Opið var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi í dag, laugardag 7. október.

Benedikt Sveinsson, TF3T og Guðmundur Sveinsson, TF3SG mættu í Skeljanes kl. 14:00 og sýndu félagsmönnum  Elecraft K4D sendi-/móttökustöð sína. Stöðin var keypt til landsins skömmu fyrir CQ WW morskeppnina í fyrra (2022) og er því innan við ársgömul.

K4D stöðin var sett upp á stóra borðinu í fundarsalnum með stórum Dell borðskjá (snertiskjá) og tengd við OptiBeam OB4-20OWA Yagi loftnet TF3IRA. Benedikt kveikti síðan á tækinu og fjallaði um og sýndi viðstöddum hvernig nota má stöð í þessum gæðaflokki, sem er af svokallaðri „Direct Sampling SDR“ gerð.

K4D er búin stórum 7“ snertiskjá í lit. Allar stillingar eru einfaldar og þótt margir takkar hafi fleiri en eitt hlutverk er staðsetning þeirra hugsuð með tilliti til notkunartíðni sem er til þæginda, bæði dagsdaglega og sérstaklega í keppnum.

Fram kom m.a. að K4D er búin tveimur aðskildum viðtækjum og svokölluðu „Diversity Module“ sem gerir mögulegt að hlusta á tvö merki samtímis. Elecraft, FlexRadio og Apache Labs eru einu framleiðendurnir sem bjóða stöðvar með hreinan aðskilnað á milli tveggja viðtækja, sem tryggir besta mögulega hlustun á veikum DX merkjum.

Tækið er að öllu leyti afar glæsilegt og er í flokki með bestu stöðvum sem er boði eru á markaði fyrir radíóamatöra. K4D kostar um 1 milljóna króna komin til landsins í dag. Upplýsingar: https://ftp.elecraft.com/K4/K4%20Brochure.pdf

Elecraft býður þrjár gerðir af K4 sendi-/móttökustöðvum:

Gerð K4/10-F sem er 10W sendi-/móttökustöð á $4.389.95
Gerð K4-F sem er 100W sendi-/móttökustöð á $4.789.95
Gerð K4D-F sem er 100W sendi-/móttökustöð á $5.789.95

Sérstakar þakkir til Benedikts Sveinssonar, TF3T og Guðmundar Sveinssonar, TF3SG fyrir að koma með tækið í Skeljanes.

Stjórn ÍRA.

.

Benedikt Sveinsson TF3T fjallaði um og sýndi félagsmönnum Elecraft K4D stöð í Skeljanesi 7. október.
Benedikt flutt greinargóðan inngang áður en hann sýndi og útskýrði K4D stöðina fyrir viðstöddum. Myndir: TF3JB.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður opin á morgun, laugardag 7. október frá kl. 13:30.

Dagskráin hefst kl. 14:00 og mun Benedikt Sveinsson, TF3T mæta á staðinn og kynna Elecraft K4 sendi-/móttökustöð, sem þeir bræður Guðmundur Sveinsson, TF3SG keyptu til landsins í nóvember í fyrra (2022).

Eftir því sem best er vitað er þetta eina eintakið á landinu. K4 og K4D stöðvarnar eru nýjustu afurðir Elecraft í HF stöðvum, en K4 línan var frumsýnd á Dayton Hamvention sýningunni árið 2019 og er verðugur arftaki K3 og K3S stöðvanna.

Í K4 línunni notar Elecraft m.a. CSSB (e. Extended Single Sideband) tæknina (valkvætt) sem þekkist einnig í stöðvum frá FlexRadio. Elecraft fyrirhugar að bjóða 2 metrana og 4 metrana sem aukabúnað í K4 línuna síðar. Búist er við, að flaggskipið K4HD komi í sölu seint á þessu ári eða því næsta.

Félagsmenn eru hvattir til að láta þetta tækifæri ekki framhjá sér fara. Veglegar kaffiveitingar.

