,

Stórkostlegur árangur hjá Þorvaldi Stefánssyni, TF4M.

Þorvaldur Stefánsson, TF4M, við stöð sína í Otradal. Myndin er tekin í fyrra (2009).

Þorvaldur, TF4M, hefur sótt um Worked All Zones Award (WAZ) á 160 metrum. WAZ er eitt af þekktustu og elstu viðurkenningarskjölum radíóamatöra í heimi og þykir flestum leyfishöfum yfirleitt nógu erfitt að vinna að því á hærri böndunum, en Þorvaldur hefur nú slegið enn eitt Íslandsmetið og er fyrstur hér á landi til að fá viðurkenninguna á 160 metra bandinu.

Vegna þess hversu erfitt er að uppfylla kröfur um sambönd við stöðvar í sérhverju hinna 40 svæða (e. zones) á 160 metrum, er fyrirkomulagið þannig, að boðið er upp á svokallaða “Basic” viðurkenningu” og er hægt að sækja um hana þegar menn eru komnir með staðfestingu á samböndum við stöðvar í a.m.k. 30 svæðum. Síðan eru í boði viðurkenningarmiðar fyrir sérhvern áfanga þar fyrir ofan, þ.e. 35 svæði, 36 svæði, 37 svæði, 38 svæði, 39 svæði og loks 40 svæði.

Þorvaldur var í dag (8. mars) kominn með staðfest sambönd við stöðvar í 37 svæðum af 38 sem hann hefur þegar haft sambönd við (en bíður staðfestingar frá svæði 9). Eins og staðan er í dag, vantar hann aðeins sambönd við stöðvar í tveimur svæðum, þ.e. á svæði 2 og svæði 37. Ljóst er, að sambönd við stöðvar á þessum tveimur svæðum verða “auðveld” samanborið við sambönd við stöðvar í þeim 38 svæðum sem þegar eru í höfn og því aðeins spurning um tíma, hvenær Þorvaldur “loggar” þau.

Fyrir hönd stjórnar félagsins, er undirrituðum sönn ánægja að óska Þorvaldi til hamingju með frábæran árangur sem er á heimsmælikvarða, ekki síst þegar litið er til erfiðrar hnattstöðu landsins með tilliti til fjarskipta í þessu tíðnisviði.

Jónas Bjarnason,
formaður Í.R.A.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

three × four =