Sælir félagar!

Takk fyrir þátttökuna og frábæra skemmtun í páskaleikunum 2019. Það fréttist af allskonar tilraunum, svaðilförum og uppátækjum…allt til að koma sem mestu í logginn.

Nú verður kerfið opið til leiðréttinga fram að næstu helgi. Lokað verður fyrir leiðréttingar á miðnætti aðfaranótt sunnudags 28. apríl.

Síðan verður verðlaunaafhending í félagsheimili ÍRA í Skeljanesi fimmtudagskvöldið 2. maí.

73, Keli TF8KY.

Ath. nýjar upplýsingar 28. apríl. Af tæknilegum ástæðum er verðlaunaafhendingu Páskaleikanna frestað um viku, eða til 9. maí n.k.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður lokuð fimmtudaginn 25. apríl sem er sumardagurinn fyrsti.

Næsti opnunardagur er fimmtudagurinn 2. maí.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegs sumars.

“Sumarið er tíminn…”: Sönglag Bubba Morthens.

Vefurinn er kominn upp og hægt að skrá sig til leiks.

Ath. breyttar stigareglur, notum reitakerfið “Maidenhead Locator System” (Grid Locators). Frekari upplýsingar á leikjasíðunni.

P.s. Nokkrir „böggar“ til staðar…ennþá er verið að vinna í verkefninu.

Vefslóð:  http://vhfleikar.ira.is/Paskar2019/

Góða skemmtun de TF8KY.

Viðbótarfréttir 19. apríl kl. 18:00
Leikjasíðan uppfærð rétt í þessu. Listi yfir tíðnir sést í reglunum. Gæti þurft hard-refresh (Ctrl+F5) í sumum vöfrum. Það þarf að vera útskráður til að sjá þetta. 73 de TF8KY.

Páskahátíðin nálgast. Næstkomandi fimmtudag, 18. apríl, er skírdagur. Félagsaðstaða ÍRA verður lokuð þann dag.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar páskahátíðar.

Jónas Bjarnason, TF3JB,
formaður.

Mathías Hagvaag, TF3MH, QSL stjóri ÍRA QSL Bureau, tilkynnti á aðalfundi félagsins í febrúar s.l. um fyrirhugaða hækkun á gjaldskrá stofunnar.

Forsendur hafa nú verið skoðaðar og hefur QSL stjóri ákveðið að kostnaður fyrir hvert QSL kort hækki frá og með deginum í dag, 15. apríl 2019, úr 9,50 í 10,00 krónur.

Hækkunin nemur 5,3%, en gjaldskrá hefur ekki breyst í rúm 7 ár eða frá 4. febrúar 2012.

Mathías Hagvaag TF3MH vinnur við flokkun QSL korta í Skeljanesi sumarið 2018. Honum til aðstoðar eru þeir Brynjólfur Jónsson TF5B og Gísli Gissur Ófeigsson TF3G. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Páskaleikarnir 2019 standa yfir í tvo sólarhringa; hefjast laugardaginn 20. apríl kl. 00:01 og lýkur, sunnudaginn 21. apríl kl. 23:59. Markmiðið er að fá menn í loftið og hafa gaman af.

Leikarnir fara fram á 2M – 4M – 6M – 70CM – 23CM og 80M. Allar tegundir útgeislunar (mótanir) eru heimilaðar. Hafa má samband hvenær sem er þessa 2 sólarhringa og við sömu stöð oftar en einu sinni, en a.m.k. 6 klst. þurfa þá að líða á milli QSO‘a til að fá punkta.

Nánari upplýsingar verða til kynningar á þessum vettvangi um leið og þær berast frá umsjónarmanni leikanna, sem leggur síðustu hönd á keppnisreglur og leikjavef þegar þetta er skrifað.


Hrafnkell Sigurðsson TF8KY flutti kynningu í Skeljanesi s.l. fimmtudag, 11. apríl, um Páskaleikana 2019. Ljósmynd: TF3DC.

Alþjóðadagur radíóamatöra er á fimmtudag, 18. apríl. Þann mánaðardag árið 1925 voru alþjóðasamtök landsfélaga radíóamatöra – International Amateur Radio Union, IARU – stofnuð, fyrir 94 árum. Aðildarfélög IARU voru í upphafi 25 talsins, en eru í dag starfandi í yfir 160 þjóðlöndum heims með yfir 4 milljónir leyfishafa.

IARU er skipt niður á þrjú svæði í heiminum: Svæði-1 sem nær yfir Evrópu, Afríku, Miðausturlönd og norður hluta Asíu; Svæði-2 sem þekur Norður- og Suður Ameríku og Svæði-3, sem nær yfir Ástralíu, Nýja Sjáland, Kyrrahafseyjar og stærstan hluta Asíu.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum til hamingju með alþjóðadag radíóamatöra árið 2019.

Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY, mætti í Skeljanes 11. apríl og sagði okkur ferðasögu frá DX-leiðangri til Seychelles eyja sumarið 2016. Eftir kaffihlé, fór hann yfir og kynnti reglur Páskaleikana 2019.

