,

Ákvörðun PFS nr. 112, 2012.

Póst- og fjarskiptastofnun birti eftirfarandi frétt um ákvörðun nr. 112/12 í dag, 16. maí, á heimasíðu sinni undir fyrirsögninni: Fjarskiptabúnaður radíóáhugamanns ekki talinn valda skaðlegri geislun. Fréttin er birt í heild sinni hér á eftir.

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 12/2012 vegna kvörtunar um heilsufarslega skaðleg áhrif rafsegulgeislunar frá fjarskiptasendibúnaði. Kvartað var til stofnunarinnar vegna fjarskiptabúnaðs radíóáhugamanns í nágrenni kvartanda sem taldi að rafsegulgeislun frá búnaðinum hefði spillandi áhrif á bæði andlegt og líkamlegt heilsufar
hans. Gerði kvartandi þá kröfu að slökkt yrði á búnaðinum og frekari notkun hans bönnuð af hálfu PFS.

PFS hefur hlutverki að gegna ef upp koma tilvik um rafsegulmengun. Er stofnuninni þá heimilt að takmarka útgeislað afl sendis. Þessari heimild verður þó ekki beitt nema að uppfylltu því skilyrði að sýnt þyki að heilsu manna geti stafað hætta af geisluninni. Það er ekki á færi Póst- og fjarskiptastofnunar að ákveða slík heilsuverndarmörk og meta hvort umhverfi og aðstæður séu með þeim hætti að mönnum sé hætta búin hvað þetta varðar.

Við slíka ákvörðun verður að byggja á sérfræðilegu mati Geislavarna ríkisins sem í þessu tilviki sýndi að rafsegulgeislun inni á heimili kvartanda og í nánasta umhverfi við það væri fyrir innan viðmiðunarmörk Alþjóðaráðsins um varnir gegn ójónandi geislun, ICNIRP, sem ákveðin eru með tilliti þeirra skaðlegu áhrifa sem of mikil geislun kann að hafa á heilsu manna. Reyndust mælingar í flestum tilvikum vera langt fyrir innan umrædd mörk. Er það mat ICNIRP að engar vísindalegar sannanir liggi fyrir um að rafsegulgeislun innan þessara viðmiðunarmarka geti haft skaðleg áhrif á heilsu manna. Sjálfstæðar mælingar sem PFS framkvæmdi voru í samræmi við niðurstöðu Geislavarna ríkisins.

PFS telur því ekki vera forsendur til þess að fallast á kröfu kvartanda um að notkun fjarskiptasendibúnaðar radíóáhugamannsins verði bönnuð. Þá eru heldur ekki forsendur til þess að stofnunin dragi úr leyfilegum sendistyrk sendibúnaðarins eða mæli fyrir um breytta stefnuvirkni loftnetsins.

Þessa frétt og samantekt að baki ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar í heild má sjá á vefslóð PFS: http://pfs.is/displayer.asp?cat_id=112&module_id=220&element_id=3551

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

eleven − 1 =