,

FJÖLMENNI Á FIMMTUDEGI Í SKELJANESI

Góð mæting var í Skeljanes fimmtudaginn 23. janúar, þrátt fyrir ekta janúarveður, snjó- og slydduél í allhvössum suðvestan vindsveipum.

TF3MH, QSL stjóri félagsins, hafði flokkað kortasendingar gærdagsins þannig að flestir fengu kort, auk þess sem áhugaverður fjarskiptabúnaður var til sýnis.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, kom með ICOM IC-SAT100. Tækið notar Iridium gervitunglin til að koma skilaboðum áleiðis um allan heim, en getur jafnframt notast sem handstöð til fjarskipta (við aðrar slíkar) á landssvæðum þar sem ekki er GSM eða önnur fjarskiptaþjónusta (sjá frásögn í 4. tbl. CQ TF 2019, bls. 40). Ari kom með aðra af stöðvum Ólafs B. Ólafssonar, TF3ML, og var talað við Óla úr Skeljanesi sem var staddur í Árnessýslu (sjá mynd).

Hann kom einnig með þrjú bílnet, AMPRO-80 fyrir 3500-3800 kHz (2,4m á hæð) og 2375T og 1675T Ham-tenna bílnet frá MFJ fyrir (3800-3900 kHz). Þau eru annars vegar 91cm og 122cm á hæð. Styttra netið er það létt að þá má nota það á segulfæti.

Loks kom Ari aftur með 50W FM VHF/UHF stöð frá Vero Telecom (VGC), VR-N7500 með APRS (fyrir þá sem ekki gátu komið síðasta fimmtudag). Óvanaleg stöð, því hún er „andlitslaus“ og er stýrt frá snjallsíma  (með „bluetooth“) eða Android spjaldtölvu og er forrituð þráðlaust. Fyrirferðarlítil, ódýr og fær góða dóma.

Skemmtilegt fimmtudagskvöld.  Alls mættu 29 félagar og 1 gestur í Skeljanes í hressilegu vetrarveðri í byrjun Þorra.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A handleikur ICOM IC-SAT100 stöðina. Aðrir: Sveinn Aðalsteinsson TF1SA og Yngvi Harðarson TF3Y.
Stutta MFJ bílnetið (á borðinu) er á segulfæti, aðeins 91cm. Næst myndavél er VHF/UHF stöðin frá Vero Telecom (VGC), VR-N7500. Fjær, ICOM IC-SAT100. Við hlið hennar sér í loftnetsspólu á keramik formi, sem má festa á milli Ham stick loftnets og festingar. Á mynd: Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Yngvi Harðarson TF3Y.
Mest spennandi þetta fimmtudagskvöld var þegar ICOM IC-SAT100 handstöðin var prófuð í gegnum iridium gervitungl. Menn fjölmenntu út að glugga í salnum (sem snýr í vestur) þar sem náðist á augnabliki glimrandi gott samband um Iridium tunglið við Ólaf B. Ólafsson TF3ML, sem var staddur í Árnessýslu. Tandurhreint merki og afar læsileg mótun. Á mynd (frá vinstri): Baldvin Þórarinsson TF3-033, Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Georg Kulp TF3GZ, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Þórður Adolfsson TF3DT sem prófaði tækið fyrstur og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A (snýr baki í myndavél).
Við stóra borðið. Frá vinstri: Einar Kjartansson TF3EK, Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Jón Björnsson TF3PW, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Mathías Hagvaag TF3MH sem skoðar tímarit (við enda borðsins).
Áhugaverðar umræður voru einnig í fjarskiptaherberginu. Wilhelm Sigurðsson TF3AWS (með bak í myndavél). Frá vinstri: Georg Kulp TF3GZ, Björgvin Víglundsson TF3BOI, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, áhugasamur gestur félagsins og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS (með bak í myndavél). Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

10 − nine =