,

FRÁBÆR FIMMTUDAGUR Í SKELJANESI

Ólafur Örn Ólafsson, TF1OL heimsótti okkur í Skeljanes 12. október með erindið: „Á ferð um 12 DXCC lönd í Evrópu með stöð í bíl sumarið 2023“.

Ferðalagið hófst í lok maí, þegar Ólafur og XYL ferðuðust með Norröna frá Seyðisfirði og lauk í ágúst þegar fjarskiptabifreiðin var sett í vetrargeymslu í Hollandi. Þessi lönd voru heimsótt: Austurríki, Belgía, Bretland, Danmörk, Frakkland, Holland, Ítalía, Lichtenstein, Lúxemborg, Sviss, Svíþjóð og Þýskaland. Eknir kílómetrar voru alls um 5.600.

Tæki um borð voru ICOM IC-7100 100W sendi-/móttökustöð á HF, 6M, 2M og 70cm. Að auki var Ameritron ALS 500M 500W HF magnari. Einnig ICOM 51D handstöð á 2M og 70cm. Loftnet á HF: 8 m. stangarloftnet (AC Marine) og 6 staka Yagi fyrir 50 MHz. Allt virkaði vel og Óli þurfti sjaldan að grípa til RF magnarans.

Alls voru höfð 5.292 sambönd á SSB og FT8. Þau hjón gistu samtals á 47 tjaldsvæðum í 12 löndum og var hvergi amast við 8 metra háu stangarloftnetinu á bílnum, nema á einum stað í Danmörku.

Lifandi frásögn Óla var afar áhugaverð og fróðleg. Hann kryddaði erindið með mörgum skemmtilegum sögum sem tengdust ferðalaginu. Hann benti t.d. á að skilyrðin á HF hafi alls ekki verið best hátt uppi á fjöllum, eins og t.d. í St. Bernard Pass sem er í 2.649 metra hæð. Þvert á móti hafi mun betri skilyrði verið niðri á láglendinu. Þá sagði hann okkur m.a. frá heimsókn á Ham Radio sýninguna í Friedrichshafen í Þýskalandi.

Erindið tók um klukkustund í flutningi og var farið yfir margar glærur með texta og ljósmyndum. Mikið var spurt og Óli svaraði fyrirspurnum strax og eftir erindið var áfram rætt yfir kaffinu. Sérstakar þakkir til Ólafs Arnar Ólafssonar, TF1OL fyrir vel flutt, áhugavert og fróðlegt erindi í máli og myndum.

Alls mættu 36 félagsmenn (þar af 2 gestir) í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld, þ.á.m. var Ómar Magnússon, TF3WK/OZ1OM sem er búsettur í Óðinsvéum í Danmörku.

Stjórn ÍRA.

Ólafur byrjaði erindið stundvíslega kl. 20:30.
Upplýsingar um fjarskiptabúnaðinn.
Yfirlit yfir ferðakostnað.
Fjöldi sambanda eftir löndum.
Ferðalagið sýnt í Danmörku og í Svíþjóð á korti.
Skilyrðin á HF reyndust ekki spennandi þegar komið var upp í fjöllin.
Ferðapunktarnir.
Ómar Magnússon TF3WK/OZ1OM, Andrés Þórarinsson TF1AM og Kjartan Birgisson, TF1ET. Ljósmyndir: TF3JB.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

sixteen − one =