Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra farsældar á nýju ári.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra farsældar á nýju ári.

Georg Kulp, TF3GZ og Karl Georg Karlsson, TF3CZ fóru í Bláfjöll í dag (30. desember) og framkvæmdu bráðabirgðaviðgerð á KiwiSDR viðtækinu og búnaði á fjallinu. Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A veitti ráðgjöf.
Búið er m.a. að endurnýja aflgjafa og lagfæra loftnetið. Ari telur líklegt að elding hafi skemmt hluta búnaðarins, en ísing hafi slitið LW loftnetið.
Þakkir til þeirra félaga TF1A, TF3GZ og TF2CZ fyrir dugnaðinn og frábært vinnuframlag.
Stjórn ÍRA.


YOTA keppnin (3rd Round) fór fram 30. desember. Elín Sigurðardóttir, TF2EQ virkjaði TF3YOTA í keppninni frá félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Hún hafði rúmlega 200 sambönd.
Þetta var þriðja og og síðasta YOTA keppni ársins. Sú fyrsta fór fram 22. maí, önnur 18. júlí og nú 30. desember.
Elín setti TF3YOTA einnig í loftið um gervitunglið QO-100 á gamlársdag (sbr. meðfylgjandi ljósmynd) og hafði rúmlega 80 sambönd.
Allt í allt hafði hún tæplega 800 sambönd frá TF3YOTA í mánuðinum.
Stjórn ÍRA.

Kallmerkið TF3YOTA var virkjað í dag, sunnudaginn 26. desember.
Elín Sigurðardóttir, TF2EQ ungmennafulltrúi ÍRA, setti stöðina í loftið frá Skeljanesi á hádegi. Hún byrjaði á 14 MHz SSB. Hugmyndin er síðan þegar skilyrði breytast, að vera QRV um QO-100 gervitunglið.
YOTA verkefnið „Youngsters on the air“ er sameiginlegt verkefni landsfélaga radíóamatöra innan IARU og er viðburðurinn rekinn í desembermánuði ár hvert. Verkefnið hófst árið 2018.
ÍRA hefur tekið þátt frá upphafi. Það eru þau Elín Sigurðardóttir, TF2EQ ungmennafulltrúi félagsins og YOTA verkefnisstjóri og Árni Freyr Rúnarsson, TF8RN, aðstoðarverkefnisstjóri YOTA sem hafa annast starfræksluna.
TF3YOTA verður starfrækt næstu daga, m.a. í YOTA Contest þann 30. desember n.k.
Stjórn ÍRA.


Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári 2022.
Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður næst opin fimmtudaginn 6. janúar n.k. (ef aðstæður leyfa).
Stjórn ÍRA.

75 ára afmæli félagsins Íslenskir radíóamatörar, ÍRA.
Afmælisgjöf frá Suomen Radioamatööriliitto (SRAL).
Erik Finskas, OH2LAK (TF3EY) færði Jónasi Bjarnasyni, TF3JB formanni ÍRA gjöf frá systurfélagi okkar í Finnlandi SRAL í tilefni 75 ára afmælis félagsins. Gjöfinni var veitt viðtaka í Skeljanesi 16. desember.
Gjöfin er áletraðar morspöllur (af KBX-380 gerð) smíðaðar af þekktum finnskum radíóamatör, Tapio Hirvioski, OH1KB. Gjöfinni fylgdi bréf frá Markku Tuhkanen, OH4UI framkvæmdastjóra SRAL með eftirfarandi texta:
Innilegar hamingjuóskir á 75 ára afmæli Íslenskra radíóamatöra!
Fyrir hönd allra finnskra radíóamatöra viljum við óska kærum félögum okkar á Íslandi til hamingju.
Íslendingar eiga sér sérstakan stað í huga Finna og þegar við hittumst finnum við strax tengingu. Hugrekki, sjálfstæði og kannski smá þrjóska ásamt góðu skopskyni, eru eiginleikar sem sameina okkur.
Þar sem heimsfaraldur hindrar nú að við getum fagnað stórum áföngum saman, getum við aðeins vonast til að hittast fljótlega til að fagna saman í stærri hóp.
Megi Erik Finskas OH2LAK/TF3EY vera góður fulltrúi Finnskra radíóamatöra á Íslandi.
Við óskum öllum íslenskum félögum okkar alls hins besta, fjölda sambanda og góðra fjarskiptaskilyrða.
Jónas þakkaði Erik fyrir hlýlegar kveðjur og sagðist taka við gjöfinni fyrir hönd félagsins með ánægju og þakkaði góðan hug frá félögum okkar í Finnlandi til félagsmanna ÍRA.
Stjórn ÍRA.



