,

Opið í Skeljanesi 20 – 22 í kvöld

Við höldum áfram tiltekt í Skeljanesi í kvöld en eflaust verður meira rabbað en unnið og til dæmis er ekki úr vegi að skoða vel verklagsreglur stjórnarinnar við að skrifa umsögn um kallmerkjaumsóknir.

Stjórn ÍRA miðar við eftirfarandi verklagsreglur við kallmerkjaumsagnir þar til annað verður ákveðið:

Markmið verklagsreglna fyrir umsagnir um kallmerki

 • Kallmerki er fyrst og fremst auðkenni.
 • Virkir amatörar fái forgang að þjálum kallmerkjum sem er auðvelt að heyra og muna.
 • Sem fæst eftirsóknarverð kallmerki séu lítið eða ekki notuð.
 • Draga úr því að leyfishafar séu að skipta um kallmerki.
 • Ef eftirspurn reynist meiri en framboð, þá ráðist forgangur af virkni.
 • Verklagsreglur séu einfaldar og gagnsæar.
 • Kallmerki skulu ekki notuð til að umbuna fyrir frammistöðu eða langlífi.
Verklagsreglur við umsagnir um kallmerki
 1. Leyfishafar sem þess óska geta fengið tímabundið kallmerki með einsbókstafs viðskeyti til þriggja ára.
 2. Leyfishafar með 200 staðfest CQ WPX forskeyti á LOTW geta fengið ótímabundið kallmerki með einsbókstafs viðskeyti.
 3. Stjórn ÍRA getur mælt með ótímabundnu kallmerki með eins bókstafs viðskeyti á grundvelli annara upplýsinga um virkni.
 4. Þeir sem fá tímabundið kallmerki geta haldið því kallmerki sem þeir eru með fyrir og verið þá með tvö virk kallmerki.
 5. Tölustafurinn 0 er frátekinn fyrir tímabundin kallmerki vegna sérstakra atburða eða keppnishópa.
 6. Tímabundin kallmerki eru laus aftur til úthlutunar að liðnum 6 árum, ótímabundin kallmerki að liðnum 20 árum.

Nýja félagsstöðin

En næsta fimmtudagskvöld 8. febrúar kemur loksins að því að nýja félagsstöðin verður kynnt og þá ætlar Ágúst, TF3OM að koma og segja okkur frá sínum stöðvum og hvernig hann fjarstýrir stöðvunum sínum.

 

 

TF3OM skrifaði á fésbókina og setti fram spurningu um kallmerkjanotkun við fjarstýrinu:

Sælir

Spurningar varðandi fjartengingu “remote operation” eða “remote rig”. (Ég á við fjartengingu til eigin nota, en ekki til að lána öðrum aðgang að mínum stöðvum): Það er að færast í vöxt að vera með fjartengingu eins og ég hef prófað, þ.e. að vera með loftnetið og sendinn, eða hluta hans, t.d. í sumarbústað. Þegar ég sit heima get ég því valið um að nota IC-7300 sem er heima, eða TS-480 sem er að hálfu leyti heima (andlitið) og að hálfu leyti í sumarbústaðnum (RF hlutinn). Þetta er í raun sama stöðin, og eru framhlið og afturhlið tengd saman með ígildi langrar netsnúru um internetið, en stuttri netsnúru þegar báðir hlutarnir eru á sama stað.

1) Hvort á ég að nota TF3OM eða TF3OM/P ?

Síðan má velta fyrir sér eftirfarandi:

2) Segjum að ég sé staddur í sumarbústaðnum og fjartengi IC-7300 heimastöðinni með hjálp fartölvu. Hvaða kallmerki nota ég þá?

3) Þriðji möguleikinn væri að ég sé staddur t.d. í Englandi og fjartengi mig annað hvort inn á stöðina heima eða stöðina í sveitinni. Hvaða kallmerki nota ég þá?

Ég þykist vita að skoðanir séu margar á þessu. Einfaldast væri að nota bara TF3OM í öllum tilvikum, en hvernig túlka menn reglugerðir…?

Einn svarandinn var Óskar, TF3DC og minnti okkur á skýrslu fjaraðgangsnefndar frá 2015:

Skýrsla Fjaraðgangsnefndar

Óskar Sverrisson benti sérstaklega á Viðauka II í skýrslunni:

Starfræksla með fjarstýringu er skilgreind svo, að leyfishafi stjórni amatörstöð með fjarstýribúnaði.
Þar sem stöð er starfrækt með fjarstýringu skal virða eftirfarandi skilmála:
1. Starfræksla með fjarstýringu verður að vera leyfð, eða látin óátalin, af stjórnvöldum landsins sem stöðin er í.
2. Nota á kallmerkið sem stjórnvöld landsins sem stöðin er í hafa gefið út. Þetta gildir án tillits til staðsetningar þess sem stýrir.
3. Hafa skal í huga að tilmæli SC11_C4_07 tiltaka að aðildarfélögin veki athygli meðlima sinna á því að T/R 61-01 tilmælin taka aðeins til fólks sem notar sitt eigið kallmerki, með viðeigandi landsforskeyti, þegar viðkomandi heimsækir landið í raun. Þau taka ekki til starfrækslu með fjarstýringu.
4. Aðrir skilmálar, er varða þátttöku fjarstýrðra stöðva í keppni eða öflun verðlauna, eru málefni hinna ýmsu skipuleggjenda slíkara atburða.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

4 + 19 =