Stjórn ÍRA.

Elecraft K4 sendi-/mótttökustöðin er glæisleg.
Mynd af TF3SG við nýju Elecraft K4 stöðina skömmu fyrir CQ WW CW keppnina í fyrra (2022). Ljosmynd: TF3T.

Fyrsta opnunarkvöld félagsins samkvæmt nýrri fræðsludagskrá var 5. október og setti Jónas Bjarnason, TF3JB formaður ÍRA viðburðinn kl. 20:30.

Andrés Þórarinsson, TF1AM varaformaður ÍRA annaðist afhendingu verðlauna í VHF/UHF leikunum 2023 í fjarveru Hrafnkels Sigurðssonar, TF8KY umsjónarmanns og Einar Kjartansson, TF3EK umsjónarmaður annaðist afhendingu verðlauna í TF útileikunum 2023.

Sérstakur gestur félagsins var Íris Lilliendahl, sem færði okkur kaffibrauð og kökur í tilefni þess að eiginmaður hennar, Carl J. Lilliendahl [og félagsmaður ÍRA] hefði orðið 77 ára þennan dag, en hann lést fyrir tæpum þremur árum. Þakkir til Írisar.

Erlendir gestir félagsins voru Greg Zier, KA9VDU og XYL Brenda sem eru búsett í Mcfarland í Wisconsin í Bandaríkjunum. Þetta var í annað skiptið sem þau mættu í Skeljanes, en í millitíðinni höfðu þau farið hringveginn og  voru yfir sig hrifin af af náttúru landsins.

Vel heppnað og skemmtilegt fimmtudagskvöld í Skeljanesi. Þakkir til Andrésar og Einars fyrir afbragðsgóð inngangserindi og hamingjuóskir til félagsmanna sem voru viðstaddir til að taka á móti verðlaunum og viðurkenningum fyrir þessa fjarskiptaviðburði félagsins.

Alls voru 33 í húsi (þar af 3 gestir) í Skeljanesi þetta ágæta haustkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Andrés Þórarinsson TF1AM tekur við 1. verðlaunum í VHF/UHF leikum ÍRA 2023 úr hendi Jóns Björnssonar TF3PW gjaldkera ÍRA.
Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN tekur við viðurkenningarskjali fyrir 1. sætið í fjölda QSO’a í VHF/UHF leikunum 2023. Óðinn Þór hlaut jafnframt verðlaunagrip fyrir 2. sætið í VHF/UHF leikunum og viðurkenningarskjal fyrir 3. sætið í TF útileikum ársins.
Sigmundur Karlsson TF3VE tekur við viðurkenningarskjali fyrir 2. sætið í fjölda QSO’a í VHF/UHF leikunum 2023.
Eiður Kristinn Magnússon TF1EM tekur við viðurkenningarskjali fyrir 3. sætið í fjölda QSO’a í VHF/UHF leikunum 2023.
Einar Kjartansson TF3EK tekur við viðurkenningarskjali fyrir 2. sætið í TF útileikunum 2023.
Einar Kjartansson TF3EK bregður upp tveimur viðurkenningum Hrafnkels Sigurðssonar TF8KY. Annars vegar er vandaður verðlaunaplatti, grafinn á málmplötu á viðargrunni fyrir bestan árangur og skrautritað viðurkenningarskjal fyrir 1. sætið í TF útileikum ársins. Hrafnkell fékk líka verðlaunagripinn sem sést á borðinu til hægri fyrir 3. sætið í VHF/UHF leikunum 2023.
Sérstakur gestur ÍRA 5. október var Íris Lilliendahl, ekkja Carl J. Lilliendahl TF3KJ. Hún færði félagsmönnum vandað kaffibrauð og kökur í tilefni að Carl hefði orðið 77 ára þennan dag, en hann lést fyrir tæpum þremur árum. Frá vinstri: Erling Guðnason TF3E, Íris Lilliendahl, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Þorvaldur Bjarnason TF3TB og Einar Kjartansson TF3EK.
Hluti viðstaddra í félagsaðstöðunni sem náðust á ljósmynd. Sitjandi frá vinstri: Guðmundur Birgir Pálsson TF3AK, Gísli Guðnason, Brenda Zier XYL KA9VDU, Greg Zier KA9VDU, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Sigmundur Karlsson TF3VE, Jón Björnsson TF3PW og Einar Kjartansson TF3EK. Standandi til hægri: Eiður Kristinn Magnússon TF1EM og Andrés Þórarinsson TF1AM.
Mynd af radíódóti sem Sigurður Harðarson TF3WS færði félaginu 5. október. Ljósmyndir: TF3JB.

