HF tíðnir og TF1A kynnti þriðja borðið, sem er fyrir sambönd um Es’hail/Oscar 100 gervitunglið. Skemmtilegar umræður fylgdu, enda kynntu þeir félagar marga forvitnilega og spennandi þætti fjarskiptanna og tilheyrandi búnað.

Þeir nemendur á námskeiði félagsins sem áttu heimangengt í Skeljanes þennan ágæta laugardag voru þeir Björgvin Víglundsson, Eiður Kristinn Magnússon TF3-Ø71, Gunnar Bergþór Pálsson TF3-Ø17, Sigurður Kolbeinsson TF3-Ø66 og Sveinn Aðalsteinsson.

Bestu óskir til þeirra og annarra þátttakenda á námskeiði félagsins um gott gengi í prófi Póst- og fjarskiptastofnunar til amatörleyfis sem haldið verður í desember n.k.

Stjórn ÍRA.

30. nóvember 2019. Þátttakendur á námskeiði ÍRA til amatörprófs fá kynningu á loftnetum TF3IRA. Frá vinstri: Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Björgvin Víglundsson, Eiður Kristinn Magnússon TF3-071, Gunnar Bergþór Pálsson TF3-017 og Óskar Sverrisson TF3DC. Á myndina vantar þá Sigurð Kolbeinsson TF3-066 og Svein Aðalsteinsson. Ljósmynd: TF3JB.
Kynning á fjarskiptabúnaði TF3IRA. Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Óskar Sverrisson TF3DC. Ljósmynd: TF3JB.
Ari Þórólfur Jóhannesson VHF stjóri ÍRA kynnir gervihnattastöð TF3IRA sem er fyrir sambönd um Es’hail/Oscar 100 gervitunglið. Frá vinstri: Eiður Kristinn Magnússon TF3-071, Gunnar Bergþór Pálsson TF3-017, Sveinn Aðalsteinsson, Björgvin Víglundsson, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Mathías Hagvaag QSL stjóri ÍRA. Ljósmynd: TF3DC.
Lesefni sem lá frammi (neðri röð): DXCC heildarstaða TF stöðva m.v. 17. nóvember 2019; Vetrardagskrá ÍRA október-desember 2019, Ávarpsbréf ÍRA til nýrra félagsmanna og sýnishorn félagsblaðsins CQ TF, 1. tbl. 2018. Efri röð: Þrjár greinar eftir Ara Þórólf Jóhannesson TF1A: „Endurvarpar, stafvarpar, radíóvitar“ (sérprentun úr 2. tbl. CQ TF 2019); „Spennandi: QRV um nýja gervitunglið“ (sérprentun úr 4. tbl. CQ TF 2019) og „Es’hail-2/P4A – OSCAR 100“ (sérprentun úr 3. tbl. CQ TF 2019). Ljósmynd: TF3DC.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

twenty − 12 =