,

VEL HEPPNAÐUR FIMMTUDAGUR Í SKELJANESI

Einar Kjartansson, TF3EK mætti í Skeljanes fimmtudaginn 27. apríl með erindið: Búnaður og aðferðir sem henta í SOTA.

Einar fór yfir tilurð SOTA (Summits On The Air) sem var stofnað 2. mars 2002 og er kerfi fyrir viðurkenningar sem hvetja til fjarskipta radíóamatöra í fjalllendi.

Málið snýst um að fara á fjöll með fjarskiptatæki og búnað og hafa sambönd við aðra leyfishafa á amatörböndunum. Verkefnið byggir á skrá yfir fjallatinda og á gagnagrunni á vefnum, þar sem menn skrá QSO frá, til og á milli tinda. Hér á landi eru 910 tindar skráðir sem skiptast niður á 7 landssvæði.

Samband er haft á milli þess sem fer á tind og þess sem er staðsettur annarsstaðar. Ef báðir eru á tindi telst sambandið vera svokallað „S2S QSO“ (e. sumit to summit). Gefin eru stig fyrir sambönd og fer fjöldi eftir landssvæði, hæð og árstíma. Þau eru skráð í gagnagrunn SOTA.

Í boði eru bæði verðlaun og viðurkenningar fyrir árangur. Einar er t.d. handhafi æðstu verðlauna SOTA „Mountain Goat“ sem er í boði fyrir þá sem hafa náð a.m.k. 1000 stigum. Sambærileg verðlaun eru í boði fyrir amatöra sem vinna frá heima QTH. Þau nefnast „Shack Sloth“.

Einar svaraði mörgum fyrirspurnum og fékk að lokum gott klapp. Umræður héldu þó áfram og sýndi Einar mönnum hluta af búnaði sínum sem hann notar, m.a. heimagerð loftnet og glertrefjastangir sem auðvelt er að reisa á fjöllum. Vefslóð á glærur: https://eik.klaki.net/tmp/sota2304.pdf

Sérstakar þakkir til Einars Kjartanssonar, TF3EK fyrir afar fróðlegt, áhugavert og vel flutt erindi, sem veitti góða innsýn inn í þennan spennandi þátt áhugamálsins. Alls mættu 26 félagsmenn og 3 gestir í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Einar sýndi margar áhugaverðar glærur um SOTA verkefnið.
Vel var farið yfir reglur SOTA um sambönd.
Einar lýsti einnig vel þeim búnaði sem hann notar, m.a. loftnetum.
Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Georg Kulp TF3GZ og Guðmundur Birgir Pálsson TF3AK.
Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Þórður Adolfsson TF3DT, Garðar Valberg Sveinsson TF8YY og Einar Kjartansson TF3EK.
Garðar Valberg Sveinsson TF8YY, Benedikt Guðnason TF3TNT, Guðjón Egilsson TF3WO (í stól með bak í myndavél) og Mathías Hagvaag TF3MH.
Arto Liimatta OH2KW heimsótti okkur Skeljanes 27. apríl. Myndin var tekin í fjarskiptaberbergi TF3IRA þaðan sem hann hafði nokkur sambönd á morsi, m.a. heim til Finnlands. Arto var hér á landi í stuttri heimsókn ásamt XYL, en þau eru búsett í bænum Lepsämä í Suður-Finnlandi, sem er u.þ.b. 30 km norðnorðvestur frá Helsinki. Arto hefur verið leyfishafi frá árinu 1979 og er einkum QRV á CW, RTTY og stafrænum teg. útgeislunar. Ljósmyndir: TF3JB og TF3PW.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

16 − five =