FRÁBÆR LAUGARDAGUR Í SKELJANESI
Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Jón G. Guðmundsson TF3LM, mættu í Skeljanes laugardaginn 29. febrúar. Mælitæki voru sett upp í salnum til að mæla VHF og UHF stöðvar bæði fyrir amatörböndin og utan þeirra.
Þrennt var prófað: Afl sendis, næmleiki viðtækis og áberandi sterkar yfirsveiflur (frá 1mW). Allar prófanir voru gerðar í gerviálag.
Félagsmönnum var boðið að mæta á staðinn með eigin stöðvar og komu menn alls með 25 stöðvar (bílstöðvar, handstöðvar og heimastöðvar). Eftirspurn var þannig mjög góð og entist tíminn til að prófa alls 15 stöðvar.
Yfirsveiflur voru mældar upp að 1,5 GHz. Algengt var að sjá yfirsveiflur í kringum 800 MHz og lélegar Kínastöðvar, sem sendu merki fyrir neðan senditíðni (undirsveiflur). Þótt niðurstöður hafi almennt reynst góðar, sagðist Ari vilja benda á að ekki væri að vita hvernig tækin hegða sér t.d. á mismunandi bílnetum. Niðurstöður verða birtar á næstunni þegar búið verður að vinna úr niðurstöðum.
Mælitæki: Rohde & Schwarz CMU-300 Universal Radio Communication Tester (6 GHz), DBD Communications 100W gerviálag (6 GHz) og DAIWA CN-801V VHF/UHF standbylgju- og aflmælir. Aflgjafar: Diamond GSV3000 (25A), QJE PSV30SWIV (30A) og Astron SL-11A (11A).
Innan tíðar verður boðið upp á framhald mælinga í Skeljanesi til að ljúka mælingum á VHF/UHF stöðvum sem bíða, auk þess sem kallað verður eftir fleirum enda mikið um fyrirspurnir.
Stjórn ÍRA þakkar þeim Ara Þórólfi Jóhannessyni TF1A og Jóni G. Guðmundssyni TF3LM fyrir frábæran viðburð.
Alls mættu 30 félagar og 2 gestir þennan ágæta laugardag í Skeljanes, þrátt fyrir mikla snjókomu í vesturbæ Reykjavíkur.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!