,

ARNGRÍMUR TF5AD FÓR Á KOSTUM

Arngrímur Jóhannsson, TF5AD var sérstakur gestur ÍRA í Skeljanesi 18. ágúst. Hann sagði frá flutningi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og hans á sinfóníunni SOS eftir Jón Hlöðver Áskelsson sem fram fór í menningarhúsinu Hofi á Akureyri í febrúar s.l.

Hann sýndi okkur mynd frá viðburðinum. Afar áhrifamikið var að sjá og heyra flutning verksins og hóflega háa tóna morsmerkjanna hljóma í bakgrunni – og í innskotsmynd – sást Arngrímur senda  morsið og neðst birtust stafirnir á „rúllandi“ textaskrá.

Arngrímur sagðist vilja þakka þeim Sigurði Harðarsyni, TF3WS sem var honum til aðstoðar og lánaði m.a. M.P. Pedersen handmorslykilinn. Einnig, Hrafnkeli Sigurðssyni, TF8KY sem smíðaði tækið sem þýðir merkin frá morslyklinum og sendir áfram til birtingar. Arngrímur gat þess, að hann hafi í hyggju að færa ÍRA eintak af heimildarmynd frá tónleikunum sem er í vinnslu.

Arngrímur byrjaði þó erindi sitt mun framar í tíma, eða upp úr árinu 1961 þegar hann gekkst undir próf til amatörleyfis og sagði að sér væri sérstaklega minnisstætt smíðaprófið sem Ríkharður Sumarliðason, TF3RS annaðist á Sölvhólsgötunni fyrir hönd Landssímans. Hann sagði að amatörprófið hafi verið góður undirbúningur undir loftskeytaprófið sem hann tók árið 1968.

Hann sagði okkur einnig fá öðru áhugamáli sínu, sem er flugið. Hann tók flugmannspróf árið 1966 og sýndi okkur m.a. stutta mynd af flugi á svifflugvél sinni. Að lokum fengu viðstaddir að spreyta sig á að senda merki á morsi frá handlyklinum gegnum “morsvélina” frá TF8KY og birtust stafirnir samtímis á tjaldinu.

Sérstakir þakkir til Arngríms fyrir að heimsækja okkur í Skeljanes. Erindið var mjög áhugavert, vel flutt og veitti góða innsýn í umfjöllunarefnið. Hann er hress og spaugsamur og segir afar skemmtilega frá. Það kunnu menn vel að meta og var lengi klappað þegar hann lauk máli sínu. Alls mættu 27 félagar í Skeljanes þetta milda síðsumarkvöld í vesturbænum í Reykjavík. Þakkir til TF3KB og TF3JON fyrir ljósmyndir.

Stjórn ÍRA.

Arngrímur Jóhannsson TF5AD skýrði frá undirbúning flutnings Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og hans á sinfóníunni SOS eftir Jón Hlöðver Áskelsson sem fram fór í menningarhúsinu Hofi á Akureyri í febrúar s.l.
Arngrímur skýrði frá tækinu sem Hrafnkell Sigurðsson TF8KY smíðaði og þýddi morsmerkin sem hann sendi frá Pedersen handlyklinum og birtust á “rúllandi” textaskrá á tónleikunum.
Arngrímur sagði m.a. frá því þegar hann tók próf til amatörleyfis árið 1961 og nefndi til aðra leyfishafa á þeim tíma sem margir könnuðust við.
Þegar menn færðu sig upp á næstu hæð var komið við í herbergi TF ÍRA QSL stofunnar og kynnti Mathías Hagvaag TF3MH QSL stjóri fyrir honum starfsemina. Arngrímur sagðist hlakka til að fá skráð hólf hjá Mathíasi með sínu kallmerki, þar sem hann hafi nýlega fest kaup á ICOM IC-7300 stöð og væri við að komast í loftið.
TF5AD í fjarskiptaherbergi TF3IRA. Arngrímur var mjög hrifinn af aðstöðunni og hafði hug á að “taka í lykil” á 20 metrunum – en eins og sjá má á skjánum (hægra megin á myndinni) voru ekki mörg merki á bandinu enda K-gildið um 5. Hann ætlar því að taka nokkur sambönd frá félagsstöðinni næst þegar hann kemur í heimsókn til borgarinnar.
Mynd úr fjarskiptaherbergi TF3IRA. Frá vinstri: Sigurður Harðarson TF3WS, Arngrímur Jóhannsson TF5AD, Jónas Bjarnason TF3JB og Hrafnkell Sigurðsson TF8KY. Ljósmyndir nr. 1,2,4,5 og 6: Jón Svavarsson TF3JON. Ljósmynd nr. 3: Kristján Benediktsson TF3KB.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

fifteen − one =