,

FRÁBÆR MORSE-LAUGARDAGUR   

Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB og Reynir Björnsson, TF3JL stóðu fyrir viðburði á vegum félagsins í Skeljanesi laugardaginn 28. nóvember þar sem félagar mættu með morslykla sína í félagsaðstöðuna.

Gott úrval var af lyklum á staðnum. Meðal annars: Lyklar frá Vibroplex (böggar og pöllur); m.a. Champion, Lightning og Presentation, M.P. Pedersen (handlyklar), K8RA pöllur, Kent (handlyklar og pöllur), E.F. Johnson (handlyklar), W.M. Nye (handlyklar og pöllur), Samson (ETM-4C rafmagnslykill), Heathkit (HD-1410 rafmagnslykill), „commercial“ handlyklar og pöllur af mörgum tegundum, m.a. frá Bretlandi, Danmörku, Frakklandi, Suður-Kóreu og Rússlandi.

Frábær dagur. Skemmtilegt var að hlusta á sögur yfir kaffinu sem voru sagðar og tengjast hinum ýmsu lyklum, m.a. hvernig og hvar þeir höfðu verið keyptir og við hvaða verði – og hvers vegna menn telja að ákveðnir lyklar hafi gæði umfram aðra. Afar áhugavert að upplifa þá miklu þekkingu sem félagarnir búa yfir og tengjast búnaði til morsfjarskipta en morsið lifir góðu lífi á meðal radíóamatöra í dag um allan heim. Sérstakar þakkir til þeirra Sigurbjörns Þórs og Reynis fyrir frábæran dag.

Alls mættu 14 félagar og 2 gestir í Skeljanes þennan sólríka laugardag í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Viðburðurinn var auglýstur kl. 14:00 en flestir voru búnir að setja upp lykla og aukahluti upp úr kl. 13:30. Frá vinstri: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Þorgrímur Baldursson TF3PC, Jón G. Guðmundsson TF3LM, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Reynir Björnsson TF3JL, Kristján Benediktsson TF3KB og Gísli G. Ófeigsson TF3G (snýr baki í myndavél).
Margar skemmtilegar sögur voru sagðar. Kristján Benediktsson TF3KB sagði okkur m.a. frá iambic rafmagnsmorslykli sem hann hannaði og smíðaði árið 1972 úr fyrstu kynslóð rökrása. Frá vinstri: Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA, Þorgrímur Baldursson TF3PC, Jón G. Guðmundsson TF3LM, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Kristján Benediktsson TF3KB, Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Gísli G. Ófeigsson TF3G og Bernhard M. Svavarsson TF3BS og Þorvaldur Bjarnason TF3TB (sem snúa baki í myndavél).
Þorgrímur Baldursson TF3PC sagði skemmtilega sögu frá því þegar hann keypti símritaralykil í Síle ásamt móttökutæki fyrir símritun. Til hægri: Jón G. Guðmundsson TF3LM sagði okkur líka skemmtilega sögu frá því þegar hann pantaði sér handlykil frá Suður-Kóreu sem hann endaði með að festa á þykka málmplötu (til að fá lykilinn stöðugan á borði). Hann sagðist líka hafa sett nýjan hnapp á lykilinn sem gerði hann mun betri.
Jónas Bjarnason TF3JB sýndi þrjá lykla. Þ.á.m. þennan vandaða handlykil sem RSGB bauð félagsmönnum til sölu í tilefni 70 ára valdatíma hennar hátignar Elísabetar II árið 2022. RSGB lét framleiða 500 númeruð eintök í tilefni viðburðarins. Eintak TF3JB er nr. 65. Lykillinn kostaði £164.45 eða 35 þús. íslenskar krónur kominn til landsins. Aðrir á mynd: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB og Gísli G. Ófeigsson TF3G.
Icom IC-7300 stöð félagsins og aflgjafi voru sótt upp í fjarskiptaherbergi til að nota sem hljóðgjafa (súmmer) til að geta prófað hina mismunandi lykla. Ofarlega á borðinu eru áletraðar morspöllur (af KBX-380 gerð) smíðaðar af  þekktum finnskum radíóamatör, Tapio Hirvioski, OH1KB. Þær voru gjöf landsfélags finnskra radíóamatöra til ÍRA í tilefni 75 ára afmælisins. Neðst á borðinu til hægri eru annars vegar vandaðar iambic pöllur frá K8RA sem Gísli G. Ófeigsson TF3G sýndi okkar. Og hinsvegar (neðst í horninu) afar áhugaverðar smápöllur (e. mineature) sem er ótrúlega gott að lykla. Þær eru búnar sterkum segli sem heldur þeim föstum.
Hans Konrad Kristjánsson TF3FG sýndi okkur tvo lykla frá Vibroflex, þ.á.m. iambic pöllur sem hann keypti í New York árið 1987. Þar fyrir neðan má sjá lyklana sem Þorgrímur Baldursson TF3PC sýndi okkur. M.a. lykilinn (sem er næst neðst) en hann keypti hann í forngripaverslun í Santiago í Síle fyrir nokkrum árum. Ljósmyndir: TF3JB og TF3KB.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

one × 4 =