,

VEL HEPPNAÐ ERINDI TF3KX OG GJÖF MÓTTEKIN

Kristinn Andersen, TF3KX, mætti í Skeljanes á vetrardagskrá ÍRA þann 28. nóvember með erindið „QRP afl, heimasmíði og notkun QRP senda“.

Hann fór fyrst yfir QRP skilgreiningarnar, en QRP afl miðast oftast við mest 5W á morsi (10W á SSB) og QRPp  við mest 1W. Hann útskýrði vel hversu vel QRP afl skilar sér í raun. Því til sönnunar lék hann upptöku af sendingu á morsi frá radíóvita 4U1UN/B í New York á 14.100 MHz. Fyrst var sent stutt merki á 100W, síðan á 10W, þá á 1W og loks á 0,1W. Sérlega áhugavert var að heyra hversu læsilegt merkið var í öllum afldæmunum – meira að segja á 0,1W í restina.

Kristinn lýsti eigin reynslu af að vinna á QRP afli og var áhugavert að skoða fjarskiptadagbók hans (sem gekk á milli manna á meðan hann flutti erindið). Hann fjallaði um mikilvægi góðra loftneta, en að sama skapi væri einnig spennandi að nota algeng loftnet eins og t.d. hálfbylgju endafæddan vír (t.d. á 20 metrum) og benti á að þannig væri auðvelt að hafa sambönd yfir þúsundir kílómetra um allan heim.

Hann fór yfir QRP stöðvar og búnað sem eru í boði í dag, bæði samsettar og ósamsettar. Nefndi í því sambandi eigin QRP stöð (2W á morsi) frá Small Wonder Labs  og Elecraft stöð, K2 (0-15W á morsi og SSB) sem voru til sýnis á staðnum, en báðar voru keyptar ósamsettar. Hann útskýrði einnig, að 2W stöðin væri hluti af búnaði sem hann hefði í tösku sem væri þægilegt að grípa með sér, t.d. í sumarbústað eða jafnvel erlendis (sem hann hefur gert).

Erindi Kristins var afar vel heppnað. Það var vel flutt, skemmtilegt og fróðlegt og veitti góða innsýn í þennan áhugaverða þátt áhugamálsins sem nýtur vaxandi vinsælda með hverju ári sem líður. Held að allir viðstaddir geti tekið undir með TF3OM, sem þakkaði Kristni á Facebook í morgun fyrir „stórgóðan fund í gærkvöldi“. Alls mættu 33 félagsmenn í Skeljanes þetta kyrrláta vetrarkvöld í Vesturbænum.

Ánægjulegt er jafnframt að geta um góða gjöf Hans Konrads Kristjánssonar, TF3FG, sem færði félaginu tvo „signal gererator‘a“, HF sendi og 1000W HF magnara (hvorutveggja af Harris gerð, sbr. ljósmynd). Bestu þakkir til Hans Konrads.

Skeljanesi 28. nóvember. Kristinn Andersen TF3KX flutti erindi í félagsaðstöðu ÍRA um “QRP afl, heimasmíði og notkun QRP senda”.
Eftir erindið sýndi Kristinn QRP stöðvar og búnað, m.a. Elecraft K2 sem er sendi-/móttökustöð á 10-80M sem hann keypti ósamsetta frá Bandaríkjunum (hún getur einnig unnið á 160M ef bætt er við aukabúnaði). Hún er búin 0-15W sendi á morsi og tali (SSB) og er fyrirferðarlítil og létt. K2 getur unnið á innbyggðum rafhlöðum (endurhlaðanlegum) jafnt sem utanaðkomandi 13.8VDC. Á mynd frá vinstri: Gunnar Bergþór Pálsson TF3-017, Kristinn Andersen TF3KX og Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN.
Þórður Adolfsson TF3DT og Ari Þór Jóhannesson TF1A tryggðu sér bestu sæti áður en erindið hófst. Tíðindamanni er ókunnugt um merkingu fingrasetningar Ara…
Í fundarhléi vann gjarldkeri félagsins m.a. sín störf, sem að þessu sinni var að taka á móti félagsgjaldi. Frá vinstri: Jón Björnsson TF3PW gjaldkeri ÍRA handleikur seðla, Kristján Benediktsson TF3KB, Ársæll Óskarsson TF3AO, Yngvi Harðarson TF3Y, Óskar Sverrisson TF3DC, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG (standandi), Stefán Arndal TF3SA og Þór Þórisson TF1GW.
Frá vinstri: Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, Mathías Hagvaag TF3MH (sitjandi), Þór Þórisson TF1GW, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Kristinn Andersen TF3KX og Gunnar Bergþór Pálsson TF3-017.
Eftir erindið var skeggrætt um QRP hluta áhugamálsins. Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF3MH, Yngvi Harðarson TF3Y, Óskar Sverrisson TF3DC og Kristinn Andersen TF3KX.
Hans Konrad Kristjánsson TF3FG færði félaginu góða gjöf. Það eru “signal gerator’ar” af vandaðri gerð og HF sendir og HF magnari (1000W) af Harris gerð. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

fourteen + 6 =