,

Vel heppnaður fimmtudagsfundur í Skeljanesi

TF3JA ræddi hugmyndir starfshóps Í.R.A. að neyðarfjarskiptastefnu félagsins í Skeljanesi þann 2. maí.

Síðasti viðburðurinn á vetrardagskrá Í.R.A. að þessu sinni fór fram í félagsaðstöðunni í Skeljanesi þann 2. maí. Það var kynning starfshóps Í.R.A. um mótun neyðarfjarskiptastefnu fyrir félagið. Jón Þóroddur Jónsson, neyðarfjarskiptastjóri Í.R.A. hafði orð fyrir hópnum og kynnti hugmyndir hans og svaraði spurningum.

Hugmyndir starfshópsins hafa nú verið formgerðar og eru þær kynntar hér á eftir, samkvæmt skýrslu hópsins til stjórnar Í.R.A. sem afhent var þann 12. maí.

Stjórn Í.R.A. þakkar starfshópnum fyrir skýrsluna.

__________


STARFSHÓPUR Í.R.A. UM GERÐ TILLÖGU NEYÐARFJARSKIPTASTEFNU Í.R.A.

Skýrsla starfshópsins til stjórnar; 12. maí 2013.

Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA, neyðarfjarskiptastjóri Í.R.A., formaður.
Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN, fulltrúi stjórnar.
Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI.
Henry Arnar Hálfdánarson, TF3HRY.
Jón Svavarsson, TF3JON.
Jónas Friðgeirsson, TF3JF.

Neyðarfjarskiptahópurinn leggur til að eftirfarandi tillaga verði lögð fyrir næsta aðlalfund ÍRA og falli undir þá grein sem fjallar um starfsemi og verkefni félagsins.

Radíóamatörar í neyðarfjarskiptum.
Radíóamatörar taka í sívaxandi mæli þátt í neyðarfjarskiptaþjónustu um allan heim og er í dag sá þáttur í starfssemi radíóamatöra sem vex hvað mest. Amatörradíó.. byggir ekki á neinu kerfi eða tengingum um önnur kerfi,…er óháð öllum raforkukerfum og fjarskiptastrengjakerfum og er þess vegna ein besta leiðin til neyðarfjarskipta. GSM kerfin, TETRA öryggisfjarskiptakerfin og þráðlausu internetin eru radíókerfi sem henta vel til neyðarfjarskipta, en þau byggja á stöðvum, möstrum og millitengingum sem geta skemmst í náttúruhamförum eða af mannavöldum og ná þess vegna aldrei því að vera algerlega óháð eins og amatörradíó er. Þegar símakerfin verða óvirk og og rafmagnið fer af öllu er eftir sem áður hægt að koma á sambandi um amatörradó sem tengt er við rafgeymi, rafhlöðu eða vararafstöð. Þetta fjölhæfi amatörradíófjarskiptanna hefur gegnum tíðina bjargað mörgum mannslífum. Amatörradíóið nær í gegn þó allt annað bregðist.

Neyðarfjarskiptahópur ÍRA.
Innan ÍRA er starfar neyðarfjarskiptahópur sem er tilbúinn að koma á fjarskiptum hvar sem er á landinu með stuttum fyrirvara ef önnur fjarskipti bregðast. Til þess hefur hópurinn aðgang að amatörum og búnaði þeirra víða um landið og mun á næstu árum vinna að því að til verði amatörar og búnaður sem víðast á landinu. Í hópnum eru þeir amatörar sem á hverjum tíma vilja og og áhuga á að starfa að neyðarfjarskiptamálum. Hópurinn starfar með neyðarfjarskiptastjóra félagsins og hefur aðgang að öllum tækjum og búnaði í eigu félagsins til að sinna sínu hlutverki. Hópurinn velur sér talsmann úr sínum röðum og heldur skrá yfir þá sem vilja tilheyra hópnum á hverjum tíma.

Skrá yfir amatöra og búnað.
Hópurinn stefnir að því að setja saman skrá yfir búnað og getu sem flestra radíóamatöra til að sinna neyðarfjarskiptum.

Stöð félagsins í Skeljanesi.
Hópurinn stefnir að því að aðstoða stöðvarstjóra félagsins við að byggja upp og reka fjarskiptastöð félagsins í Skeljanesi á öllum böndum og mótunarháttum sem amatörar hafa leyfi til að nota.

VHF endurvarpi í Reykjavík.
Hópurinn stefnir að samvinnu við félagið um einn VHF endurvarpa staðsettan þannig á Reykjavíkursvæðinu að til hans náist án millistöðva frá völdum stöðum á Suðurlandi, úr Borgarfirðinum og einnig frá Stykkishólmi ef unnt er.

Kynning og samskifti við neyðar- og björgunaraðila.
Hópurinn stefnir að kynningu á radíóamatörum og að ýta fleirum út í áhugamálið sér í lagi ungu fólki, taka upp samvinnu við Radíóskáta og 4×4 og að taka upp regluleg samskifti við neyðaraðila á Íslandi. Hópurinn mun leggja fyrir næsta aðalfund ÍRA frekari tillögu um framhaldið og reynsluna af fyrsta árinu.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

19 − 15 =