,

Hæstiréttur takmarkar ábyrgð vegna fjarskiptatruflana

Krækja á frétt sem í dag var birt á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar.

Takmörkun á ábyrgð vegna fjarskiptatruflana

20. mars 2017

Rafmagnsgirðing

Hæstiréttur Íslands hefur kveðið upp dóm þar sem staðfestur er dómur Héraðsdóms Reykjavíkur sem felldi úr gildi ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) frá árinu 2013 þar sem bónda á Vestfjörðum var gert skylt að að framkvæma úrbætur á eigin kostnað til að fyrirbyggja fjarskiptatruflanir sem rekja mátti til rafmagnsgirðingar á jörð hans.

Málavextir eru þeir að fyrir nokkrum árum barst Póst- og fjarskiptastofnun kvörtun um að rafmagnsgirðing á jörð í Vesturbyggð ylli truflunum á talsímaþjónustu á nálægum bæjum. Í ákvörðun sinni nr. 7/2013 komst PFS að þeirri niðurstöðu að fjarskiptatruflanirnar væru af völdum rafmagnsgirðingarinnar og beindi fyrirmælum til ábúandans um að framkvæma úrbætur á eigin kostnað til að fyrirbyggja fjarskiptatruflanirnar, sem fólust í því að færa girðinguna að hluta. Var ákvörðunin byggð á 2. mgr. 64. gr. fjarskiptalaga þar sem segir:

„Nú liggur fyrir að rafföng, tæki, raflagnir, pípur, leiðslur eða því um líkt valda skaðlegri truflun á rekstri fjarskiptavirkis og er Póst- og fjarskiptastofnun þá heimilt að beina fyrirmælum til eiganda slíks hlutar um að hann grípi á eigin kostnað til viðeigandi úrbóta án tafar, taki t.d. niður, færi eða fjarlægi viðkomandi hlut sem veldur skaðlegri truflun.“

Ábúandinn taldi aftur á móti að sér væri ekki skylt að bera kostnað af nauðsynlegum úrbótum, m.a. á grundvelli þess að rafmagnsgirðingin hafi verið sett upp áður en jarðsímastrengurinn var lagður.  Kærði hann ákvörðun PFS til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála sem staðfesti hana.  Þann úrskurð kærði ábúandinn til Héraðsdóms sem felldi ákvörðun PFS úr gildi. Þeim dómi áfrýjuðu bæði PFS og Míla ehf. til Hæstaréttar sem nú hefur kveðið upp dóm sinn.

Fjarskipti eru samfélagslega mikilvægur þjónustuþáttur og eru miklir hagsmunir fólgnir í því að hægt sé að reiða sig á samfellt og órofið fjarskiptasamband. Af þessum sökum hefur löggjafinn búið svo um hnútana að veita fjarskiptum tiltekna lagalega vernd gegn skaðlegum truflunum sem geta skert gæði fjarskiptaþjónustu eða valdið algjöru rofi á henni. Boðskipti í fjarskiptakerfum geta verið viðkvæm fyrir rafsegulgeislun frá öðrum fjarskiptavirkjum eða rafföngum, en dæmi eru um að bilaðir örbylgjuofnar og þvottavélar hafi valdið alvarlegum fjarskiptatruflunum.

Hvað varðar rafföng sérstaklega er gert ráð fyrir að fjarskiptavirki njóti ákveðins forgangs fram yfir rafföng og að eigendur raffanga beri hlutlæga ábyrgð ef þau valda truflunum á fjarskiptum eins og fram kemur í 2. mgr. 64. gr. fjarskiptalaga sem vitnað er til hér að ofan. Rafmagnsgirðingar teljast til raffanga í skilningi þessa ákvæðis og eru mörg dæmi um að þær hafi valdið skaðlegum truflunum á fjarskiptum í jarðsímastrengjum.

Samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar sætir hlutlæg ábyrgðarregla vegna truflana á fjarskiptum, samkvæmt 2. mgr. 64 fjarskiptalaga, takmörkun þegar um er að ræða raffang sem komið var upp á undan því fjarskiptavirki sem það veldur truflun á. Um þetta segir Hæstiréttur:

“Þegar horft er til einstakra núgildandi málsgreina þessarar lagagreinar er ljóst að þær snúa í öllum tilvikum að því að vernda fjarskiptavirki, sem þegar eru fyrir hendi, fyrir röskun af framkvæmdum eða annars konar aðgerðum, sem síðar koma til. Ekki eru efni til annars en að líta svo á að þessu til samræmis hefði átt að skýra áðurnefnda 4. mgr., sem nú er fallin brott úr lagagreininni, á þann hátt að henni hafi verið ætlað að sporna við truflunum á rekstri fjarskiptavirkis af völdum raflagna, pípna eða leiðslna, sem síðar yrðu lagðar. Í orðalagi 2. mgr. 64. gr. laga nr. 81/2003 kemur hvergi skýrlega fram að reglan þar hafi að þessu leyti víðtækara gildissvið en eldri reglan, sem hún leysti af hólmi, þannig að hún gæti nú náð meðal annars til raffanga og raflagna, sem voru þegar fyrir hendi áður en fjarskiptavirki varð til. Gagnvart þeim aðstæðum, sem uppi eru í málinu, myndi slík skýring á orðalagi þessa ákvæðis að auki skerða réttindi stefnda, sem varin eru af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, enda væri honum þá ekki aðeins gert að sæta með lögum almennri skerðingu á eignarréttindum sínum, svo sem heimilt er í þágu almannahagsmuna, heldur jafnframt að bera kostnað af skerðingunni.”

Í framhaldi af þessum dómi Hæstaréttar er ljóst að skoða þarf hver skuli bera kostnað við lagfæringar við þær aðstæður að truflanir á fjarskiptasambandi verða af völdum raffanga og raflagna sem fyrir eru þegar fjarskiptavirki er staðsett og skiptir þá ekki máli hvor viðkomandi raffang er í lagi eða ekki.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 418/2016

 

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

17 − eleven =