Kallmerki með viðskeytið „YOTA“ eru áberandi á HF böndunum um þessar mundir.
YOTA verkefnið „Youngsters on the air“ er sameiginlegt verkefni landsfélaga radíóamatöra innan IARU Svæðis 1 og er viðburðurinn rekinn í desembermánuði ár hvert. Verkefnið hófst árið 2018.
ÍRA hefur tekið þátt frá upphafi. Það eru þau Elín Sigurðardóttir, TF2EQ ungmennafulltrúi félagsins og YOTA verkefnisstjóri og Árni Freyr Rúnarsson, TF8RN, aðstoðarverkefnisstjóri YOTA sem hafa annast starfræksluna.
Þau Elín og Árni Freyr áforma að setja TF3YOTA í loftið frá Skeljanesi eftir 22. desember n.k.
Stjórn ÍRA.

Síðasta opnun ársins í Skeljanesi verður fimmtudaginn 16. desember kl. 20-22. Sérstakur gestur félagsins: Erik Finskas, TF3EY/OH2LAK. Félagsaðstaðan verður næst opin 7. janúar 2022.
Grímuskylda er í húsnæðinu og kaffiveitingar verða ekki í boði. Fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL herbergi verða opin, en fjöldi félaga er takmarkaður.
Þessar kröfur eru gerðar í ljósi hertra opinberra sóttvarnaráðstafana sem gilda til 21. desember n.k. vegna kórónafaraldursins.
Vegna þessara aðstæðna er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.
Verið velkomin í Skeljanes!
Stjórn ÍRA.

6. tbl. HBradio, félagsblað landfélags radíóamatöra í Sviss, barst til ÍRA í vikunni og lá frammi í félagsaðstöðunni fimmtudaginn 9. desember (en HBradio berst nú reglulega til félagsins).
Á bls. 46-49 er skemmtileg frásögn Ralf Doerendahl, HB9GKR af ferð til Íslands í sumar (2021). Ralf var hér á landi í 9. skiptið í september og heimsótti m.a. félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi ásamt Yngva Harðarsyni, TF3Y en þeir hafa m.a. virkjað saman fjallatinda í SOTA verkefninu (e. Summits On The Air).
USKA gefur út 6 tölublöð á ári og er hvert blað 50-80 bls. að stærð. Það veitir áhugaverða innsýn í viðamikið og vandað starf Svissneskra radíóamatöra. Greinar í blaðinu eru [mest] á þýsku, frönsku og ítölsku; en móðurmál meirihluta Svisslendinga er þýska.
Þakkir til Ralf, HB9GKR fyrir skemmtilega grein.
Stjórn ÍRA.


Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 9. desember frá kl. 20:00.
Grímuskylda er í húsnæðinu og kaffiveitingar verða ekki í boði. Fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL herbergi verða opin, en fjöldi félaga er takmarkaður.
Þessar kröfur eru gerðar í ljósi gildandi reglugerðar heilbrigðisráðherra um hertar opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna Covod-19 – sem nú hefur verið framlengd til 21. desember n.k. vegna kórónafaraldursins.
Vegna þessara aðstæðna er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.
Verið velkomin í Skeljanes!
Stjórn ÍRA.