TRX DX keppnin 2023 hefst á laugardag 7. október kl. 06:00 og lýkur á sunnudag 8. október kl. 18:00. Keppnin fer fram á morsi og tali á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð TF stöðva: RS(T) + raðnúmer.
https://trcdx.org/img/TRCDXC_rules_eng_2021.pdf

Oceania DX keppnin 2023 hefst á laugardag 7. október kl. 07:00 og lýkur á sunnudag 8. október kl. 07:00. Keppnin fer fram á tali á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð TF stöðva: RS + raðnúmer.
https://www.oceaniadxcontest.com/

Russian WW Digital keppnin 2023 hefst á laugardag 7. október kl. 12:00 og lýkur á sunnudag 8. Október kl. 11:59. Keppnin fer fram á BPSK63 og RTTY á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð TF stöðva: RST (Q) + raðnúmer.
https://www.rdrclub.ru/rdrc-news/russian-ww-digital-contest/51-rus-ww-digi-rules

UBA ON keppnin 2023 stendur yfir á laugardag 7. október frá kl. 06:00-09:00. Keppnin fer fram á morsi á 80 metrum.
Skilaboð TF stöðva: RST + raðnúmer.
https://www.uba.be/en/hf/contest-rules/contest

Með ósk um gott gengi.

Stjórn ÍRA.

.

Skemmtileg mynd frá þátttöku TF3IRA í BARTG RTTY keppninni 1976 í fleirmenningsflokki. QTH var félagsaðstaða ÍRA við Vesturgötu. Þátttakendur: Kristinn Andersen TF3KX, Jónas Bjarnason TF3JB, Kristján Benediktsson TF3KB og Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA. TF3JB og TF3UA sitja við Teletype Model 15 og 19 vélar. Félagið var þá nýbúið að fá Teletype 19 vél með strimilgatara og lesara. Fyrir keppnina var sett upp nýtt LW loftnet fyrir sambönd til Evrópu en annað (eldra) LW net var notað fyrir sambönd til Norður-Ameríku. Í keppninni var m.a. haft fyrsta sambandið frá TF3IRA á RTTY á 80 metrum. Ljósmynd: TF3KM. Þakkir til TF3KB fyrir myndina.

Fyrsta opnunarkvöld félagsins samkvæmt nýrri fræðsludagskrá ÍRA að hausti hefst fimmtudaginn 5. október og verður félagsaðstaðan í Skeljanesi fyrir félagsmenn og gesti frá kl. 20:00 til kl. 22:00.

Dagskrá verður sett kl. 20:30 og verða verðlaunagripir og viðurkenningarskjöl afhent til þeirra félagsmanna sem náðu bestum árangri í VHF/UHF leikunum 2023 og TF útileikunum 2023. Þeir eru:

VHF/UHF leikar, verðlaunagripir:

1. Andrés Þórarinsson, TF1AM – 185.380 heildarstig.
2. Óðinn Þór Hallgrímsson, TF2MSN – 77.880 heildarstig.
3. Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY –  49.856 heildarstig.

