,

Fréttir af félagsmönnum

EMC nefnd ÍRA er meðal annars til ráðgjafar og aðstoðar félagsmönnum ef á þarf að halda. Á liðnu ári 2016 komu upp tilvik þar sem nefndin aðstoðaði félagsmenn sem urðu fyrir truflunum eða þá að sendingar frá stöð hjá þeim truflaði. Málin voru farsællega til lykta leidd. Þessar upplýsingar komu meðal annars fram í skýrslu formanns ÍRA á aðalfundi á dögunum. Formaður EMC nefndar ÍRA er Sæmundur Þorsteinsson, TF3UA og fjarskiptaverkfræðingur.

Fréttin um TF3UA sem fylgir – birtist í tímariti Háskóla Íslands sem er nýkomið út. Þar er meðal annars sagt frá frumkvöðlum í rannsóknum og þróun á sviði fjarskipta.

Karl Sölvi Guðmundsson dósent og Sæmundur E. Þorsteinsson lektor, báðir við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild

„Smábátasjómenn eru oft einir um borð í bátum sínum og því eru engin vitni ef eitthvað alvarlegt gerist eins og þegar menn falla fyrir borð. Við viljum þróa kerfi sem lætur stjórnstöð vita ef sjómenn falla fyrir borð og hvar þeir nákvæmlega eru staddir.“

Þetta segir Sæmundur E. Þorsteinsson, sem hefur sérhæft sig í fjarskiptaverkfræði, um nýtt verkefni sem hann vinnur nú að ásamt Karli Sölva Guðmundssyni, dósent í tölvuverkfræði. Hugmynd þeirra er að auka öryggi sjófarenda til muna og nýta til þess internet hlutanna sem mjög er til umræðu í fjarskiptaheiminum.

„Internet hlutanna snýst um að setja skynjara í ýmsa hluti og nota fjarskiptatækni, sem krefst afar lítils afls, til að koma upplýsingum frá skynjaranum til miðstöðvar. Rannsókn okkar lýtur að því að nýta þessa hugmynd til að skynja ef sjómaður fellur fyrir borð og mæla staðsetningu hans og gera viðvart.“

Sæmundur segir að verkefnið sé unnið í samvinnu við Samgöngustofu sem vilji mjög gjarnan að lausnin verði að veruleika. „Við vinnum einnig með Vegagerðinni, sem kemur að staðsetningartækninni, en einnig eru samtök smábátaeigenda afar áhugasöm um verkefnið. Svo fengum við góðan styrk frá Tækniþróunarsjóði,“ segir Sæmundur.

Karl Sölvi segir að rannsóknin komi til með að nýtast samfélaginu býsna vel því unnt sé að útfæra hugmyndina fyrir fleiri en smábátasjómenn. „Þannig gætu t.d. björgunarsveitarmenn borið búnað af þessu tagi og jafnvel rjúpnaskyttur. Þessir aðilar gætu þá kveikt á búnaðinum lendi þeir í háska. Búnaðurinn myndi þá senda út staðsetningu viðkomandi og sendingin hafa nokkurra kílómetra drægni. Þetta gæti aukið verulega líkur á björgun.“

Þeir félagar segja það skilyrði að búnaðurinn krefjist mjög lítillar orku og fái hana úr rafhlöðu sem þurfi að endast a.m.k. í eitt ár, helst þrjú.

„Svona fjarskiptabúnaður hefur komið fram á sjónarsviðið undanfarin misseri. Í tengslum við þetta ætlum við líka að prófa nýja evrópska staðsetningarkerfið Galileo sem nú er verið að setja upp,“ segir Karl Sölvi.

Þeir félagar segja að Íslendingar eigi mikið undir staðsetningartækni og nauðsynlegt sé að þekkingu á því sviði fari fram í landinu. Rannsókn þeirra bæti einmitt við þá þekkingu.

Heimild: Tímarit Háskóla Íslands 2017.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

four × 1 =