Keli sagðist hafa verið tiltölulega reynslulítill í DX og keppnum þegar honum var boðið að taka þátt í S79V leiðangrinum 1.-10. júlí 2016. Hann sýndi myndir og myndbönd úr ferðinni, lýsti m.a. undirbúningi og uppsetningu einsbands VDA loftneta og skýrði smíði þeirra og virkni. Hann sagði ferðina vel heppnaða og lærdómsríka, en höfð voru yfir 20 þúsund QSO. Ferðafélagar voru þeir Paul A65DR, Joel A65BX, Martin A65DC, Gerald A65CB og Obaid A61DJ.

Eftir kaffihlé var farið yfir komandi Páskaleika ÍRA. Keli fór yfir „log-viðmót“ og virkni, rifjaði upp reynslu fyrra árs leika, fór yfir tíðnisvið og reglur leikanna. Fjörlegar umræður urðu um reglurnar, samanborið við VHF leikana og 80 metra bandið og skipst á skoðunum. Reglur og leikjavefur verður sett á heimasíðu félagsins á næstu dögum til kynningar.

Erindi Kela var áhugavert og vel flutt. Hann svaraði spurningum greiðlega í líflegum umræðum. Að lokum fékk Hrafnkell verðskuldað klapp og þakkir viðstaddra. Menn ræddu málin síðan áfram allt fram undir kl. 23. Alls mættu 19 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld.

Skeljanesi 11. apríl. Hrafnkell Sigurðsson TF8KY sagði ferðasögu frá S79V DX-leiðangrinum. Aðrir á mynd frá vinstri: Bendikt Sveinsson TF3T, Wilhelm Sigurðsson TG3AWS. Með bak í myndavél: Höskuldur Elíasson TF3RF, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN og Óskar Sverrisson TF3DC. Ljósmynd: Kristján Benediktsson TF3KB.
Unnið við samsetningu loftneta fyrir utan Villa Koket, aðsetur DX-leiðangursins á Mahe eyju í Seychelles eyjaklasanum. Ljósmynd: Hrafnkell Sigurðsson TF8KY.
Hluti viðstaddra. Frá vinstri (fremst): Óskar Sverrisson TF3DC, Höskuldur Elíasson TF3RF, Einar Kjartansson TF3EK, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Benedikt Sveinsson TF3T, Þórður Adolfsson TF3DT, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Jón Björnsson TF3PW og Mathías Hagvaag TF3MH. Ljósmynd: Kristján Bendiktsson TF3KB.

Næst á vetrardagskrá ÍRA er ferðasaga Hrafnkels Sigurðssonar TF8KY frá DX-leiðangri til Seychelles eyja, sem flutt verður í Skeljanesi fimmtudaginn 11. apríl kl. 20:30.

Keli slóst í för með þeim Paul A65DR, Joel A65BX, Martin A65DC og Obaid A65DJ til Mahe eyju, sem er stærst í Seychelles eyjaklasanum í Indlandshafi, 1.-10. júlí 2016.

Hópurinn hafði alls 20.135 QSO. Fimm TF kallmerki náðu 14 samböndum við S79V á SSB, RTTY og PSK á 17, 20 og 40 metrum. Seychelles er á CQ svæði 39 og IOTA AS-024; fjarlægð frá TF er um 9500 km.

Mætum tímanlega! Veglegar kaffiveitingar.

P.s. Keli mun kynna Páskaleikana 2019 eftir frásögnina af ferðinni til Seychelles eyja.

Mynd af QSL korti DX-leiðangursins frá árinu 2016. TF8KY er lengst til hægri á myndinni.

ÍRA gekkst fyrir nýjung í félagsstarfinu í Skeljanesi í dag laugardaginn 6. apríl. Um er að ræða grunnnámskeið með Arduino örtölvur í formi sýnikennslu og verkefna fyrir byrjendur. Leiðbeinandi var Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS.

Fullbókað var á námskeiðinu, en miðað er við mest sex þátttakendur en átta voru mættir. Þegar tíðindamann bar að garði skömmu fyrir hádegið voru menn önnum kafnir líkt og sjá má á meðfylgjandi ljósmyndum.

Námskeiðið hófst kl. 10 árdegis og er miðað við að því ljúki um kl. 15 í eftirmiðdaginn. Aðspurður sagði TF3VS að athugað verði með að bjóða nýtt námskeið eftir páska.

Skeljanesi 6. apríl. Frá vinstri: Kristján Benediktsson TF3KB, Yngvi Harðarson TF3Y, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Ársæll Óskarsson TF3AO, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Mathías Hagvaag TF3MH. Bak í myndavél: Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Reynir Björnsson TF3JL og Jón Björnsson TF3PW. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.
Skeljanesi 6. apríl. Frá hægri: TF3PW, TF3RL, TF1OL, TF3MH og TF3VS. Bak í myndavél: TF3AO, TF3IG, TF3Y og TF3KB. Mynd: TF3JB.