,

Fjórar nýjar DXCC einingar (tvær hverfa)

“Hollensku Antilleseyjar” sem áður voru nefndar “Hollensku Vestur-Indíur” (e. Netherlands Antilles) munu mynda sjálfstætt ríki þann 10. október n.k. Frá þeim degi heyra Hollensku Antilleseyjar sögunni til. St. Maarten og Curacao verða sjálfstætt ríki í ríkjasambandi við Holland og munu njóta sömu stöðu og Aruba nýtur í dag innan Hollands (en Aruba lýsti yfir sjálfstæði frá Hollensku Antilleseyjum árið 1986). Bonaire, Saba og Sint Eustatius munu njóta stöðu sem sérgreind stjórnunareining (e. Public body) og því falla beint undir stjórn Hollands. Þessar breytingar munu hafa eftirfarandi áhrif á DXCC stöðu mála samkvæmt úrskurði viðurkenningarnefndar ARRL um DXCC þann 23. september s.l.:

Frá og með 10. október (kl. 04:00 GMT) munu PJ2/PJ4 (Leeward Islands) og PJ5/PJ6/PJ7 (Windward Islands) missa gildi sitt sem DXCC einingar. Það er því ráðlegt fyrir þá sem vantar þessi lönd (eða e.t.v. á ákveðnum böndum) að nota tímann vel fram til 10. október n.k.

Þótt óstaðfest sé þegar þetta er skrifað, má svo gott sem slá því föstu, að eftirfarandi nýjar DXCC einingar komi í stað þeirra tveggja ofannefndu, frá sama tíma. Endanleg niðurstaða DXCC viðurkenningarnefndar ARRL mun þó ekki liggja fyrir strax og e.t.v. ekki fyrr en undir áramót, enda verður ekki hægt að fá uppfærslu á DXCC stöðu vegna sambanda við nýju einingarnar fyrr en eftir 1. janúar 2011. Nýju einingarnar eru þessar:

(1) PJ2 (Curacao) mun verða ný DXCC eining.
(2) PJ4 (Bonaire) mun verða ný DXCC eining.
(3) PJ5 (St. Eustatius) og PJ6 (Saba) munu verða ný DXCC eining (vegna landfræðilegrar nálægðar).
(4) PJ7 (St. Maarten) mun verða ný DXCC eining.

Þær breytingar sem framundan eru á DXCC stöðu ofangreindra landsvæða frá 10. október n.k., hafa haft það í för með sér að fjöldi DX-leiðangra er þegar kominn á staðinn og hafa dreift sér á hinar mismunandi eyjar. Sérhver leiðangur vonast til að hafa sem flest sambönd og er reiknað er með mikilli eftirspurn. Leiðangursstjórar þeirra hafa undanfarnar vikur undirbúið niðurskiptingu á tíðnisviðum á öllum böndum frá 160 metrum upp í 10 metra (fyrir sérhvert af ofangreindum forskeytum), í því augnamiði að sem flestar stöðvar geti haft sambönd við sem flesta leiðangra. Samkomulag náðist 30. september s.l. og er það nú til kynningar hjá flestum landsfélögum radíóamatöra um heiminn. Viðmiðunarupplýsingarnar má sjá á þessum hlekk, þ.e. svokallað “10-10-10 PJ Operations Band Plan”:

http://www.dailydx.com/PJ_Band_Plan_100930a.pdf

Bestu þakkir til Þorvaldar, TF4M, fyrir góða aðstoð. 73 de TF2JB.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

4 + nineteen =