,

ÁHUGAVERT ERINDI TF3AU Í SKELJANESI

Ágúst Úlfar Sigurðsson, TF3AU mætti í Skeljanes fimmtudaginn 15. febrúar með með erindið: “Collins Radio R-390A/URR; besta viðtæki allra tíma?“ Umfjöllun tók mið af Collins R-390A/URR og R-391/URR og viðtækjunum sem hann færði ÍRA að gjöf síðastliðið haust.

Fram kom, að R-390 viðtækið var hannað og upphaflega framleitt fyrir Bandaríkjaher (US Army Signal Corps) af Collins Radio Company. R-390A kom nokkrum árum síðar. Alls voru framleidd um 55 þúsund tæki frá 1951 til 1970 af Collins og fleiri verksmiðjum vestanhafs. Ágúst sagði, að verð á fyrstu eintökunum, framreiknað til verðlags í dag hafi verið um 4,5 milljónir króna. Hann telur, að trúlega séu enn í notkun eintök af viðtækinu vegna þess hve vel tækið þolir rafsegulpúlsa (kjarnorkusprengjur).

R-390A nær yfir tíðnisviðið frá 500 kHz til 32 MHz. Samfelld tíðnistilling er innan hvers heils megariðs (e. mechanical tracking) og er viðtökutíðnin sýnd með tölustöfum. Viðtaka er á AM, CW og SSB með veljanlega bandbreidd. Tækið er ætlað til innsetningar í 19“ rekka, er auðvelt í viðhaldi þar sem einingar eru útskiptanlegar. Fjöldi lampa er 23, tækið er 39 kg að þyngd og aflþörf er um 200W.

Ágúst sagði, að R-391/URR tækið hafi komist í hans eigu eftir að Marteinn Sverrisson, TF3MA dó árið 2008 en hann hafi átt R-390A/URR ca. frá árinu 1970. Faðir Matta hafi upphaflega tækin í Sölunefnd Varnarliðseigna og Matta hafi tekist vel upp við að hreinsa og stilla. Í framhaldi notaði hann 390A viðtækið um árabil til fjarskipta á amatörböndunum.

Samhliða því að Ágúst flutt erindið svaraði hann fjölmörgum fyrirspurnum enda margir viðstaddir áhugasamir um tækin. Fram kom m.a. að þessi tæki seljast á eBay í dag á allt að 1300 dollara. Sérstakar þakkir til Ágústs fyrir afar fróðlegt, áhugavert og vel flutt erindi sem veitti góða innsýn inn í sérhæfðan heim Collins viðtækja.

Erlendir gestir félagsins voru þeir Alex Senchurov, UT4EK;  Sergii Matlash, US5LB og Henning Andresen, OZ2I. Alls mættu 28 félagsmenn og 3 gestir í Skeljanes þetta vel heppnaða fimmtudagskvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

.

Ágúst byrjaði stundvíslega kl. 20:30. Á borðinu má sjá Collins R-390A/URR viðtæki.
Collins R-390A/URR viðtækið í gangi. “Mechanical tracking” aflesturinn sést vel á myndinni sbr. umfjöllun í texta.
Ágúst velti fyrir sér að lokum hvort tækið sé “Safngripur eða akkeri”. (Skýring: Akkeri = “Boat Anchor”).
Collins S-line amatörtækin þóttu á sínum tíma vera “Creme de la creme” enda glæsileg og afar vönduð smíði.
Hans Konrad Kristjánsson TF3FG og Ágúst Úlfar Sigurðsson TF3AU ræða saman eftir að erindinu var formlega lokið. Þess má geta að Hans Konrad á nokkur Collins viðtæki sömu gerðar og Ágúst fjallaði um í erindinu og þekkir þessi tæki út og inn.
Ágúst H. Bjarnason TF3OM og Jón Björnsson TF3PW.
Jónas Bjarnason TF3JB formaður ÍRA veitti formlega móttöku fána landsfélags radíóamatöra í Danmörku, EDR úr hendi Henning Andresen OZ2I. Ljósmynd: TF3PW.
Óskar Sverrisson TF3DC, Benedikt Sveinsson TF3T, Henning Andresen OZ2I og Lárus Baldursson TF3LB.
Sergii Matlash US5LB og Alex Senchurov UT4EK í fjarskiptaherbergi TF3IRA.
Þorvaldur Bjarnason TF3TB sýndi mönnum áhugaverða sjálfvirka loftnetsaðlögunarrás frá MAT (MAT-TUNER mAT-40). Aðlögunarrásin getur afgreitt allt að 120W (peak) á SSB og CW og allt að 30W á PSK og DIGI á 160-6 metrum. Miðað er við 2,5 metra loftnetsvír að lágmarkslengd fyrir HF böndin. Ljósmyndir: TF3JB og TF3PW.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

20 + 9 =