VHF/UHF leikar, viðurkenningarskjöl fyrir flest sambönd:

1. Óðinn Þór Hallgrímsson, TF2MSN – 215 QSO.
2. Sigmundur Karlsson, TF3VE, TF8KY – 181 QSO.
3. Eiður Kristinn Magnússon, TF1EM – 158 QSO.

TF útileikar, verðlaunagripur:

1. Hrafnkell Sigurðsson – 1.386 heildarstig.

TF útileikar, viðurkenningarskjöl:

1. Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY – 1.386 heildarstig.
2. Einar Kjartansson, TF3EK – 1.030 heildarstig.
3. Óðinn Þór Hallgrímsson, TF2MSN – 987 heildarstig.
4. Pier Albert Kaspersma, TF3PKN – 968 heildarstig.
5. Eiður Kristinn Magnússon, TF1EM – 546 heildarstig.

Veglegar kaffiveitingar.

Hamingjuóskir til viðkomandi!

Stjórn ÍRA.

Aðstaðan á Bjargtöngum, vestasta tanga Íslands og ysta odda Látrabjargs (fyrir 3. október 2023). Ljósmynd: TF3GZ.

KiwiSDR viðtæki Árna Helgasonar, TF4AH og Georgs Kulp, TF3GZ yfir netið á Bjargtöngum voru tekin niður í morgun, 3. október þegar rekstraraðili loftnetsturnsins tók hann niður. Leitað er að nýjum stað til uppsetningar fyrir tækin.

Á Bjargtöngum voru 2 KiwiSDR viðtæki. Annað frá TF4AH (tengt 2018) og hitt frá TF3GZ (tengt 2020). Þegar fyrra viðtækið fyllist (8 notendur) færðist hlustunin sjálfvirkt inn á það síðara.

Bent er á að KiwiSDR viðtæki Georgs Kulp, TF3GZ sem sett var upp 22. september s.l. á Stapa á Reykjanesi er virkt. Vefslóð: http://stapi.utvarp.com/

Stjórn ÍRA.

Byrjað að taka turninn niður í morgun kl. 10 þann 3. október. Ljósmynd: TF4AH.

Ágætu félagsmenn!

Mér er ánægja að tilkynna um útkomu félagsblaðsins okkar CQ TF 4. tbl. 2023 í dag, 1. október 2023.

Blaðið er vistað á stafrænu formi á heimasíðu félagsins og má sækja það af vefslóðinni hér að neðan.

Vefslóð: https://tinyurl.com/CQTF-2023-4

73 – TF3UA, ritstjóri CQ TF.

Uppfærð DXCC staða TF kallmerkja er miðað við 1. október 2023. Sautján TF kallmerki eru með virka skráningu. Að þessu sinni hefur staða 6 kallmerkja verið uppfærð frá fyrri lista; alls yfir 40 færslur.

Upplýsingar liggja fyrir um a.m.k. 25 íslensk kallmerki sem hafa sótt um og fengið DXCC viðurkenningar til þessa dags.

Hamingjuóskir til viðkomandi.

Stjórn ÍRA.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi var opin fimmtudaginn 28. ágúst. Umræður voru á báðum hæðum, allir hressir og TF3IRA var í loftinu á 7 MHz á morsi og 14 MHz á SSB.

Sérstakir gestir okkar voru þau Greg Zier, KA9VDU og XYL Brenda sem eru búsett í Mcfarland í Wisconsin í Bandaríkjunum og frá Reyðarfirði, Baldur Sigurðsson, TF6-ØØ9. Greg náði m.a. samböndum við tvo radíóamatöra heima í Mcfarland á 14 MHz SSB.

