,

GÓÐ MÆTING OG GÓÐAR GJAFIR

Góð mæting var í Skeljanes fimmtudaginn 16. janúar. QSL stjóri hafði flokkað kort í hólfin úr sendingum erlendis frá og félagar komu með á staðinn áhugaverðan búnað sem var til sýnis, auk þess sem félaginu voru færðar góðar gjafir.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, sýndi nýja 50W FM VHF/UHF stöð frá Vero Telecom (VGC) af gerðinni VR-N7500 með APRS. Óvanaleg stöð, því hún er „andlitslaus“ og er stýrt frá snjallsíma  (með „bluetooth“) eða Android spjaldtölvu og er forrituð þráðlaust. Hann kom líka með bílnet fyrir 160 metrana frá AM PRO og Watson Multiranger-9 bílnet, sem er fyrir 80, 40, 20, 15, 10, 6, 2M, 70CM og flugvélabandið.

Kristján Benediktsson, TF3KB, kom með eintak af nýjustu ARRL handbókinni 2020. Þetta er 97. útgáfa, en handbókin kom fyrst út árið 1926. Nýja handbókin er 1280 blaðsíður í stóru broti. Kristján sagði, að bókin væri einnig boðin í sex bóka formi sem kostar þá 10 dollurum meira, en handbókin sjálf kostar 49.95 dollara.

Félaginu bárust ennfremur tvær gjafir. Annars vegar, vandaður hægindastóll úr formuðu birkilímtré í fjaðrandi grind. Áklæði er svarbrúnt. Stóllinn kemur í góðar þarfir og var strax fundinn staður í fundarsal. Gefandi er Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A.

Þá barst félaginu upptaka á geisladiski af síðustu sendingunni sem fram fór á morsi á 500 kHz frá Gufunes radíói þann 1. febrúar 1999, þegar sendingar voru lagðar niður á þeirri tíðni. Ólafur K. Björnsson loftskeytamaður sendi skeytið, sbr. meðfylgjandi ljósmynd. Það var Sigurður Harðarson, TF3WS, sem gaf félaginu upptökuna. Hann útbjó einnig upplýsingablaðið með ljósmyndinni af Ólafi. Bestu þakkir til Ara og Sigurðar fyrir góðar gjafir.

Alls mættu 27 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld.

VHF/UHF bílstöðin frá kínverska framleiðandanum Vero Telecom (VGC) er af gerðinni VR-N7500. Hún er fyrirferðarlítil og fær góða dóma. Verðið er hagkvæmt eða um 160 dollarar á innkaupsverði.
ARRL handbókin 2020 er mikið rit (1280 blaðsíður) og henni var mikið flett í Skeljanesi á fimmtudagskvöldið.
Nýi hægindastóllinn kominn á sinn stað í salnum. Ekki amarlegt að fá sér sæti og fletta bók eða tímariti.
Mynd af gjöf Sigurðar Harðarsonar TF3WS. Minning sögulegs eðlis frá 1. febrúar 1999. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

5 × four =