,

NÝIR LEYFISHAFAR Í SKELJANESI

Í skipulagi vornámskeiðs ÍRA 2022 sem lauk með prófi Fjarskiptastofu til amatörleyfis 21. maí s.l. var gert ráð fyrir sérstökum degi (eftir prófið) í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi. Þar segir m.a.: „Farið í félagsaðstöðu ÍRA og fjarskiptaherbergi og loftnet skoðuð. Nemendur gera prufuútsendingar undir nafni TF3IRA með stöðvarstjóra. Útfært síðar með tíma“.

Af ýmsum ástæðum frestaðist þessi sérstaki dagur þar til í morgun, laugardaginn 16. júlí kl. 10:00. Sendur var tölvupóstur á þá sem stóðust próf (alls 11 manns) með boð um að mæta í Skeljanes með viku fyrirvara. Svör bárust frá 6 sem ýmist voru erlendis eða í sumarfríi innanlands þannig að ljóst var að mest 5 mundu geta mætt. Engu að síður var ákveðið að halda sig við auglýstan dag og mættu tveir nýir leyfirshafar í Skeljanes.

Við byrjum daginn á að fá okkur morgunkaffi í salnum þar sem farið var yfir helstu þætti í starfsemi ÍRA og var byggt á nýju ávarpsbréfi og kynningarriti félagsins. Fjallað var m.a. um félagsstarfið undir „eðlilegum kringumstæðum“; nú þegar Covid-19 faraldurinn er frá. Vakin var athygli á vor- og vetrardagskrám félagsins sem í boði eru á tímabilinu febrúar-maí og í október-desember. Stuttlega var skýrt frá fjarskiptaviðburðum á vegum ÍRA, þ.e. Páskaleikunum, VHF/UHF leikunum og TF útileikunum. Einnig var skýrt frá útgáfustarfseminni, þ.e. félagsblaðinu CQ TF, ársskýrslu og heimsíðu og vakin athygli á undirsíðu CQ TF þar sem lesa má öll félagsblöðin frá upphafi. Einnig var farið yfir framboð endurvarpa í VHF og UHF tíðnisviðunum, vakin athygli á viðtækjunum fjórum yfir netið og radíóvitunum tveimur á 50 og 70 MHz. Einnig var almennt rætt um HF tíðnisviðin og bandplön þar að lútandi.

Í fjarskiptaherbergi TF3IRA var forprentuðum fjarskiptadagbókum TF3IRA dreift og farið yfir skráningu í „logg“. Síðan voru útskýrðar hefðir í fjarskiptum radíóamatöra [og farið yfir] hvernig kallað er CQ og CQ DX. Þátttakendur spurðu spurninga og var nokkrum sinnum æft hvernig QSO fara fram.

TF3ST í 1sta QSO’i við TF2MSN.
Í fjarskiptaherbergi TF3IRA. TF3JB hringdi í Óðinn Þór TF2MSN sem strax kom á 20 metrana.



TF3VL í 1sta QSO’i við TF2MSN.

Ekki voru skilyrðin beint fýsileg; K-gildi var hátt og fá merki á 20M SSB nema nokkur rússnesk, en Russian Radio Team keppnin stóð yfir frá kl. 07-15 í dag. Í ljósi þessa var kallað CQ en ekkert svar. Við svo búið mátti ekki standa og því gripið til þess ráðs að hringja í Óðinn Þór Hallgrímsson, TF2MSN sem kom strax á bandið og hafði samband, bæði við Antoniu (TF3ST) og Guðmund (TF3VL).

Þegar þeim samböndum var að ljúka kom á tíðnina hollenskur leyfishafi sem var /P og var rúmlega S9 á mæli og töluðu þau bæði við hann. Segja má að fyrstu QSO þeirra beggja – hvorutveggja við íslenskan leyfishafa og DX stöð hafi gengið prýðilega. Þar fyrir utan var Óðinn Þór mjög hvetjandi; bauð þau velkomið í loftið og sagði sína reynslu frá því þegar hann byrjaði sjálfur fyrst í loftinu árið 2011.

Þrátt fyrir lítt spennandi skilyrði, voru þau bæði ánægð. Það var því gerð tillaga um að þau mæti í Skeljanes eitthvert fimmtudagskvöld á næstunni og þá verði þau æfð í að fara í loftið. Þau tóku vel í það. Í framhaldi færðum við okkur yfir í herbergi QSL stofunnar og var virkni QSL Bureau’sins skýrð út.

Að lokum var aftur farið niður í sal og mikið rætt. Þegar klukkan var að verða 13:30 var húsið yfirgefið. Þakkir til Jóns Björnssonar, TF3PW umsjónarmanns námskeiða ÍRA og Kristjáns Benediktssonar NRAU/IARU tengiliðar ÍRA fyrir að mæta á staðinn, hjálpa til og vera til svara. Sérstakar þakkir til Óðins Þórs Hallgrímssonar, TF2MSN fyrir að koma á 20M og ræða við nýju leyfishafana. Síðast en ekki síst þakkir til þeirra Antoniu Sabrinu Stevens, TF3ST og Guðmundar Veturliða Einarssonar, TF3VL fyrir að mæta í Skeljanes. Skemmtilegur og vel heppnaður laugardagur!

Stjórn ÍRA.

Í salnum í Skeljanesi skömmu áður en staðurinn var yfirgefinn kl. 13:30. Þakkir til Kristjáns Benediktssonar TF3KB fyrir ljósmyndir.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

one × 3 =