,

Frábær árangur hjá TF3DX úr bílnum

Vilhjálmur og John við bifreið Vilhjálms (sjá aðlögunarrásina fyrir 160m fyrir miðri framrúðu). Ljósmynd: TF3LMN.

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, hefur náð þeim frábæra árangri úr bílnum að undanförnu, að hafa haft sambönd við stöðina T32C, sem er staðsett á Austur-Kiribati í norðurhluta Line eyjaklasans í Kyrrahafi, á samtals 9 böndum, þ.e. 1.8 – 3.5 – 7 – 10 – 14 – 18 – 21 – 24 og 28 MHz. Vilhjálmur sagði, aðspurður, að þetta hafi verið mjög spennandi og bætti við, “…að hefði stöðin mín haft 6 metra bandið, hefði verið mjög gaman að prófa þar líka…”. Þess má geta, að fjarlægðin á milli TF og T32 er tæplega 12 þúsund kílómetrar. Öll samböndin voru höfð á morsi.

Árangur Vilhjálms er einkar athyglisverður hvað varðar lægri böndin, þ.e. 3.5 MHz og 1.8 MHz þar sem sambönd úr farartækjum á þessum tíðnisviðum eru erfið enda bylgjulegndin 80 metrar annarsvegar og 160 metrar hinsvegar og loftnet þar af leiðandi stutt og tapsmikil. Loftnet Vilhjálms eru heimasmíðuð og hann hefur sjálfur sagt að sér reiknist til að nýtnin sé um 2,5% á 160 metrum sem er mjög góð útkoma.

Hann segir nánar um loftnetsbúnaðinn: “Ég er með 2 toppa í takinu, sá styttri er tæpir 2m og sá lengri 3,3m. Með þeim styttri sleppur spólan ein í aðlögunartækinu niður á 160 m, ekki nauðsynlegt að hafa spólu úti þó það sé betra. Með þeim lengri er loftnetið 4,75 m að lengd og nær upp í 6 m yfir götu, um 0,3 m betur ef spóla er í stönginni. Það eru smellitengi á þessu öllu, svo það tekur bara augnablik að breyta loftnetinu”. Þess má geta að lokum, að Vilhjálmur notar 100W stöð í bílnum. Sjá nánar bráðskemmtilega grein eftir hann (með ljósmyndum) um TF3DX/M sem birtist í 1. tbl. CQ TF 2010, bls. 9-11.

Stjórn Í.R.A. óskar Vilhjálmi til hamingju með árangurinn.

Vefslóð fyrir T32C DX-leiðangurinn: http://www.t32c.com/

 

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

2 × three =