,

SKEMMTILEGUR LAUGARDAGUR Í SKELJANESI

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A var með frábæra kynningu á Es’hail 2 / QO-100 gervitunglinu í Skeljanesi laugardaginn 21. janúar þar sem hann kynnti ódýrar lausnir til viðtöku merkja frá tunglinu.

Hann kom með eigin búnað sem hann notar þegar hann ferðast um landið og hefur sambönd um QO-100 og var 90 cm diskloftnet sett upp á standi við glugga (í austurhluta salarins) í Skeljanesi.

Ari flutti stuttan inngang um tunglið. Fram kom m.a. að í næsta mánuði verða komin 4 ár síðan frá því opnað var fyrir fjarskipti radíóamatöra, en tunglinu var skotið á loft í nóvember 2018. QO-100 er á sístöðubraut (e. geostationary). Það þýðir að það er ætíð á sama stað séð frá jörðu og geta leyfishafar því stundað fjarskipti allar sólarhringinn u.þ.b. frá hálfum hnettinum. Sendingar eru á 2400 MHz (e. uplink) og hlustun er á 10450 MHz (e. downlink).

Tvö tæki eru í boði (e. linear transponders); 250 kHz á lóðréttri pólun (12VDC) fyrir bandþrengri sendingar (t.d. CW, FT8 og SSB) og 8 MHz á láréttri pólun (18VDC) fyrir bandbreiðari sendingar (t.d. AM, FM, D-Star, stafrænt sjónvarp, DVB o.fl.). Ari nefndi, að QO-100 sendir út DVB-S2 sjónvarpsmerki allan sólarhringinn sem notast m.a. til að staðsetja gervitunglið og stilla loftnet.

Ari fjallaði einnig um búnaðinn. Fram kom, að hægt er að komast af með um 5 þúsund krónur fyrir búnað og að diskloftnet kostar um 10 þúsund krónur. Hann sýndi okkur m.a. eigið ferðaloftnet og notaði mælitæki (sjá mynd) til að finna ca. stefnuna og merkin frá QO-100 gervitunglinu. En þægilegt er að finna fyrst t.d. sjónvarpsmerkin á 28.2° austur og þá er eftirleikurinn auðveldur.

Eftir kaffi var farið upp í fjarskiptaherbergi TF3IRA og gervihnattastöð félagsins gangsett, en þar voru merki dauf enda kom í ljós að rigningarvatn hafði komist LNB á diskneti stöðvarinnar. Engu að síður var hægt að átta sig á merkjum og áhugavert að sjá merkin á 27“ tölvuskjá.

Bestu þakkir til Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A fyrir afar áhugaverðan, fróðlegan og vel heppnaðan laugardag. Alls mættu 12 félagsmenn og 1 gestur á kynninguna í félagsaðstöðunni í Skeljanesi.

Stjórn ÍRA.

Ari Þórólfur TF1A flutti stuttan inngang og kynnti QO-100 gervitunglið. Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF3MH, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Andrés Þórarinsson TF1AM, Karl Georg Karlsson TF3CZ, Jóhannes Magnússon TF3JM, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A.
Ari sagði okkur m.a. frá því hvernig hann finnur merkin frá QO-100 þegar hann ferðast um landið. Mathías Hagvaag TF3MH, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Erling Guðnason TF3E, Andrés Þórarinsson TF1AM, Karl Georg Karlsson TF3CZ, Jóhannes Magnússon TF3JM og Sveinn Goði Sveinsson TF3ID.
Ari fjallaði um mismunandi diskloftnet og mismunandi gerðir LNB (Low-Noise  block downconverter) sem er hluti af loftnetinu og er staðsett fyrir framan diskinn.
Ari setur upp og tengir LNB við diskinn. Hann fjallaði m.a. um að halla þarf LNB’inu til að fá sem sterkast merki.
Sjá má röð af merkjum á mælitækinu frá mismunandi sjónvarpsgervitunglum þegar Ari var búinn að grófstilla loftnetið. Þegar það var búið var auðvelt að finna merkin frá QO-100.
Eftir kaffi var farið upp í fjarskiptaherbergi TF3IRA. Sæmileg merki birtust á 27″ tölvuskjánum, en Ari sagði að merkin ættu að vera mun sterkari (sjá næstu mynd).
Og það kom á daginn að plastumbúðirnar sem settar höfðu verið utan um LNB’ið til varnar voru allar tættar (líklega eftir fugla) og LNB’ið var auðsjáanlega í regnvatsnbaði. Ljósmyndir: TF3JB.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

5 + nineteen =