ÁKVÖRÐUN PFS NR. 17/2019
Athygli stjórnarmanna ÍRA hefur verið vakin á ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 17/2019 er varðar fjarskiptatruflanir af völdum talstöðvarnotkunar, dagsett 16. júlí 2019, sem nú hefur verið birt á heimasíðu stofnunarinnar.
Kynning ákvörðunar PFS er eftirfarandi:
Póst- og fjarskiptastofnun barst kvörtun frá neytanda vegna truflana á fjarskiptum. Í erindinu kom fram að talstöðvarnotkun nágrannans, sem að væri radíóáhugamaður, truflaði sjónvarpsmóttöku og gæði nettengingar kvartanda. Krafa kvartanda laut að því að framkvæmd yrði úttekt og lausn yrði fundin á málinu. Í kjölfar athugunar PFS var það ótvírætt álit stofnunarinnar að radíóútsendingar á tilteknum tíðnisviðum úr sendistöð nágrannans yllu fjarskiptatruflunum á VDSL línu kvartanda. Radíóáhugamaður taldi ekki sýnt fram á að búnaður hans væri bilaður og að útsendingar hans væru innan þeirra tíðnisviða sem að honum væru heimilaðar skv. leyfisbréfi.
Með bráðabirgðaákvörðun þessari takmarkar PFS heimild radíóáhugamanns við útsendingar á tilteknum tíðnisviðum. Stofnunin vísar til þeirrar undirstöðuregla að fjarskiptavirki nýtur forgangs þegar kemur að því að notkun þess og annars tækis eða hlutar er ósamrýmanleg á sama stað á sömu stundu. Undir slíkum kringumstæðum og ef um skaðlega truflun er að ræða ber að gera viðeigandi ráðstafanir varðandi hinn hlutinn, þ.e. truflunarvaldinn, þannig að honum sé breytt, hann færður úr stað eða fjarlægður, sbr. 64. gr. fjarskiptalaga.
Radíóáhugamanni var því gert að takmarka útgeislað afl sendistöðvar sinnar á tilteknum tíðnisviðum. Með tilliti til sjónarmiða um meðalhóf þótti stofnuninni rétt að láta þau fyrirmæli gilda tímabundið, svo að hægt væri að nota sendibúnaðinn og radíóáhugamanni gæfist ráðrúm til að gera ráðstafanir sem að leystu truflanavandann.
Vefslóð á skýrslu PFS: https://www.pfs.is/urlausnir/akvardanir-pfs/
Stjórn ÍRA mun kynna sér málið samkvæmt fyrirliggjandi gögnum.
Jónas Bjarnason, TF3JB
formaður
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!