,

FRÓÐLEGUR FIMMTUDAGUR Í SKELJANESI

Guðmundur Sigurðsson TF3GS byrjar erindi sitt um APRS skilaboða- og ferilvöktunarkerfið.

Guðmundur Sigurðsson, TF3GS mætti í Skeljanes 8. desember með erindið: „APRS Automatic Packet Reporting System“; sjálfvirkt skilaboða- og ferilvöktunarkerfi.

Hann sagði okkur á lifandi hátt frá APRS sem var fundið var upp og þróað af bandarískum radíóamatör, Robert E. Bruinga, WB4APR sem smíðaði og gangsetti fyrsta APRS kerfið fyrir 40 árum (1982) með því að notast við Apple II heimilistölvu. APRS náði þó fyrst útbreiðslu um áratug síðar (1992) þegar GPS varð aðgengilegt (vegna kostnaðar). Frá þeim tíma hefur APRS verið stöðugt í þróun og er í dag m.a. grundvöllur staðarákvörðunarkerfa í flugi og á sjó um allan heim.

Guðmundur útskýrði vel þau þrenn hugtök sem varða kerfið: (1) TNC (e. tracker) sem ýmist getur verið innbyggt í fjarskiptastöð eða utanáliggjandi; (2) „Digipeater“; búnaður sem endurvarpar merkinu; og (3) „Digipeater/I-gate“ sem endurvarpar merkinu og sendir inn á netið. Hann kynnti einnig áhugaverðar APRS heimasíður, m.a. https://aprs.fi

Guðmundur skýrði vel hvernig kerfið virkar, þ.e. allar stöðvar hlusta á tíðnina 144.800 MHz og síðan er valkvætt hvort sent er 1, 2 eða 3 „hopp“. Til skýringar er, að þrjú hopp eru einkum notuð t.d. í hálendisferðum þegar langt er í næstu „I-gátt“. Í því sambandi tók hann dæmi og sýndi og útskýrði þegar TF3CE fór ferð inn á hálendið í sumar.

Kerfið er ekki dýrt í uppsetningu og sú reynsla sem íslenskir radíóamatörar hafa aflað sýnir, að koma má upp samtengdu kerfi stafvarpa (e. digipeters) sem veita vöktun á stór-Reykjavíkursvæðinu og um landið – allt eftir fjölda stafvarpa og staðsetningu. Í dag eru níu APRS stafvarpar og/eða internetgáttir virkar hér á landi, m.a. í Reykjavík, á Búrfelli, Reynisfjalli, í Landeyjum, á Vaðlaheiði, Akureyri, í Grindavík og á Úlfljótsfjalli.

APRS búnaður var fyrst settur upp í fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi árið 2011, síðastliðin fjögur ár (frá 2018) hefur TF3IRA-1Ø verið QRV frá Skeljanesi.

Sérstakar þakkir til Guðmundar fyrir vel flutt, fróðlegt og vandað erindi. Hann bauð upp á spurningar og svaraði samhliða flutningi (og á eftir) sem kom vel út. Umræður héldu áfram eftir lok erindisins þegar viðstaddir skoðuðu sýnishorn af APRS stöðvum og búnaði.

Alls mættu 17 félagar og 2 gestir í Skeljanes þetta ágæta vetrarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Guðmundur ræðir meginhugtök í APRS og vísaði m.a. á skýringarmyndir á glærunni.
Mikið var spurt út í notagildið sem er vel útskýrt á glærunni.
Guðmundur kom að lokum inn á núverandi uppbyggingu APRS á Íslandi og sagði frá framtíðarhugmyndum APRS hópsins.
Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Einar Kjartansson TF3EK, Ingimundur Björgvinsson TF4-ØØ5 (nýr félagsmaður okkar búsettur í Hnífsdal sem bíður eftir að komast á næsta námskeið til amatörprófs) og Eiður Kristinn Magnússon TF1EM. Myndir: TF3JB og TF3KB.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

17 − 11 =