Glæsileg fræðsludagskrá félagsins sem hefst í næstu viku (5. október) lá frammi á prentuðu formi fyrir viðstadda að taka með heim. Dagskráin er komin á heimasíðuna og má sækja hana með því að smella á þessa vefslóð: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2023/09/dagskr.pdf

Yfir kaffinu var m.a. rætt um námskeið ÍRA til amatörprófs sem hófst í Háskólanum í Reykjavík 25. september s.l. Einnig var rætt um loftnet, tæki og búnað og skilyrðin á böndunum, þ.á.m. um QO-100 gervitunglið.

Alls mættu 23 (þar af 3 gestir) í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Pier Albert Kaspersma TF3PKN, Jón Björnsson TF3PW, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Hans Konrad Kristjánsson TF3FG.
Andrés Þórarinsson TF1AM, Greg Zier KA9VDU og XYL Brenda.
Andrés Þórarinsson TF1AM og Haukur Konráðsson TF3HK.
Fræðsludagskrá ÍRA haustið 2023 var til dreifingar í félagsaðstöðunni. Myndir: TF3JB.

CQ World Wide RTTY DX keppnin fór fram 23.-24. september s.l. Í dag (28. september) hafði dagbókum verið skilað fyrir sjö TF kallmerki í sex keppnisflokkum til keppnisstjórnar:

TF3T – einmenningsflokkur, 15 metrar, háafl.
TF2CT – einmenningsflokkur, öll bönd – háafl.
TF3AO – einmenningsflokkur, öll bönd, aðstoð – háafl.
TF2MSN – einmenningsflokkur, öll bönd – lágafl.
TF3VE – einmenningsflokkur, öll bönd – lágafl.
TF3DC – einmenningsflokkur, öll bönd, aðstoð – lágafl.
TF3VG – einmenningsflokkur, öll bönd, “Classic” – lágafl.

Frestur til að skila dagbókum til keppnisstjórnar rennur út á miðnætti annað kvöld (föstudag). Í fyrra (2022) var dagbókum skilað inn fyrir alls níu TF kallmerki.

Niðurstöður verða kynntar í marshefti CQ tímaritsins 2024.

Stjórn ÍRA.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 28. september fyrir félagsmenn og gesti frá kl. 20:00 til kl. 22:00.

Fundarsalur, fjarskiptaherbergi og QSL stofa á 2. hæð verða opin. Góður félagsskapur og nýjustu amatörtímaritin.

Mathías Hagvaag, TF3MH QSL stjóri verður búinn að fara í pósthólfið, flokka kortasendingar og raða í hólfin. Kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Námskeiðið ÍRA til amatörprófs haustið 2023 hófst í Háskólanum í Reykjavík mánudaginn 25. september. Jónas Bjarnason, TF3JB formaður félagsins setti námskeiðið.

Alls er 31 þátttakandi skráður. Þar af mættu 13 í kennslustofu, 15 voru í netsambandi og 3 voru fjarverandi. Fjartengingar gengu vel innan lands og utan (en tveir tveir þátttakendur eru erlendis). 

Eftir setningu tók Kristinn Andersen, TF3KX við og hóf kennsluna. Hann verður einnig með kennslu í kvöld (þriðjudag) en Njáll H. Hilmarsson, TF3NH tekur við á miðvikudag. Kennsla verður síðan samkvæmt tímaplani. Námskeiðinu lýkur 7. nóvember n.k. Próf Fjarskiptastofu til amatörleyfis verður haldið 11 nóvember.

Bestu óskir um gott gengi og þakkir til allra sem koma að verkefninu.

Stjórn ÍRA.

Jónas Bjarnason TF3JB formaður ÍRA setti námskeiðið kl. 18:45. Aðrir á mynd: Kristinn Andersen TF3KX og Jón Björnsson TF3PW.
Byrjunarörðugleikar (tölvumál) og nemendur hjálpa til. Kristinn Andersen TF3KX, Valdimar G. Guðmundsson, Þór Eysteinsson og Jón Björnsson TF3PW.
Mynd úr kennslustofu M117 í Háskólanum í Reykjavík 25. september. Ljósmyndir: Jón Svavarsson TF3JON.