,

VEL HEPPNAÐUR LAUGARDAGUR

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, mætti í Skeljanes laugardaginn 22. febrúar og kynnti búnað félagsins til fjarskipta um OSCAR 100 gervitunglið. Félagsmönnum gafst einnig tækifæri til að fara í loftið með tilsögn frá gervihnattastöð TF3IRA.

Í boði var svokallaður „opinn laugardagur“ og var félagsaðstaðan opin frá kl. 10-15 til að gefa sem flestum tækifæri til að nýta viðburðinn. Þetta fyrirkomulag heppnaðist vel og var góð mæting og dreifing yfir daginn.

Menn fóru í loftið, bæði á tali (SSB) og morsi. Menn voru almennt sammála um að þessi upplifun væri mjög sérstök; sterk merki, engar truflanir og góður DX. Sérprentaðar greinar Ara um OSCAR 100 úr CQ TF sem lágu einnig frammi til kynningar.

Alls mættu 24 félagsmenn og 3 gestir í Skeljanes þennan ágæta og sólríka laugardag.

Stjórn ÍRA þakkar Ara fyrir vel heppnaðan viðburð.

Farið yfir undirstöðuatriði gervihnattafjarskipta áður en farið var í loftið. Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE og Gísli Gissur Ófeigsson TF3G.
Guðmundur Gunnarsson TF3GG sagði þessa tegund fjarskipta áhugaverð og sérstaklega að hægt væri að vera á morsi í samböndum um OSCAR 100.
Hans Konrad Kristjánsson TF3FG var afar ánægður og tók sín fyrstu QSO á SSB í gegnum OSCAR 100, m.a. við radíóamatöra í Brasilíu.
Biðraðir mynduðust hjá Ara í fjarskiptaherberginu. Á mynd: Björgvin Víglundsson TF3BOI, Guðmundur Gunnarsson TF3GG, Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE og Gísli Gissur Ófeigsson TF3G.
Gervihnattafjarskiptin útskýrð í salnum á neðri hæð. Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Óskar Sverrisson TF3DC og Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE. Undir sófaborðinu má sjá mælitæki frá RigExpert af gerðinni AA-1400 sem var tengt við fartölvuna á borðinu. En í kaffihléi var hönk af RG-213 kóaxkapli tengd við tækið og m.a. greint sýndarviðnám á fæðilínunni (sem var mismunandi eftir lengd enda kapallinn samsettur).
Þórarinn Benedikz TF3TZ og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A ræddu m.a. búnað sem þarf til að verða QRV og möguleika sem bjóðast í samböndum um gervihnöttinn OSCAR 100.
Björgvin Víglundsson TF3BOI, Kristján Benediktsson TF3KB og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS skoðuðu m.a. stöðu OSCAR 100 í gráðum á himinhvolfinu, séð frá Íslandi. (Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB).
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

five × five =